Friður Guðs sé með ykkur. Mig langar til að tala um þessi orð í Jóhannesarguðspjalli:
(Jóh. 1.9) Hið sanna ljós sem upplýsir hverja manneskju kom nú í heiminn.
Eftir þetta góða sumar og milda haust veit ég að ég er ekki ein um það að hafa hugsað fyrir ekki svo löngu: Misminnir mig? Er ekki óskaplega dimmt hérna á veturna? Á morgnana var bjart þegar við í fjölskyldunni vorum að fara í skóla og vinnu. En svo gerðist þetta, og það ótrúlega hratt, að það varð kolniðamyrkur. Alveg rétt! Hugsaði ég; svona er þetta, mig misminnti ekki. Óskaplega er myrkrið svart.
Þess vegna hefur Halla kerling verið mér ofarlega í huga undanfarið. Þessi úr Vísnabókinn, við gamla ljóðið:
Ljósið kemur langt og mjótt
logar á fífustöngum
Halla kerling fetar fljótt
framan eftir göngum.
Hún er lágvaxin, gömul, slitin og frekar alvarleg á svip. Jafnvel svolítið smeyk. Það er ábyggilega kalt í torfkofanum þar sem hún býr og kannski er hún þar hjú og hefur í sjálfu sér aldrei eignast neitt allan þann tíma sem hún hefur lagt hart að sér við vinnu sína. Langt og mjótt ljósið lýsir bara í lítinn hring i löngum ógnvekjandi en kunnuglegu göngunum. Bak við hana er langur skuggi sem umlykur hana. Hún fetar fljótt til að vera þar ekki of lengi.
Hún er formóðir okkar, þótt hún hafi kannski ekki átt neina afkomendur. Hún er hluti af forsögu okkar samt. Hefur unnið mikið, fengið lítið hrós kannski, enga upphefð, lítur ekki stórt á sig og býst ekki við miklu.
En hið sanna ljós, sem upplýsir hverja manneskju, var að koma í heiminn. Orðið, sem var í upphafi hjá Guði, er að fara að verða manneskja eins og við, ætlar að fara að deila kjörum með okkur. Um það hugsum […]