Upplýsingar

Guð gerir allt nýtt

Gleðilegt ár og takk fyrir öll árin sem við höfum átt saman. Yndislegt er að hittast í kvöld.

Þegar ég kom tók söngurinn á móti mér frá Öllu, kórnum og Önnu Siggu. Og Herdís og Sigrún voru komnar til að leggja á borðið fyrir kaffið. Svo streymduð þið allar að og ég held að friðurinn fylli hjarta okkar allra. Við ætlum að tala um það sem Biblían segir um að allt verði nýtt. Hvað vilt þú að verði nýtt í þínu lífi?

Ég hugsa að við viljum allar flikka ögn upp á samskiptin sem við eigum við aðra. Ekki að ég haldi að við séum ókurteisar, en það fer bara stundum ýmilsegt úrskeiðis og það er svo gott þegar við lærum betur að umgangast okkur og annað fólk. Það eru alltaf þessir sífelldu samhljómar milli samverunnar með hinum og samverunnar við okkur sjálfar. Eða finnst þér það ekki?

Biblían er full að dæmalaust góðum ráðum beint frá Guði. Ráðum um okkur og annað fólk. Þau berast frá öðrum og frá okkar eigin reynslu. Við skulum taka á móti öllu sem gerir líf okkar betra. Við skulum borða gulrætur og hreyfa okkur og halda okkur í skefjum og vera opnar og allt sem við teljum að sé gott. Það bætir allt samskiptin við hitt fólkið af því að það bætir samskiptin við sjálfar okkur. Við fáum fullt af ráðum í Fjallræðunni. Vertu hógvær en samt kjarkmikil.

Berstu fyrir réttlætinu en sjáðu hvar þú getur barist. Annastu annað fólk og annastu þig sjálfa. Biblían segir okkur að þetta sé allt byggt á miklu dýpri vissu en þessari sem bætir svona hversdaga okkar og skiptir svo miklu. Það er hin djúpa vissa að Guð eigi allt. Hún á heiminn. Og heimurinn er bæði vondur og góður.

Við sjáum það og finnum á þessum dögum þegar vinkonur okkar horfast sumar í augu við djúpa sorg og sjúkdóma og mótlæti. Við segjum það alltaf, við skulum alltaf, alltaf biðja hver fyrir annarri. Og treysta því að lífið sem er erfitt núna verði aftur gott. Af því að við treystum því að Guð gerir allt nýtt. Aftur og aftur.

En sá dagur kemur að Guð skapar nýjan heim. Það verður þegar Jesús kemur aftur. Og það er enn dýpra en vissan sem felst í skikkanlegri framkomu okkar dag eftir dag. Vissan um möguleika okkar í dagsins önn eða einsemd er sprottinn upp úr vissunni um að Guð á allt og gætir alls. Hún kom á jólunum og varð ein af okkur, Jesús frelsari okkar. Og hann kemur aftur einn daginn og gerir allt nýtt.

Síðasti textinn sem Margrét las er dæmisaga Jesú um heiminn sem er eins og deig í höndum konu. Hún hefur heiminn í hendi sér og setur Guðsríkið í hann miðjan. Og þar breiðir það úr sér og lyftir heiminum og verður honum til blessunar. Heimurinn breyttist þegar vinkonur og vinir Jesú fóru að útbreiða fagnaðarerindi hans í mætti upprisunnar. Og það gerist líka núna. Og við fáum að taka þátt í því. Þú ert líka deig í höndum Guðs.

Við eigum ljóð eftir Öllu Bozart-Campbell í Ameríku. Það er um brauðgerðarkonuna Guð. Hnoðaðu mig, brauðgerðarkona Guð, með sterku brúnu höndunum þínum. Ég er brauðið þitt sem er vel hnoðað og lyftist. Þú setur mig inn í eldheita ofninn þinn og tekur mig út heita mjúka og stökka og brýtur mig og dýfir mér ofan í löginn þinn einstaka, þitt eigið blóð, og grípur mig og lyftir mér upp. Guð brauðgerðarkona, gerðu mig nýja. Hvernig líst þér á þetta?

Að vera brauð í hendi Guðs sem ert bæði brotin og heil, alltaf í hendi hennar, hvernig sem þú ert. Hún hnoðar þig aftur og aftur og gerir þig heila og mjúka og ilmandi, dag eftir dag? Hvernig heldur þú að þú hjálpir Guði til að gera allt nýtt? Hvar heldur þú að þú standir í þjóðfélagi okkar sem er alltaf að skipta okkur í hópa?

Ég hef heyrt það sagt aftur og aftur á undanförnum vikum að sum okkar tilheyri lægri miðstétt og sum efri miðstétt. Hvar heldurður að þú fallir inn í skilgreininguna? Og hvað ætli sé fyrir ofan og neðan þessar stéttir? Ég kæri mig ekki um þessa greiningu. Ég held að það sé best að halda sig við það að vera allar eitt.

Við höfum mismunandi störf og mismunandi hæfileika. Við erum allar vinkonur Jesú sem vinnum með honum að því að gera allt nýtt. Í djúpu trausti þess að hann geri okkur nýjar dag eftir dag, frelsi okkur frá því sem bindur okkur og gefi okkur nýjan mátt og nýja mildi. Við erum deig í höndum Guðs. Hver fyrir sig og allar saman. Eins og möndlukrónan sem sumar okkar bökuðu fyrir börnin okkar.

Það eru litlar bollur sem er vellt upp úr kanel og sykri og raðað saman og bakaðar allar í eina ilmandi köku. Það er yndislegt. Við erum alla sérbakaðar en samt allar bakaðar saman. Hugsum um það fram að næstu messu að við erum deig í höndum Guðs. Amen