Upplýsingar

Guðþjónusta í Kirkju Óháða safnaðarins á fyrsta sunnudegi í aðventu, 1. desember 2013

Stundum byrja ég á obbóstuttri sögustund með örfáum góðum sögum.  En núna byrjum við með örfáum vondum sögum, algjörum hryllingssögum.

Það er sagan um ægilega storminn á Filippseyjum.  Og flóðin í Þýskalandi og snjóstorminn í Ameríku.  Þetta er alveg nóg af sögum.  Þær verða að enn meiri hryllingssögum þegar það fréttist að það er ekkert gert með þær.  Fólkið á Filippseyjum hrópar að hamfarirnar séu  öllum heiminum að kenna.  En veröldin vill samt ekki hætta að breyta loftslaginu.  Hún vill bara halda áfram að hugsa um peninga.

Biblían segir urmul af svona hryllingssögum.  Um hamfarir í náttúrunni og um hamfarir í stríðum þar sem vondir kóngar réðust á þjóðir og einstaklinga.

Það  var af öllu þessu skelfilega sem gerðist og heldur áfram að gerast sem við sitjum hér í kvöld.   Það var af því að Guð brást við þessu.   Jesús kom af því að veröldin var vond.  Hún var svo vond að Guði leist ekki á blikuna og sá að hún verð að gera róttækar aðgerðir.  Hún varð að koma sjálf.  Hún kom og var Jesús.    Hún sagði að hún væri komin til að fá heiminn til að hlusta og finna jafnvægið og hamingjuna sem hann gæti átt.

Jesús sagði það í dæmisögunni um víngarðinn.  Hún stendur í 21. kafla Matteusarguðspjalls.  Hún segir frá landeigandanum sem plantaði víngarð og leigði hann vínræktarmönnum.  En þegar hann ætlaði að fá leiguna þverneituðu þeir að borga og drápu innheimtumennina.  Svo að vínyrkinn sendi son sinn, en leigendurnir drápu hann líka og sögðu að úr þessu gætu þeir rólegir slegið eign sinni á garðinn.

En það varð ekki svoleiðis.  Þegar Guð kom og varð ein af okkur og varð Jesús frelsari okkar, byrjaði nýtt líf.  Hún stofnaði Guðsríkið og kallar allar manneskjur til að berjast á móti því sem er vont og með því sem er gott.

Arndís sagði í síðustu predikun frá innkaupapokanum í amerísku tískubúðinni sem hafði biblíutilvitnun í botninum.  Það er Jóhaannes 3.16:  Því svo elskaði Guð heiminn að húm kom sjálf.

Og við heyrðum í ritningarlestrinum hvernig var sagt frá þessu í upphafi Jóhannesarguðspjalls:  Í upphafi var Orðið.  Og Orðið var hjá Guði.  Og Orðið var Guð.  Hið sanna ljós sem upplýsir allar manneskjur kom nú í heiminn.  Guð  kom til eignar sinnar og öll sem tóku við henni urðu vinkonur hennar og vinir.

Ég sleppi setningunni í kvöld um þau sem tóku ekki á móti henni.  Við ætlum ekki að tala um það núna heldur um  þau sem tóku á móti henni og urðu vinkonur hennar og vinir og samstarfsfólk.  Við skulum tala um óendanlega blessun okkar að fá að vera í hópnum.

Það er hópur sem vinnur í vináttu.  Við eigum vinkonur og vini.  Það er fólk sem við eigum.  Þau gera lífið gott og öruggt og við gerum þeirra líf gott og öruggt.  Þau hafa í mörgu átt svipað líf og við og þegar við tölum saman vita þau hvað við tölum um og skilja okkur.    Það er engu líkt að eiga fólk.  Það er eins að eiga Guð, nema enn undursamlegra.  Hún veit hvað við tölum um af því að hún var líka manneskja.  Þess vegna skilur hún allt sem við segjum henni.  Og af því að hún er líka Guð skilur hún það miklu betur en við gerum sjálfar og sjálf.  Hún sér það sem við sjáum ekki.  Og hún hjálpar okkur til að sjá það eins og hún sér það og breyta því sem við þurfum svo að við getum séð það eins og hún sér það.

Við skulum tala um það.  Við skulum tala um það hvernig við megum sjá okkur eins og Guð sér okkur.  Aðventan er tími til að undirbúa okkur fyrir jólin, taka til í skápum og í hjarta okkar.  Eins og við syngjum saman á öllum aðventum:  Henda, geyma, hafa fremst.  Ár eftir ár tökum við okkur saman og förum yfir allt sem við þurfum og viljum.  Við eigum alltaf þetta góða tækifæri.  Hvað vilt þú tala um við Guð?  Hvað viltu segja henni?  Hvað viltu biðja hana um og hvað viltu þakka henni fyrir?

Það heldur lífi okkar í skefjum og lyftir því og gleður að við eigum þetta mikla tækifæri, tækifærið til að tala við Guð um allt

Veröldin er bæði vond og góð.  Þótt það sé skelfilegt að  heimurinn vilji ekki láta sér segjast eftir hörmungarnar á Filippseyjum er það undursamlegt að fólk hefur flykkst þangað til að hjalpa.  Við erum sjálf bæði vond og góð.   Við finnum það aftur og aftur að við gerum bæði það sem kvelur okkur og það sem gerir okkur gott.  Allt fólkið í kringum okkur er  eins og við.   Það var bara hún sem kom og var Jesús sem var alltaf góð og alltaf vitur.

Og hún er vinkona okkar.  Vinkona þín.   Aðventan er til að gefa okkur næði til að sökkva okkur niður í þann undursamlega sannleika.  Og endurbæta líf okkar einu sinni enn.

Það er hið mikla fagnaðarerindi nú sem alltaf. Amen