bibliaJóhannes 10. 22 – 42
Þú gerir sjálfan þig að Guði þótt þú sért bara maður
Hér kemur margt fram sem er engu síður kapprætt um nú en þá. Það er spurningin um Jesúm: Hver var hann? Hver er hann? Ef þú ert Kristur skaltu segja okkur það, sagði fólkið. Og Jesús segir sem áður: Ég er margbúinn að segja ykkur það. Ef þið trúið því ekki þegar ég segi ykkur að ég er Guð þá getið þið trúað því af því sem ég geri. Einmitt, sögðu valdamennirnir, við ætlum ekki að taka þig af lífi fyrir verkin heldur fyrir guðlast. Þú ert bara maður og það er guðlast af þér að segja að þú sért Guð. Spurningin er enn til umræðu. Og enn sagði Jesús: Það eru bara mínir sauðir sem sjá hver ég er. Það er aðeins hægt að sjá það í trúnni. En ég á mína sauði. Ég gef þeim eilíft líf og þau verða ekki slitin úr hendi minni. Gleymum því ekki að það stóð öllum til boða að vera með í hjörðinni.