Upplýsingar

Auður Eir Vilhjálmsdóttir
ræða í guðþjónustu Kvennakirkjunnar í Seltjarnarneskirkju
sunnudagskvöldið 18. febrúar 2024
Þetta er afmælismessa.  Við erum 31 árs.  Og ætlum að spyrja hver aðra hvað við gerðum í 31 ár.  Ég treysti því að þú haldir ræðuna með mér.  Eins og alltaf.  Allar ræður eru okkar ræður.
Í stuttu máli þá tókum við hver aðra að okkur og pössuðum að okkur liði öllum vel.  Það er ekki alltaf hægt, sögðum við, stundum getur okkur ekki liðið vel og við skulum taka því.  Við sögðum hver annarri að Guð huggar og hughreystir, gefur okkur hugrekki og gleði og fer aldrei og trúir alltaf á okkur.  Hún þarfnast okkar eins og við þörfnumst hennar.  
Við hittumst aftur og aftur og alltaf í öll þessi ár.  Til að vera saman hjá Guði og hver með annarri.  Við lásum Biblíuna og báðum og sungum sálmana með Öllu, buðum gestum til að segja okkur margt og mikið og fórum í ferðalög.  
Einu sinni kom frábær kona og talaði um sálfræði.  Hún sagði að við ættum grundvöll í sjálfum okkur þar sem tilfinningar okkar væru eins og fræ sem yxu upp í huga okkar.  Við værum eins og tveggja hæða hús.  Við töluðum um það, vissum að við erum alltaf tilbúnar til að taka á móti þekkingu um sjálfar okkur.   Það er einfaldlega af því að við viljum sjálfum okkur og hver annarri allt það besta. 
Það skiptir svo miklu máli að við skiljum sjálfar okkur.  Við töluðum um það á mánudaginn var hvaða orð við vildum hafa um það þegar okkur liði vel með okkur sjálfum.  Við vorum sammála um að við skyldum vera sáttar við okkur.  Við gætum sagt að við værum ánægðar með okkur, værum í jafnvægi eða hvíldum í sjálfum okkur.  Við gætum haft það ennþá litríkara og sagt að við fyndum til okkar.   Við vorum sammála um að við finnum ekki til okkar  nema við séum sáttar við okkur.  Það er bara meiri ljómi yfir því að finna til okkar.  Það er svo miklu skemmtilegra.  
Við höfum talað um það í öll 31 árin okkar að við eigum sterkari og litríkari grundvöll en það sem býr í sjálfum okkur.   Hugur okkar og tilfinningar,  öll líðan  okkar hvílir í trúnni á Jesúm Krist, á Guði sem er vinkona okkar.  Það hefur breytt sjálfum okkur og öllu lífi okkar að vita það og treysta því og lifa í því.  Við eigum ekki bara grundvöllinn í trú okkar heldur í Jesúi sem gefur okkur trúna.  Hann sagði það sjálfur.  Þið eruð í mér eins og greinarnar eru á trjánum.  V
Við höfum talað um trú okkar og trúarbrögðin sem eru allti í kringum okkur og fólk laðast að. Ein af skrítnu setningunum í Biblíunni er að Jesús segir að Guð fyrirgefi okkur þótt við séum ekki vissar í trú okkar en hún fyrirgefi okkur ekki ef við tökum ekki á móti því sem hún gefur okkur.  Það stendur svona:  Ykkur verður fyrirgefið að mótmæla mér.  En ykkur verður ekki fyrirgefið að mótmæla heilögum anda.  
Stórskrítið.  Skyldi það ekki skipta okkur máli að gá betur að þessu?  Mundu nú að þú ert að flytja þessa predikun með mér og vertu ósammála eða sammála því sem ég segi,  bara eins og þú hugsar eða finnur eða hvað sem við viljum kalla það. 
Jesús sagði oft að fólk lifði llífinu í trúnni á sig þótt það vissi ekki að það væri að lifa í trúnni á sig.  Það ætti andann sem hann gæfi og hann einn getur gefið.  Af því að hann einn á þennan anda.  Ætli þetta leysi ekki bara umtalið sem við eigum stundum um kristna trú og aðra trú?  Jesús sér  hver trúa á hann og við þurfum ekkert að vera að dæma um það, við megum lifa í trúnni.  Og varðveita hana og segja öðrum frá henni.  
Og ætli það sé ekki líka svarið við því að treysta sjálfum okkur eða treysta Jesú.  Það er ófyrirgefanlegt að taka ekki á móti því sem Guð vill gefa okkur.  Ég held að það þýði að ef við viljum ekki þá fáum við ekki.  Það er bara ekki hægt.  
Listen darling, eins og konan sagði.  Þegar við treystum Jesú betur en sjálfum okkur og tökum bara einfaldlega á móti því sem hann gefur okkur þá hvílum við í sjálfum okkur.  Við tökum bara einfaldlega á móti því sem Guð gefur okkur.  Við hlustum á hana og  erum bara hjá henni og stundum segir hvorug okkar neitt.   En  allt líf okkar verður líf með henni.  Það kemur bara af sjálfu sér.  Af því að við tökum á móti því sem hún gefur okkur.   
Hvað segirðu? Amen