Upplýsingar

Föstudagurinn langi á Skólavörðuholti

Auður Eir Vilhjálmsdóttir

Lesum um föstudaginn langa í frásögu MarkúsarHermennirnir fóru með Jesú inn í höllina,  kölluðu saman alla hersveitina, færðu Jesú í purpurakápu  og fléttuðu þyrnikórónu og settu á höfuð hans.  Þeir tóku að hæða hann og segja:  Heill sér þér, konungur Gyðinga,  og slógu hann í höfuðið og hræktu á hann.   Þeir leiddu hann út til að krossfesta hann.Þeir fóru með hann til Golgata og krossfestu hann.  Tveir ræningjar voru krossfestir með honum.  Þau sem gengu fram hjá hæddu hann, eins gerðu æðstu prestarnir og fræðimennirnir gys að honum og þeir sem voru krossfestir með honum smánuðu hann líka.  Á hádegi varð myrkur um allt landið.  Jesús kallaði hárri röddu og gaf upp andann.  Og fortjald musterisins rifnaði í tvennt.Þannig hljóðar hið heilaga orð Guðs sem blessar okkur.  Amen

Í dag ætlum við að tala um föstudaginn langa.  Þá hékk Jesús á krossinum í sólarbreyskjunni með glæpamönnum, sárþyrstur og einmana og öllu svo lokið að honum fannst meira að segja að Guð hefði yfirgefið sig.

Við höldum áfram frá síðustu predikun þar sem við skildum við Jesúm þegar dyrnar lokuðust á eftir honum þegar hann var leiddur inn í dómssalinn við Lækjartorg.  Það var sama kvöldið sem hann hélt síðustu veisluna með fólkinu sínu og fór svo út í Alþingisgarðinn til að tala við Guð.  Og þar var hann handtekinn.

Og nú tölum við um föstudaginn langa og hugsum okkur að við séum komin upp á Skólavörðuholt.   En Jesús er ekki krossfestur.  Hann er ekki dæmdur í fangelsi.  En það á að taka hann í sundur.  Það á að eyðileggja mannorð hans, svo að það verði talað hroðalega um hann í fjölmiðlum og yfir kaffibollum um allt landið .  Fólk á að  fyrirlíta hann svo að  hann verði útskúfaður og fái hvergi vinnu.  Það gerði nú ekkert til, því hann hafði sjálfstæðan atvinnurekstur.  En rógurinn gæti orðið til þess að engin vildu kaupa af fyritækinu hans.  Engin vildu kaupa fagnaðarerindið eins og það er stundum orðað núna.  Við skulum nú sjá hvernig það fer.

Hugsum okkur að félög sem eru má móti kristinni trú hafi skorað á Jesúm að mæta á Skólavörðuholtið til að svara spurningum fyrir framan sjónvarpsmyndavélar og blaðafólk.   Þetta fólk segir að hann hafi logið  um sjálfan sig.  Hann hafi þóst hafa stofnsett eitthvað Guðsríki sem gæti breytt heiminum, en það sjáist bara hvergi.  Hann hafi sagst vera meiri en aðrir sem stofnsettu líka  svona hreyfingar og fratað á trúfrelsið í stjórnarskránni.  Og hann hafi blekkt fjölda fólks til að vera í sinni hreyfingu.  Hann sé svikari og loddari.

En þá gerist það.  Fjöldi fólks kemur gangandi upp Skólavörðustíginn, og Frakkastíginn, Freyjugötuna,  Njarðargötuna, Lokastíginn,  Eiríksgötuna og Þórsgötuna.  Þúsundir og þúsundir, fólk af öllu landinu.  Það eru lúðrasveitir með og allt fólkið syngur sama sálminn.   Það syngur:  Jeús er frelsari heimsins. Jesús er Frelsari okkar.  Jesús er Frelsari minn.  Jesús er Guð vinkona okkar sem er komin til okkar.

Jón og Birgir, prestarnir í Hallgrímskirkju  hafa rúllað út stóra sjónvarpsskjánum sem nær hátt upp á turninn og þar birtast myndir frá öllum heimshornum.  Þessi sami sálmur hljómar þar á mörgum, mörgum tungumálum.  Milljónir og milljónir syngja:   Jesús er Guð.  Guð er komin í Jesú til að frelsa okkur frá vitlausum hugmyndum okkar.

Söngurinn hljómar langa lengi og loks mælir Jesús nokkur lokaorð og blessun og fólk fer burt, talar saman og er glatt og elskulegt.  Við förum í litlum hópum frá okkur numdar af gleði.  Og Jesús slæst með í alla hópana.  Eins og hann slóst í hópinn einu sinni með fólkinu á leið til Emmaus.

Við finnum þegar Jesús gengur með okkur og talar við okkur að hann  er Guð vinkona okkar.  Við segjum honum  allt sem býr í hjarta okkar.  Þegar við erum komnar niður Bankastræti  segjum við við hann:  Mikið er það fallegt af þér að gefast aldrei upp á okkur.  Við sjáum vel hvað við erum ómögulegar.  Við höngum alltaf í eldgömlum mistökum okkar og erum svo daufar og tregar, svo tilbreytingarlausar og leiðinlegar.

En Jesús segir:  Það er langt frá því.  Það er mér svo mikils virði að þið talið um þetta allt við mig.  Ég sé hvernig þið treystið mér dag eftir dag,  í öllu sem þið gerið.  Ég sé hvað þið eruð frjálsar, hvernig þið takið á móti fyrirgefningu minni á hverjum einasta degi og fyrirgefið sjálfum ykkur.  Ég sé hvað þið eruð mildar og máttugar, hugrakkar og skemmtilegar.  Það er stórkostlegt fyrir mig að eiga ykkur sem vinkonur.

Við erum komnar inn í Þingholtsstrætið.  Og við trúum því sem Jesús segir um okkur.  Við föðmum hann og kyssum hann í kinnina.  Við hlæjum af gleði,  mitt í þessum mikla föstudeginum langa.  Af því að við vitum það sem fólkið  vissi ekki fyrir 2000 árum.  Við vitum að Guðsríkið kom og hefur vaxið og vaxið í 2000 ár.  Það hefur unnið  kraftaverk eftir kraftaverk, af því að Guð kom og varð eins og við.

Við höfum þetta stórkostlega  tækifæri til að segja allt.  Og þegar við opnum dyrnar og göngum inn í stofurnar okkar í Þingholtsstrætinu  segjum við við hann:  Þú veist að við finnum allar þessar skelfilegu tilfinningar inni í sjálfum okkur.  Þær sem við töluðum um í gær, hræðilega óvildina hjá körlunum sem heimtuðu að láta krossfesta þig og kæruleysið og fíflalætin í fólkinu sem þeir fengu til að æpa með sér þótt það vissi ekkert hvað var um að vera.  Og hugleysið hjá Pílatusi.  Þær koma alltaf aftur og aftur þessar hugsanir þótt við frelsumst frá þeim.

Jesús hengir frakkann sinn í fatahengið.  Svo segir hann:  Ég veit það.  Það er þess vegna sem ég kom. Ég verð að vera hjá ykkur.  Og ég verð hjá ykkur.  Ég held áfram að frelsa ykkur dag eftir dag.  Setjumst og fáum okkur kaffi og konfekt.  Amen