Upplýsingar

Gleðileg jól góða fólk. Guð blessar okkur. Ég vona að jólin hafi verið þér góð og þú hafir glaðst í trú þinni. Yfir jólaguðspjallinu sem barst okkur einu sinni enn með undursamlegan boðskap sinn. Einu sinni enn heyrum við jólaguðspjallið í kvöld og hugleiðum englasönginn á Betlehemsvöllum. Og ferð hirðanna inn í fjárhúsið þar sem þau sáu Jesúm. Guð var komin, frelsarinn var fæddur. Nú varð allt nýtt.

Ættum við að hugsa okkur að við stæðum hérna fyrir framan kirkjuna eða kannski úti á Klambratúni hérna rétt hjá eða uppi í Öskjuhlíð sem er líka svo nálægt? Allar saman í kvöldmyrkinu. Og þá heyrum við englana syngja. Fyrir okkur. Og bjóða okkur til að fara og sjá Jesúm. Og við förum niður í Þingholtsstræti þar sem við hittumst fyrr í Kvennakirkjunni. Það er svo einfalt að hugsa okkur að við göngum þar inn af götunni. Og þar eru þau, María og Jósef og þetta undursamlega litla barn. Eða gætirðu hugsað þér að það væri heima hjá þér? Að þú værir þar í grenndinni með öllu fólkinu þínu og allri stórfjölskyldunni og vinkonum og vinum. Og englarnir syngja og þið farið öll heim og þar er Jesús nýfæddur af því að þið gáfuð þeim Maríu og Jósef húsaskjól.
Það er svo gott að hafa leyfi til að flytja þennan mikla heimsviðburð inn í okkar eigið líf. Og njóta hans eins og allar aðrar manneskjur um alla veröldina fyrr og síðar mega gera og hafa gert, svo margar svo margar, og orðið öllum hinum til blessunar með trú sinni. Af því að viðburður jólaguðspjallsins hefur breytt allri veröldinni. Ekki höfðu hirðarnir hugmynd um það hvernig fagnaðarerindið sem þau heyrðu á völlunum og í fjárhúsinu átti eftir að fara um heiminn öld eftir öld. En það varð mikil og margslungin saga.

Fyrst vakti hún svo mikinn fögnuð að þau sem heyrðu hana lögðu allt á sig til að varðveita hana og gera hana að aðalatriði lífsins og segja öðrum frá henni. Þau þoldu háð og spé og ofsóknir en nutu líka aðdáunar og gleði yfir öllum þeim sem bættust í hópinn sem varð stærri og stærri. Af því að þau sem komu löðuðust að kærleika þeirra sem voru þar og því sem þau sögðu um Guð sem var komin og var í þeirra hópi, eins og þau, en um leið miklu meiri og máttugri, óendanlegt góð og skilningsrík og máttug. Hún hafði skapað allan heiminn en samt komið til þeirra til að vera eins og þau. Þau urðu að útskýra það sem var samt ólýsanlegt.

Hvernig var Jesús Guð og hvernig var Guð Jesús? Hvernig var hægt í heimi sem miðaði allt við lærða heimspeki að varðveita trúna á mann sem var Guð og reis upp frá dauðum og var hjá þeim? Og hvernig var svo hægt þegar játningarnar voru mótaðar og Nýja testamentið ákveðið og kirkjan skipulögð að varðveita þar lifandi áhuga í staðinn fyrir að falla í formfestu eða leysast upp í óteljandi kenningar? Hvernig var hægt að varðveita trúna á Krist í baráttu við múhameðstrúna sem barðist við að leggja heiminn undir sig? Og hvernig var hægt að staðhæfa að trúin á Krist væri sannleikurinn þegar bráðsnjallir heimspekingar og vísindamenn sögðu að trúin á Guð væri fín en trúin á Krist væri bull? Þeir sögðu að Jesús hefði verið góð manneskja en hann hefði alls ekki verið Guð. En um leið og allt þetta var sagt var líka sagt að þótt allir spekingar veraldarinnar segðu að Jesús væri ekki Guð og að Biblían væri bara eins og allar aðrar bækur þá stæðist það um alla eilífð að Jesús er Guð sem kom og er og verður alltaf hjá okkur.

Við sem sitjum hérna saman í kvöld höfum margvíslegar skoðanir á sameiginlegri kristinni trú okkar. Eða það held ég. Og ég held að það sé eðlilegt og ég held að það sé gott og ég held að við vekjum hver aðra til nýrra hugsana sem gera okkur gott. Ég held að við leitum öll eftir grundvelli fyrir líf okkar, fyrir lífsskoðun okkar og fyrir daglegt líf okkar, fyrir framkomu og viðbrögð við lífinu. Ég held að finnum að mistökin draga okkur niður ef við sökkvum okkur niður í þau. Og að það er svo miklu betra að finna að við erum þrátt fyrir allt heilar og sannar og bara góðar manneskjur. Og það er það sem jólaguðspjallið gefur okkur vissuna um.

Þér er í dag frelsari fæddur. Hvað sem við hugsum um trú okkar þá er þetta áreiðanlegt: Guð er komin. Hún er Jesús. Jesús er Guð. Og þess vegna getur hann ekki bara gefið okkur ráð heldur líka kraftinn til að nota þau í lífi okkar. Og það er grundvöllur kristinnar trúar, okkar og allra, alltaf um allar liðnar og ókomnar aldir. Það getur verið að þér finnist það ekki alveg ganga upp að hugsa þér að Jesús hafi fæðst heima hjá þér. Það er líka bara hugmynd til að glæða trú okkar eins og margar aðrar hugmyndir sem við skiptumst á til að gleðja okkur. En auðvitað vitum við öll að Jesús fæddist í Betlehem fyrir rúmlega tvö þúsund árum.

En þótt þér finnist ekkert heillandi að hugsa þér að hann hafi fæðst heima hjá þér þá er það alveg áreiðanlegt og líka heillandi og óumræðilega stórkostlegt og gleðilegt að hann býr heima hjá þér. Þegar þú kemur heim í kvöld þá er hann þar. Af því að hann er Guð. Hún sjálf sem skapaði þig. Hún býr hjá þér. Og vináttan við hana sem kom og er Jesús er grundvöllur undursamlegrar kristinnar trúar okkar.

Látum það búa í hjarta okkar þegar við Inga syngur fyrir okkur og Arna og Hallfríður og Alla spila fyrir okkur og við syngjum sjálf saman. Við tökum aftur upp þráðinn þar sem við enduðum áðan í prédikuninni. Við hugleiddum það hvernig við ættum grundvöll alls lífs okkar í kristinni trú okkar. Öll þessi guðþjónusta og allar aðrar messur okkar og allrar kristinnar kirkju fyrr og síðar eru um þetta, grundvöllinn í kristinni trú, trúnni á jólaguðspjallið um Guð sem kom og varð Jesús.

Ég fór lítillega yfir örlítið af vangaveltum aldanna um guðfræði kirkjunnar en ég get sagt meira frá þeim seinna ef þið viljið en það er lærdómsríkt að lesa söguna sem gerðist á undan okkur. Næstum öll guðfræði aldanna var skrifuð af mönnum. Og í kirkju sem var skipulag manna var sem oftast gerður munur á prestum og óvígðu fólki. Prestar voru stundum taldir nær Guði. Svo kom Lúter og sagði að allt fólk væri prestar, vegna skírnarinnar, bæði konur og menn. Og þá spruttu nýjar hugmyndir í kirkjunni og konur fóru að taka þátt í öllum sviðum lífsins. Og þær fóru að skrifa guðfræði. Það er aðallega á næstsíðustu öld sem konur fóru að skrifa sína eigin guðfræði, sem er kvennaguðfræðin sem við lesum og gleðjumst yfir og breytir lífi okkar. Kvennaguðfræðin hefur alltaf verið skrifuð af margskonar konum sem sátu og stóðu við margskonar borð, við skrifborð og eldhúsborð og saumaborð og búðarborð og alls lags önnur borð.

Líka núna. Hjá okkur í Kvennakirkjunni sem höfum skrifað saman kvennaguðfræði okkar í næstum sextán ár. Nú bíður nýtt ár eftir okkur. Það verður ár erfiðleika en það verður líka ár möguleika. Við í Kvennakirkjunni getum notað það sem tækifæri. Og við megum til með það. Og nú skal ég segja okkur hvað við höfum hugsað okkur sem verkefni til vorsins. Við höfum hugsað okkur að bjóða hver annarri nú til vorsins til þrenns konar verka. Í fyrsta lagi til guðþjónustunnar. Í öðru lagi til að búa til fleiri form fyrir guðþjónustuna. Í þriðja lagi til að hugleiða saman möguleikana sem við eigum í trú okkar til að mæta erfiðleikunum sem bíða okkar og láta þá verða okkur til góðs.

Nú skal ég útskýra þetta betur. Við notum mánudagskvöldin sem við höfum alltaf tekið frá til námskeiða. Á mánudagskvöldum í janúar, snemma, svo að við getum átt kvöldin heima á eftir, á mánudagskvöldum frá klukkan fimm til sjö, verður opið hús hjá okkur á Laugavegi 59, og við hittumst til að búa til fleiri messuform. Aðalheiður söngstjóri okkar verður með okkur og gefur okkur sérstaka þekkingu sína og við getum allar sem viljum tekið þátt í starfinu. Þetta verður á fjórum mánudagskvöldum í janúar og byrjar mánudagskvöldið fimmta janúar klukkan fimm. Vertu velkomin. Í janúar byrjum við líka að hugsa saman um leiðir til að takast á við það sem á eftir að gerast í þjóðlífi okkar á næsta ári. Við hvetjum hver aðra til djúpra hugsana og notum heimasíðuna okkar til að koma hugsunum okkar á framfæri hver við aðra. Við getum allar lagt fram hugmyndir okkar, spurningar og umræðuefni og svarað hver annarri. Við höfum ekki spjallrás en við getum skrifað á netfang okkar kvennakirkjan@kvennakirkjan,is og einhverjar okkar setjast við tölvuna á hverjum degi og skila því sem þið skrifið inn á heimasíðuna. Svo í febrúar og mars höfum við opið hús um þetta í stofunum okkar á Laugavegi á öllum mánudagskvöldum. Við eigum eftir á ákveða tímann sem við gerum í sameiningu. Við bjóðum til okkar þeim sem við viljum til að tala við okkur og skýra hugsanir okkar. Vertu innilega velkomin og við getum lesið nánar um þetta allt á heimasíðunni okkar: Kvennakirkjan.is.

Hverjar skyldu nú verða í forystu fyrir þessu? Það eru þær sem eru skrifaðar hér á listann. Það eru of mörg nöfn til að lesa þau öll. Það eru 250 skráðar kvennakirkjukonur, og 100 konur á póstlistanum og 100 konur sem koma í messurnar. Nú kveikjum við ljós fyrir okkur allar. Þau eiga sér festu í kertastjökunum frá henni Margréti Jónsdóttur listakonu og kvennakirkjukonu á Akureyri sem bjó þá til og gaf okkur. Þeir eru tákn um vináttu okkar og samheldni og ljósin eru tákn um sameiginlegt verk okkar sem er ljós fyrir sjálfar okkur og þau sem eru í kringum okkur. Við skiptum allar máli í þessu verki, eins og við skiptum allar öllu í öllum guðþjónustum okkar.

Ég veit að sumar okkar kæra sig ekki um að taka beinan þátt í þessu sem við erum að ráðgera, en þið eruð samt mikilvægar. Við biðjum ykkur að biðja fyrir starfinu og það er óendanlega mikilvægt. Og ykkur sem viljlið taka þátt í því biðjum við líka að biðja fyrir því og koma svo og gleðjast og leggja fram hugmyndir ykkar. Nú skulum við kveikja á kertunum og komið þið nú sem fenguð eldspýtustokka og kveikið fyrir okkur og látum ljós trúar okkar lýsa í hjarta okkar. Takk fyrir.