Komum saman og mótum starf Kvennakirkjunnar

Þá er kominn tími til að Kvennakirkjukonur komi saman og móti starfið næstu mánuðina. Í þeim tilgangi verður opin stýrihópsfundur í sölum Kvennakirkjunnar að Þingholtsstræti 17, fimmtudaginn 8. janúar kl. 16:30. Allar Kvennakirkjukonur er boðnar sérlega velkomnar að taka þátt í að móta starfið framundan.

By |6 janúar 2015 13:24|Fréttir|

Gleðilegt ár !

Gleðilegt nýtt ár.  Guð gefur þér það sem þér þykir þig skorta og bætir við það sem þú átt.  Hún dýpkar og víkkar traust okkar á undursamlega kristna trú okkar. Hún elskar okkur og treystir á okkur í baráttunni við að bæta veröldina.  Það er mikill heiður og gleði eins og  við höfum margreynt.

Við ætlum nú á nýju ári að beita okkur að ýmsu eins og fyrri árin.  Við ætlum að bjóða rithöfundum.  Við ætlum  að halda áfram að gera okkur grein fyrir því hvað fólk er að hugsa um kristna trú í þjóðfélaginu núna.  Við ætlum líka að gá að hvað við getum gert til að mæta kvíðanum. Og við ætlum að gá að nýjum orðum í guðfræði okkar.  Við þurfum að hugsa nýjar hugsanir og það gefur okkur enn sem fyrr gullin tækifæri til að hjálpast að við að komast að niðurstöðum.  Þess vegna sendi ég til að byrja með pistla með hugmyndum um fyrsta verkefnið:   Hvar er trúin núna?

Blíðar kveðjur, Auður Eir

By |2 janúar 2015 15:14|Dagleg trú|

Gleðileg jól

Ég heyri meira blaður um jólin en ég sagði í síðustu kveðju.  Aftur og aftur heyri ég á þessari aðventu að smábarnið í vöggunni sé eitt af öllum börnum veraldar og ekkert meira en það.  Það minni okkur á að öll börn eru dýrmæt.  Það er áreiðanlega dagsatt.  Öll börn eru dýrmæt, undursamleg og yndisleg.  Það besta sem þau eiga er að barnið í jötunni var meira en venjulegt barn.  Það var Guð sem var komin til fólksins síns.  Til að hjálpa því og vera hjá því og verða frelsari heimsins og hverrar einustu manneskju sem þiggur.  Guð er komin til veraldarinnar sem hún á.  Hún er komin til þín.  Það er þess vegna sem við höldum jól. Til hamingju með jólin skrifaði eitt af börnunum sem tengjast okkur.  Ég sendi kveðjuna áfram til þín.

Guð gefi þér gleðileg jól.  Auður

By |21 desember 2014 13:59|Dagleg trú|

Jólamessa í Háteigskirkju

Jólamessa verður í Háteigskirkju sunnudaginn 28. desember kl. 14:00. Sr. Arndís Linn prédikar. Hallfríður Ólafsdóttir leikur á flautu og með henni kemur Flautukór Reykjavíkur sem skiptaður er 7 ungum flautuleikurum. Anna Sigríður Helgadóttir syngur einsöng. Sungin verða jólalög við undirleik Aðalheiðar Þorsteinsdóttur. Kaffi í safnaðarheimili Háteigskirkju.

By |19 desember 2014 17:58|Fréttir|

Undursamleg eru jólin

Hið sanna ljós sem upplýsir hverja manneskju kom nú í heiminn, segir um jólin í upphafi Jóhannesarguðspjalls.   Ég heyri nú sem fyrr margt blaðrið um komu jólanna.  Svo sem að þau hafi verið heiðin hátíð sem var púkkað uppá og gerð að jólunum.  En sannleikrinn er sá að margir grísku heimspekingarnir sem tóku á móti trúnni á Jesúm Krist vildu ólmir sameina kristna trú og grísku heimspekina.  Einn þeirra sem hét Íreneus og lifði til 202 taldi þjóðráð að velja jólum og páskum hátíðisdaga grískrómverskrar menningar.  Það skiptir engu.  Það sem skiptir öllu er að hið sanna ljós sem upplýsir hverja manneskju kom nú í heiminn.  Guð er komin.  Hún kom og var Jesús.  Frelsari heimsins sem gefur þér frið og fögnuð eins og þú hefur margreynt.  Til hamingju með það.  Blíðar kveðjur, Auður

By |17 desember 2014 13:59|Dagleg trú|

Þá sá ég trú þeirra skýrar

Ég hef verið að vitna í bókina Transforming the Faiths of our Fathers sem kom út 2004.   Delores S. Williams, háskólakennari og rithöfnudur byrjar sína grein svona:  Ég er svört kona – það er allt of stutt yfirlýsing um svo flókin veruleika.  Ég er svört kona – kona Guðs, eins og mamma og mamma hennar og hennar mamma – þrællinn.  Þessi trú styrkti það hvort tveggja sem þær kenndu mér, að ég er svört og kona.  Þegar Delores varð femínisti kom upp barátta milli kristinnar trúar hennar og femínismans.  Kvennaguðfræðin styrkti hana og hún gekk í lið með womanistum – konum sem skrifa guðfræði sína frá sjónarmiði afrísk amerískra kvenna.  Með því, segir hún, sá ég skýrar trú mömmu, mömmu hennar og hennar mömmu:  þrælsins.  Ég vona að það komi til góðs í samtali kvennaguðfræðinnar.  Gott að heyra þetta, blíðar kveðjur,  Auður Eir

By |15 desember 2014 21:14|Dagleg trú|

Réttlætisbaráttan, vináttan og samfélagið skiptir öllu

Ada María Isasi-Diaz er brautryðjandi í mujerista guðfræði, guðfræði frá sjónarmiði kvenna í Suður-Ameríku.  Hún segir að réttlætisbaráttan, vinátta og samfélag hafi verið aðalatriði lífs síns.  Ég er sannfærð um að við getum ekki barist fyrir kvenréttindum nema í vináttu og samfélagi hver við aðra.  Það er útilokað að koma upp réttlátu skipulagi í háskólasamfélaginu, kirkjunni og á víðari sviðum þjóðfélagsins ef samfélag okkar og samstaða er ekki grundvöllurinn í okkar eigin lífi.  Ég get alla vega vitnað um það hvað við komum miklu í framkvæmd þegar við hittumst.  Ég get líka vitnað um það hvað við eyðileggjum mikið þegar við gleymum hver annarri eða notum hver aðra eða samtök okkar til að auka okkar eigin veg.  Gott er að heyra þetta, blíðar kveðjur, Auður Eir

By |12 desember 2014 21:10|Dagleg trú|

Letty Cottin Pogrebin – ein af stofnendum Ms

Ein af konunum sem sáust í heimildarmyndunum um kvennahreyfinguna í Ameríku sem var sýnd í sjónvarpinu nýlega er Letty Cottin Pogrebin, ein af stofnendum tímaritsins Ms.   Letty er Gyðingur og alin upp í trúnni  sem gladdi hana og styrkti.  Ég yfirgaf skipulagt trúarsamfélag af því að það útilokaði konur og gaf mönnum ráðin.  En ég sneri aftur til gyðingdómsins með hugmyndir sem ég hefði ekki fengið nema í kvennahreyfingunni.   Mamma og pabbi höfðu hvort sína sýn á trúna.  Synagógan var vettvangur pabba, sagan, textarnir og hefðirnar.  Trú mömmu snerist um fegurð og þokka trúarinnar.   Ég valdi hvort tveggja.  Mamma sagði hiklaust að það skipti hana meira að gera mig sterka heldur en að fylgja öllum trúarreglunum.   Gott að heyra þetta, blíðar kveðjur,  Auður Eir

By |10 desember 2014 22:43|Dagleg trú|

Konur hafa mátt og ábyrgð til að endurlífga trúarhefðirnar

Judith Plaskow er ein af forvígiskonum kvennaguðfræðinnar.  Hún er Gyðingur og segir frá áhuga sínum  í upphafi kvennabaráttunnar á áttunda áratugnum á að finna eigin form á guðþjónustunni og umræðu um trúna og femínismann.  Það var erfitt.  Hún var háskólakennari og í maí 1981 söfnuðust sextán konur saman á helgarráðstefnu sem varð grundvöllur fyrir áframhaldandi umræðu og baráttu fyrir áhrifum femínismans á gyðingdóminn.  Judith er sannfærð um að  konur eigi mátt og ábyrgð til að endurlífga trúarhefðirnar og hélt uppi óþreytandi umræðu í háskólanum, trúarsamfélaginu og kvennahreyfingunni.  Svona konur breyta heiminum.  Gott að heyra þetta,  blíðar kveðjur, Auður Eir

By |5 desember 2014 22:00|Dagleg trú|

Guðþjónusta í Dómkirkjunni

Aðventu guðþjónusta Kvennakirkjunnar verður að þessu sinni í Dómkirkjunni í Reykjavík. Hún byrjar kl. 14 sunnudaginn 7. desember. Sr. Auður Eir Vilhjálmsdóttir predikar.Elín Þöll Þórðardóttir segir frá kirkjunni sinni í Kanada.  María Sól Ingólfsdóttir syngur eisnöng,  Aðalheiður Þorsteinsdóttir stýrir söngnum og kvennakirkjukonur syngja. Á eftir komum við saman á kirkjuloftinu og hægt verður að kaupa kaffi fyrir 700 krónur. Þær sem sjá sér fært að koma með meðlæti fá alúðar þakkir.

By |1 desember 2014 22:07|Fréttir|