Upplýsingar

Jólahugleiðing sr. Huldu Hrannar M. Helgadóttur á upptöku sem birtist á fésbókarsíðu Kvennakirkjunnar árið 2020.

 Saman með hjálp Guðs.    

     Elsku Guð: Umvefðu okkur kærleika þínum og nálægð. Opna þú hjörtu okkar og tala þú til okkar, blessaðu okkur þessa stund.  Í Jesú nafni.  Amen. 

     Náð sé með þér og friður frá Guði.

     Því svo elskaði Guð heiminn, því svo elskaði Guð þig og mig, að hún ákvað að setja ekki nefnd í málið heldur gaf einkason sinn  til að hver sem á hana trúir glatist ekki heldur hafi eilíft líf. (Jóh.3:16)  Ást Guðs er mikil okkur til handa.  Og um jól fögnum við fæðingu frelsarans.  Til okkar berst ljómandi dýrð Drottins og orð engilsins frá Betlehemsvöllum sem mælti til hirðanna.  „Sjá ég boða yður mikinn fögnuð, sem veitast mun öllum lýðnum, yður er í dag frelsari fæddur.”(Lk.2:10-11)   Fögnuður og frelsi eru yndisleg orð.  Og ekki einungis orð heldur gjafir sem okkur eru gefnar af ást Guðs.

     Það var talsvert lagt á Maríu að fá þetta hlutskipti að bera son Guðs í heiminn.  Jesús varð elstur 7 barna hennar.  Ef til vill átti hún fleiri börn en það vitum við ekki .  Alla vega átti hún 4 drengi og tvær stúlkur.  Svo Jesús átti nóg af systkinum.  Svo það má ætla að það hafi oft verið fjör á þeim bæ eins og annars staðar þar sem mörg systkini koma saman og annir miklar.  María var 12-15 ára þegar hún var útvalin til að gegna mikilvægu hlutverki sem ekki var auðvelt, en hún átti trú  á Guð og trú á kraftaverk og andi hennar gladdist í Guði.  Og hún var ekki ein.  Elísabet frænka hennar hafði einnig hlotið blessun, orðið barnshafandi þrátt fyrir að vera hnigin að aldri. Og hún og barnið sem hún bar undir belti þekktu hlutskipti Maríu. María hefur þurft að hafa sterka trú og vera töggur í henni til að geta axlað hlutskipti sitt. Það er ekki auðvelt að skera sig úr hópnum. Og því hefur verið dýrmætt að hafa frænku sína sér við hlið og búa hjá henni í um 3 mánuði á meðgöngunni.  Einnig kemur til sögu eftir fæðinguna Anna spákona sem þekkti hlutskipti hennar og barnsins sem frelsar heimsins.  Já gott systrasamfélag er mikilvægt og dýrmætt, að fá að endurspegla hugsanir sínar og orð með öðrum og lofa Guð saman.  Já því var hagað svo til að þær stóðu ekki einar, heldur saman með hjálp Guðs.

     Ást, gleði og frelsi eru yndisleg orð og það er gott ef við fáum lifað í þeim.  Okkar er með hjálp Guðs að brjóta niður múrana í hringum okkur og ganga út í frelsið sem frelsarinn gefur okkur með ást Guðs í hjarta okkar og allt um kring og njóta gleðinnar sem okkur er gefin og birtist okkur sterkt um jól.   Guð er nálægur okkur hverri og einni í okkar aðstæðum. Ef við setjumst við fætur Jesús og hlýðum á hann og meðtökum orð hans, þá verður það ekki tekið frá okkur.  Það verður styrkur okkur.

     Stöndum saman systur. Og styðjum hverja aðra á lífsins göngu og miðlum af kærleika Guðs, frelsi og gleði.  Guð elskar okkur og kraftaverkin eru til staðar í lífi okkar.  Opnum augu okkar fyrir þeim.   Guð styrki okkur í þrá okkar eftir gleði og nýju lífi.  Guði er enginn hlutur um megn. Amen.

 Bæn

     Elsku Guð: lof sé þér fyrir dýrð þína sem birtist okkur um jól.   Opna þú hjörtu okkar fyrir ást þinni og kærleika. Fylltu hjörtu okkar af gleði þinni og frelsinu sem þú færðir okkur.  Við þökkum þér fyrir nálægð þína og styrk sem þú gefur okkur á hverjum degi.   Hjálpa þú okkur til að standa saman og styðja hver aðra og hjálpaðu okkur til að þiggja þann stuðning sem við þurfum. Vertu með þeim sem eiga um sárt að binda og þeim sem lífið reyndir á.  Umverf þau kærleika þínum og miskunn.  Við minnumst þeirra sem sofnuð eru.  Þau hvíli í friði og þitt eilía ljós lýsi þeim. Blessaður okkur jólin. Í Jesú nafni.  Amen