EpictetusEpiktet var heimspekingur í Litlu Asíu og fæddist um árið 50. Hann var leystur frá þrældómi og setti á fót skóla sem margir sóttu. Epiktet vildi snúa hug áheyrenda sinna að æðstu viðfangsefnum. Hann skrifaði ekki bækur en nemandi hans skrifaði orð hans hjá sér. Það er ekki víst að Epitket hafi skrifað til kvenna og því ósanngjarnt að snúa máli hans á mál beggja kynja.

Epiktet sagði að við skyldum gera okkur grein fyrir því að sumt væri á okkar valdi en annað alls ekki. Hann sagði það sem svo oft er endurtekið, ég veit ekki hvort hann var fyrstur til að segja það, að það sé ekki það sem gerist sem valdi okkur áhyggjum heldur viðhorf okkar til þess. Ef eitthvað raskar hugarró okkar eða hryggir okkur skulum við ekki kenna öðrum um það heldur rekja það til viðhorfa sjálfra okkar. Hann sagði að vanþroskaður maður þekkist á því að hann sakar aðra um það sem honum finnst fara miður. Hann sé nokkuð kominn á veg ef hann kennir sjálfum sér um. En sannmenntaður maður ásaki hvorki aðra né sjálfan sig.

Úr Handbók Epiktets, Hver er sinnar gæfu smiður í þýðingu dr. Brodda Jóhannessonar. Almenna bókafélagið hf. 1993.