Upplýsingar

Prédikun í guðþjónustu í Neskirkju 8. september 2013 , Arndís G. Bernhardsdóttir Linn[/title] Guð frelsar okkur aftur og aftur.

,,Ég fyrirverð mig ekki fyrir fagnaðarerindið. Það er kraftur Guðs sem frelsar hvern þann mann sem trúir.“ Rómverjabréf 1.16.

Góðar fréttir ferðast hratt – þær þjóta á milli fólks og það fylgir þeim gleði. Þú getur eflaust rifjað upp einhverjar góðar fréttir sem þú hefur fengið og þú manst kannski eftir tilfinningunni, spennunni, kitlinu í maganum. Kannski varstu pínu æst eða æstur og  þú gast ekki beðið eftir að færa fleirum fréttirnar. Dásamlegt ferli sem getur að sjálfsögðu ekki farið af stað nema þú treystir því að fréttirnar séu réttar.

Nema þú treystir. Traust er eitt af grundvallar atriðum í mannlegum samskiptum. Traust er einhvern vegin límið sem heldur svo ótalmögrum samskiptum og samböndum saman. Og við þurfum að læra að treysta – æfa okkur í að treysta aftur og aftur svo traustið vaxi og dafni og auki velsæld okkar í lífinu.

Trúin er líka byggð á trausti. Að trúa er að treysta því að Guð sé með okkur og að hún þrái að vera hluti af lífi okkar.  Fagnaðarerindi Kristinnar trúar eru gleði fréttir, dásamlegar fréttir. Vandamálið með þessar fréttir er að þær eru svo góðar að það er kannski erfitt að trúa þeim, sérstaklega ef maður er ekki viss um að þær séu réttar!   Og um hvað snúast eiginlega þessar dásamlegu gleðifréttir?

Kjarni Fagnaðarerindisins, eins og við heyrðum hér í upphafi messunnar, er um ást Guðs sem Jesús Kristur birtir okkur. Guð elskaði heiminn svo mikið að hún gaf einkason sinn til þess að hver sem á hana trúir glatist ekki heldur hafi eilíft líf. Þetta þýðir með öðrum orðum að Guð elskaði okkur að fyrrabragði. Hún sá að við áttum í pínu basli, stundum meiri segja töluverðu basli með tilveruna og ákvað að frelsa okkur til betra lífs, frelsa okkur til eilífs lífs.

Það að Guð elskar okkur að fyrra bragði er virkilega mikilvægt því þá getum við verið við sjálf, þurfum ekki að reyna að vera eitthvað annað er við erum. Þurfum ekki að gera eitthvað ákveðið til að þóknast henni. Við þurfum aðeins að trúa og treysta því að hún elskar okkur nákvæmlega eins og við erum.


Trúarglíma Marteins Lúthers, sem Kirkjudeildin okkar heitir eftir, snérist einmitt um þetta. Lúther fannst Guð gera óendanlegar kröfur á sig sem hann átti erfitt með að uppfylla.  Hann bjó í klaustri, bað og fastaði, las Biblíuna og lærði guðfærði , reyndi á allan ómögulegan og mögulegan hátt að gera Guði til hæfis. Samt leið honum bara verr og verr  og varð sífellt örvæntingarfyllri,  þangað til hann uppgötvaði að Guð elskaði hann að fyrra bragði – Það eina sem Lúther þurfti að gera var að trúa – treysta loforðum Guðs. Treysta því að Guð frelsaði hann til einhvers stórkostlegs. Og hann trúði og treysti og Guð leiddi hann til þess að kljúfa Kaþólsku kirkjuna og stofna nýja kirkjudeild. Guð frelsaði hann til að gera eitthvað sem hann hafði alls ekki ætlað sér að gera. Frelsaði hann til að gera eitthvað miklu meira og stærra en hann hafði nokkurn tíman órað fyrir.

Guði finnst við nefnilega harla góð eins og við erum og hún er tilbúin til að frelsa okkur til framtíðarinnar. Og frelsun hennar er algjörlega ótútreiknanleg, mikilfenglegri en okkur gæti nokkurn tíman órað fyrir. Hún frelsar okkur til að vera þau sem hún ætlaði okkur að vera , til að standa með sjálfum okkur, vera heiðarleg, ,sterk, hreinskiptin, sjálfum okkur samkvæmt. Hún frelsar okkur til uppgötva og nota hæfileika okkar og til að taka þátt í þjáningu annarra.  Og hún frelsar okkur líka til að fara nýjar leiðir og taka áhættu.  Og þessi undursamlega frelsun Guðs, sem hún býður okkur á hverjum degi, oft á dag,  hefur áhrif á öll tengslin í lífi okkar.  Hún hefur áhrif á samband okkar við Guð, samband okkar við annað fólk og ekki síst samband okkar við okkur sjálf.

Bara ef við æfum okkur í að trúa og treysta.

Biblían er stútfull af ýmiskonar staðhæfingum frá Guði sjálfri um að hún sé traustsins verð. Þar er líka aragrúi af sögum af fólki sem treysti Guði í ótrúlegum aðstæðum og Guð reyndist traustsins verð. Sumum dugar að lesa  og með taka þennan boðskap til að finna traustið. Aðrir þurfa sterklega á því að halda að upplifa til að getað treyst og svo eru það enn önnur sem eiga í vandræðum með að treysta jafnvel þótt þau geti skilgreint ýmiskonar upplifanir í lífi sínar í ljósi trúarinnar. Og það er svo sannarlega ekkert af þessu betra eða verra en annað, það er einfaldlega vitnisburður um að við erum ólík og fjölbreytt og það er allt í lagi.

Þegar við æfum okkur í trúnni, æfum okkur í því að tengjast Guði og gefast henni í hversdeginum þá lærum við smátt og smátt að sjá líf okkar í ljósi trúarinnar. Við sem erum svo ólík og margvísleg upplifum þessa reynslu og þessa vissu á fjölbreyttan og ólíkan hátt – en kannski er okkur ekkert alltof tamt að segja öðrum frá henni, kannski erum við feiminn, kannski hrædd við að enginn trúi því sem okkur finnst svo stórkostlegt.

Mig langar til að segja ykkur örstutt hvernig ég sé Guð að verki í mínu lífi, einfaldleg vegna þess að það tengist þessari stund.
Fyrir átta árum, meðan ég var að læra guðfræði, keypti ég mér bók og las hana. Hún hafði djúpstæð áhrif á mig. Hún er satt best að segja ein af fáum bókum sem ég hef grátið yfir. En ég grét ekki af því hún væri sorgleg – nei þvert á móti grét ég því mér fannst hún frelsandi. Ég velti þessari bók lengi fyrir mér og sauð saman vísu eða bæn til að reyna að koma orðum að þessari upplifun minni. Bænin er svona:
Gefðu mér Guð að finna
Þá gleði sem veitt getur þú
Og vex meðal vinkvenna þinna
Í einlægri vissu og trú

Kannski eru einhver ykkar búin að átta ykkur á hvað bók þetta var. Já , Bókin sem ég las var bók Auðar Eir, Gleði Guðs sem læknar sektarkennd, kvíða, einsemd og reið og gefur fyrir gefningu frelsi , frið og feminisma.

Áður en ég sótti um embætti prest hjá Kvennakirkjunni þekkti ég Kvennakirkjuna bara af afspurn. – Hefði mig fyrir öllum þessum árum, þegar ég böglaði saman þessari bæn,  órað fyrir því að ég myndi standa í þessum sporum hér í kvöld? Hefði ég í mínum villtustu draumum getað ímyndað mér að ég yrði af ást og alúð tekin inní samfélagið sem ég hafði dáðst að úr fjarlægð?
Þegar ég horfi til baka og velti þvi fyrir mér hvað það var sem hafði svona sterk áhrif á mig þegar ég las Gleði Guðs þá er ég viss um að það var þetta traust sem ég skynjaði. Þetta staðfasta traust á Guði og vissan um gleðina sem fylgir því að leyfa Guði að frelsa sig, aftur og aftur og aftur.
Þegar ég samdi bænina vissi ég ekki hvers ég bað og ég vissi ekki að Guð hefði hlustað svona gaumgæfilega á mig. Guð hefur bænheyrt mig langt fram yfir það sem ég hafði hugmyndaflug til að ímynda mér.

Ég tek undir með sálminum sem við sungum áðan
– Ég trúi – á hverjum degi læri ég að treysta Guði betur og betur. Á hverjum degi æfi ég mig í að sleppa tökunum og leyfa henni. Það gengur misvel og það er ekki alltaf auðvelt en það er eðlilegt og það er allt í lagi.  Þeim mun betur sem ég læri að treysta, þeim mun meiri gleði og frið finn ég í hjartanu. Og ég get tekið undir með Páli postula, Ég skammast mín ekki fyrir fagnaðarerindið, fyrir þessar gleðifréttir því ég hef reynt þær á eigin skinni. Ég finn að það er kraftur Guðs sem frelsar hvern sem trúir.

Þess vegna finn ég spennu í maganum, svona kitl, ég verð pínu óðamála vegna þess að ég er með gleðilegar fréttir , algjörlega útópískar fréttir. Fréttir sem tók mig mörg ár að læra að trúa og treysta, og ég er ekki enn fulkomnlega búin að meðtaka þær. Og það er allt í lagi, ég bara held áfram að æfa mig.  En ég get bara ekki beðið, mig langar svo að þið getið heyrt þessar stórkostlegu fréttir líka.
Guð sem skapaði þig og elskar þig segir við þig ,,treystu mér“ og  ef þú leyfir henni þá frelsar hún þig til einhvers sem þig óraði ekki fyrir – Eru það í alvörunni  ekki bestu fréttir í heimi?