Upplýsingar

Feginleiki léttisins

Prédikun Auðar Eir Vilhjálmsdóttur í Garðakirkju 18. maí 2014

Komið til mín öll sem erfiðið og þunga eru hlaðin, og ég mun veita ykkur hvíld. Takið á ykkur mitt ok og lærið af mér, því ég er hógvær og af hjarta lítillátur og þá munuð þið finna sálum ykkar hvíld. Því að mitt ok er ljúft og byrði mín létt. Matt. 11. 28-30

Í kvöld ætlum við að tala um feginleika léttisins. Það er gott umræðuefni í vorinu þegar brúnin léttist á veðrinu og sjálfum okkur og öllu í kringum okkur. Hvað er feginleiki léttisins? Það er það þegar við verðum svo fegnar yfir því að sleppa undan einhverju sem hefur íþyngt okkur. Þú veist hvernig það er, af því að þú hefur áreiðanlega fundið það margsinnis í venjulegum og sérstökum dögunum. Þegar þú slappst. Þegar hugur þinn léttist. Þú þekkir tilfinninguna. Ég þarf ekki að lýsa henni. En það er gott að rifja hana upp því hún er yndisleg.

Þú átt það skilið að láta þér líða vel. Þú átt það alltaf skilið, en það er ekki alltaf hægt, eins og þú veist. Stundum verðum við að þola það að láta okkur líða illa, hafa áhyggjur, kvíða fyrir, sjá eftir, skammast okkar og hver veit hvað. Það er hluti af lífinu, stundum nauðsynlegt, svo nauðsynlegt að við megum ekki skorast undan því, því þá gerist ekki það sem þarf að gerast okkur og öðrum til góðs. En það er stundum alveg ónauðsynlegt, mesta vitleysa, ekkert nema vitleysan í sjálfum okkur. Við sjáum eftir á að við enn höfum við ekki lært að láta smámunina vera smámuni en látum þá verða að ógn og yfirþyrmingu. Ætli við lærum ekki smátt og smátt að hætta að láta smámunina þjaka okkur? Ég held það bara. Og við lærum líka að taka á okkur byrðarnar sem við verðum að bera. Sem betur fer lærum við það, af því að við komumst ekki hjá þeim.

Það er þegar við losnum undan þeim, nauðsynlegum og ónauðsynlegum, sem feginleiki léttisins fyllir huga okkar. Þegar við verðum aftur frjálsar, þurfum ekki að kvíða þegar við vöknum og ekki að horfast í augu við vanmátt okkar þegar líður á daginn. Við þurfum ekki í dag að glíma við eitthvað sem við ráðum ekki við. Við þurfum ekki í dag að hafa áhyggjur af því sem við getum ekki ráðið fram úr hvernig sem við vildum það samt. Sumt er ekki á okkar snærum að lagfæra, ekki á okkar valdi að hjálpa með öðru en því að standa álengdar og fela Guði málin.

Ég held, og segi það enn sem fyrr, að það sem kann að koma upp í huga okkar án þess að við séum að hugsa um það, þetta eitthvað eitthvað sem getur íþyngt okkur þótt sólin skíni og fuglarnir syngi, það sem við viljum ekki hugsa um en gerum samt, ég held að það séu byrðarnar sem safnast að okkur. Af því að við vitum af því að við höfum séð ýmislegt skuggalegt í lífinu. Það getur gerst aftur. Lítil börn vita þetta líka og það getum líka fyllt huga þeirra þótt okkur finnist það ótrúlegt og óþarfi og vildum líka geta verndað þau frá því. Eða hvað heldur þú?

Okkur bjóðast margs konar úrvalsráð til að létta af okkur byrðunum. Við getum tekið þeim og fylgt þeim eins og við einu sinni viljum. Þegar öllu er á botninn hvolft fyllumst við þessum þungu hugsunum af því að við erum lifandi manneskjur og það er innifalið að þurfa stundum að þola þyngsli byrðanna, óhjákvæmilegra og alveg ónauðsynlegra. Það er þess vegna sem gott fólk gefur góð ráð.

Við erum vinkonur Guðs. Við erum sköpun Guðs. Hún ein þekkir okkur alveg inn úr, allt sem í okkur er. Og hún ein getur létt alaveg af okkur byrðunum og hún ein getur hjálpað okkur alveg að bera byrðarnar sem við verðum að bera. Komdu, ég skal kenna þér það, sagði Jesús í versunum sem ég vitnaði í hérna í upphafi. Hann sagði líka margoft að hann skyldi létta af okkur byrðunum. Það held ég að séu þær sem við erum að hengja á okkur án þess að það sé nokkur ástæða til þess. Hann sagðist hafa fyrirgefið okkur og við skyldum endilega hreint fyrirgefa sjálfum okkur. Hann fyrirgefur okkur fastheldnina við áhyggjurnar, og hann frelsar okkur frá þeim.

Feginleiki léttisins held ég að sé bæði sá að hætta að láta smámunina ráða yfir okkur og hætta að láta hugfallast þótt við verðum að halda áfram að bera ýmsar byrðar. Hvað heldur þú? Við hittumst í Kvennakirkjunni viku eftir viku allan heila veturinn og í guðþjónustunum okkar mánuð eftir mánuð til að hjálpa hver annarri til að láta þetta verða veruleikann sem gefur okkur feginleik léttisins aftur og aftur alla ævi okkar. Biðjum Guð að hjálpa okkur til að sjá hvað við eigum að bera og hvað við eigum ekki að bera. Treystum því að Jesús hjálpi okkur með þetta allt, að Guð vinkona okkar hjálpi okkur til að opna augun og treysta feginleikanum, njóta léttisins, taka á móti gleði og hugrekki og vináttu daganna í allta heila sumar, dag eftir dag. Njótum lífsins. Af því að við erum mildlar og máttugar, hugrakka og skemmtilegar. Af því að við erum vinkonur Guðs. Guð blessar okkur. Amen