audurilitminnstÍ Frakklandi tekur fólk stundum út eldhússtóla og lítil borð og setur á gangstéttina utan við húsin sín í síðdegissólinni og dreypir á rauðvíni. Ég las í kirkjublaði að maðurinn sagði við konu sína: Komdu og sestu hjá mér. Þú hefur sannarlega rétt til þess. Þau voru roskin hjón og búin að skila löngum vinnudegi ævinnar. Nú höfðu þau sannarlega rétt til að sitja í síðdegissólinni og horfa á umferðina.

Nú eru gleðidagar. Dagarnir eftir páska eru merktir sem gleðidagar í kirkjunni. Verum glöð. Njótum þess sem við höfum gert. Þökkum Guði fyrir líf okkar og treystum því að hún gefi okkur kjarkinn til að njóta þess sem var og er. Það þarf stundum kjark til að láta ekki alla vega amstur og sérkennilega vitlausar og algjörlega óþarfar hugsanir fipa okkur. Eða hvað segir þú um það? Það er ekki alltaf á okkar valdi að losna við ýmsar fáránlegar boðflennur í hugarheimum og njóta síðdaga í sólinni svo yndislegt sem það er fyrir okkur. Þá kemur upprisan. Máttur upprisu frelsara okkar sem Guð vinkona okkar færir okkur. Hún gefur okkur þennan undursamlega frið og mátt í mótlæti okkar svo við stöndumst það og í síðdegissólinni svo við tökum hiklaust á móti og njótum og gleðjumst. Þú veist það. Þú hefur séð það. Aftur og aftur. Það er yndislegt. Tökum á móti gleði Guðs í mótlæti og meðbyr.

Blíðar kveðjur, Auður