Prédikun sr. Döllu Þórðardóttur í aðventuguðþjónustu Kvennakirkjunnar

Prédikun sr. Döllu Þórðardóttur prófasts í aðventuguðþjónustu Kvennakirkjunnar í Grensáskirkju.

Segja má að aðallega megi skipta fólki í tvo hópa.  Annars vegar eru þau, sem hafa kraft til að halda áfram veginn, þrátt fyrir áföll. Við segjum stundum að sumt fólk þurfi að þola meira en sinn skammt af missi og vonbrigðum, og við skiljum ekki hvernig það getur farið á fætur, stundað vinnu, hlegið og sýnt öðrum samúð. 

Svo er nefnilega önnur tegund af fólki, sem er síkvartandi; þessi tegund fólks er að kikna undan álaginu. Þessum persónum finnst að þær beri mesta ábyrgð í vinnunni og að þær séu alltaf beðnar um stærstu og þyngstu verkefnin. 

Hvað veldur því að fyrir þessu fólki er lífið byrði en fyrir hinu, sem fyrr var talað um, þá er lífið gott? 

Í jólaprédikun veltir presturinn Rudi Popp í Strassborg þessu fyrir sér, en ég hlusta oft á hann á netinu. 

Auðvitað er fólk misjafnlega saman sett og hefur erft ýmist veikleika eða styrk. 

Svo skipta tengsl og traust miklu máli. Börn sem eiga traust samband við foreldra eignast oft það sem kalla má sveigjanleika, en það er hæfni til að komast í gegnum sorgir og mótlæti. 

Þegar við lesum um vegferð Jesú í Jóhannesarguðspjalli, komumst við ekki hjá því að finna til með honum, hvað hann þurfti að líða, en jafnframt finnum við þennan sveigjanleika, hann ekki bara afbar lífið, hann naut þess.  Þarna er engin dramtík, engin sorg, hann fagnar lífi sínu. 

Skýringin?  Jú, í frásögn Jóhannesar er það kjarni lífs Jesú að hann er sendur af föðurnum. 

Jesús á traust samband við Guð.  Þeirra samband er okkur fyrirmynd. 

Jesús fékk það verkefni að koma hingað til jarðar sem eitt af okkur og að hverfa aftur til Guðs. 

Guð var viðstaddur á þennan hátt.  Þannig er […]

Prédikun Séra Auðar Eir Vilhjálmsdóttur í Seltjarnarneskirkju

Séra Auður Eir Vilhjálmsdóttir
Predikun í guðþjónustu Kvennakirkjunnar í Seltjarnarneskirkju 14. nóvember 2021

Þá sagði Jesús:  Sáðmaðurinn fór út að sá.  Sum fræin féll við götuna og fuglar komu og átu þau.   Sum féllu í grýtta jörð og visnuðu í heitu sólskininu.  Sum féllu í þyrna og þistla sem kæfðu þau.  En sum féllu í góða jörð og komu upp og urðu að stórkostlegri uppskeru.

Nú skaltu hlusta á þetta, sagði Jesús.  Guð blessar okkur orðið sitt.  Amen

Ég kem ekki til með að segja eitt einasta aukatekið orð sem þú hefur ekki heyrt mig segja áður.  Ég lofa þér því eins og er sagt til að fullyrða eitthvað.  Það er auðvitað hallærislegt að sitja hérna og segja ekkert annað en það sem þú hefur heyrt hundrað sinnunm. Hvað er gaman að því?  Það er sérlega ömurlegt af því að  við erum í sporum frelsara okkar sem sagði það sem fólk hafði aldrei heyrt áður.  Þau urðu svo frá sér numin að þau urðu nýjar manneskjur og allt lífið breyttist.   

Við erum búnar að lesa fyrstu fimm kaflana í Markúsi.  Það stendur þar hvernig þetta var.  Það var ekki allt fólkið sem heyrði Jesúm tala sem heyrði hvað hann sagði.  Eins og við heyrðum í ritningarlestrinum.  Sum nenntu ekki að pæla í því.  Sum vildu heldur hlusta á eitthvað annað.  Sum máttu bara ekki vera að því.  En.  Sum heyrðu og hlustuðu og urðu nýjar manneskjur.

Jesús talaði við allt þetta fólk.  Hann gaf því alveg ný ráð til að nota í daglegu lífinu.  Daglegt lífið skiptir okkur mestu.  Vertu ekki alltaf að dæma, sagði hann.  Ekki dæma hin.  Og ekki dæma sjálfa þig.  Gerðu það sem þér finnst rétt, hafðu trú á þér og haltu þínu striki.  Ef […]