Upplýsingar
Ávextir trúarinnar
Prédikun í Seltjarnarneskirkju 14. september 2014 Arndís G. Bernhardsdóttir Linn
Markúsarguðspjall 4. 26 – 32 – að hætti Kvennakirkjunnar:
Jesús sagði okkur þessa dæmisögu: Guðríki er einsog kona sem sáir fræi í jörð. Og þegar hún hefur gert það heldur hún áfram sínu daglega vafstri, bæði sefur og vakir og sinnir verkefnum sínum. Á meðan dafnar fræið og vex – alveg án þess að hún skipti sér af því og hún skilur ekkert í hvers vegna það gerist. Það grær nefnilega allt sjálfkrafa í jörðin, fyrst spýrar fræið, svo læðist upp lítil planta sem að lokum verður stór og ber ávöxt. Og þegar ávöxturinn er orðinn fullþroska, hvort sem hann nú heitir bláber, jarðaber, sólber eða rifsber eða eitthvað allt annað þá setur konan á sig garðhanskana og fer út að safna uppskerunni.
Og Jesús sagði líka: Við hvað eigum við að líkja Guðsríkinu? Hvernig eigum við að lýsa því? Jú Guðsríki er í raun eins og eitthvert smæsta fræ í heimi, svo lítið að þegar því er sáð er það litlu minna en rykkorn. En þegar búið er að sá því í mold, vex það og dafnar og verður stærra en allar aðrar jurtir og fær svo stórar greinar að fuglar himinsins geta hreiðrað um sig í skuggum þeirra.
Haustið er að koma og við í Kvennakirkjunni söfnumst saman til að fanga með Guði og fagna hver annarri . Við fögnum uppskeru haustsins, gleðjumst yfir því sem hefur vaxið og dafnað þetta sumarið hvort sem það nú er í garðinum okkar, í blómapottunum á svölunum eða í hjarta okkar.
Uppskera og ávextir, Fræ og sáning eru stór þemu í Biblíun, hvort sem við lítum til gamla testamentisins eða þess nýja. Þar er talað um fræ sem skrælna, fræ sem dafna, uppskeru sem brestur og uppskeru sem gleður
Jesús sagði margar dæmisögur þar sem allt þetta kemur fyrir. Sú frægasta er væntanlega um sáðmanninn – sem við í bili skulum kalla sáðkonuna – sem gekk út að sá og fræin féllu í misjafnan jarðveg. Sum í grýttan, sum í hrjóstrugan, sum í illgresi og sum í góðan jarðveg. Jesús útlagði þessa dæmisögu fyrir vini sín og vinkonur og útskýrði fyrir þeim að fræið væri Orð Guðs og jarðvegurinn væri til merkis um hvernig sá sem heyrði orðið tæki við því.
Jesús líkti sjálfum sér líka við tré vínviðarins og sagði okkur að við værum greinarnar á því tré. Á hrjóstrugu landi eins og okkar, þar sem ávaxtatré eru enn þá tiltöluega sjaldgæf, rabbabari er það eina sem vex almennilega og ýmiskonar berjalyng virðist lítt burðugt, er ekki sjálfgefið að sögur af fræjum og sáningu hvað þá uppskeru ávaxta séu okkur nærtæk.
Hvaða fræ tré eða planta er þér hugleiknust ??
Þegar ég lít yfir garðinn minn á haustin fer ekkert á milli mála hvaða tré eru duglegust. Það eru Reynitrén. Þau ná marga metra uppí himininn Og stórar greinarnar sligast undan rauðum berjunum, ávöxtum reynitrjánna sem smátt og smátt dreifast yfir allt beðið, stéttina og grasið…..
Það er sérstök tilfinning að standa undir þessum háu trjám og horfa á agnarsmátt frækorn trésins í lófa sér.
Það er svona lítið – ég veit að þið sjáið það ekki….þó ég haldi því hér milli fingra mér.
Það er í raun bæði stórkostlegt en um leið erfitt að skilja að eitthvað svona angar smátt getið orðið eins stórt og mikilfenglegt og teigt anga sína í allar áttir. Ilmað eins og besta ilmvatn og margfaldast svo stórkostlega að á vorin er varla þverfótandi fyrir agnarsmáum reynitrjám sem spretta upp við hvert tækifæri.
Í Guðspjalla textanum sem Guðrún og Elísabet lásu hér áðan líkir Jesú ríki Guðs við smæsta fræ heimsins.
Ég sé fyrir mér að fræ trúarinnar eigi sér svipaðan farveg og fræ reyniberjana. Fræið kemur frá Guði. Orð Guðs finnur sér ýmiskonar farvegi, verður að trúarlegu uppeldi, leiðir til þess að amma kennir barnabarninu sínu bænir og leiðir til vitnisburðar þeirra sem finna fræ trúarinnar spýra í hjarta sínu og geta sagt okkur frá ávöxtunum, rétt eins og Auður gerði hér áðan.
Já fræið sest að í hjartanu. Fyrst ótrúlega veikt, rekst fyrir vindi, lítils megnugt. En svo tekur það að vaxa – á einhvern undarlegan hátt og þú verður vör við að það tekur pláss í hjartanu þínu og þú ferð að veita því meiri athygli, næra það, rækta það og reyna af fremsta megni að finna út hvað er það besta sem þú getur gert til að hjálpa því að vaxa. – og það vex og ólgast innra með þér.
Rifjaðu upp stærsta tré sem þú hefur nokkurn tíman séð? Ekki væri nú verra ef þú myndir eftir einhverju af þessum risastóru trjám sem vaxa í útlöndum og virðast nánast hafa annað erfðaefni en íslensku hríslurnar okkar hér heima.
Ímyndaðu þér að þetta risavaxna tré hefði vaxið innra með þér. Hvaða áhrif myndi það hafa? –
Það myndi gefa þér styrk og öryggi því ræturnar ná langt niður í jörðina og stofninn er sterkur og þykkur – þolir ýmiskonar áreiti. Þú gætir leitað undir greinarnir og fundið skjól og greinarnar myndu með tíð og tíma vaxa út fyrir hjartað og ná til annarra – þær myndu bera ávexti, ávexti trúarinnar.
Biblían er skýr um það hvers konar ávexti tré trúarinnar ber af sér. Ávextir andans, ávextir trúarinnar eru Kærleikur, gleði, friður, langlyndi, gæska, góðvild, trúmennska, hógværð og sjálfsagi. (Gal. 5.22) og á öðrum stað stendur að ávextir trúarinnar séu einskær góðvild, réttlæti og sannleikur. Hverja okkar dreymir ekki um að hafa allt þetta og ekkert annað?
Leyfðu þér að hugsa til þess hvaða ávexti þitt tré, þín trú hefur borið þetta sumarið. Hver er trúaruppskera þín þetta haustið? Er það kærleikur, gleði og friður? Er það gæska, góðvild og hógværð?
Og þarftu nokkuð að leita langt til að rifja upp hvernig ávextir trúarinnar birtast Þér í samferðafólki þínu ? Hversu oft höfum við ekki fylgst með fólkinu í kringum okkur takast á við lífið af æðruleysi, bregðast við ýmiskonar áreiti á jákvæðan hátt, komast hjá því að falla í gryfju öfundar og afbrýðisemi ? Og hversu oft höfum við ekki þakkað fyrir þegar samferðafólk hefur kennt okkur að skilja lífið betur, opnað augu okkar, gert okkur fær um að sjá hlutina frá öðru sjónarhorni. Allt þetta og svo miklu miklu meira færir trúin okkur.
Já fræ Guðs ríkisins er plantað í hjörtu okkar. Guðs ríkið vex innra með okkur og brýtur sér leið út til að bæta, gleðja og næra og gera okkur að betri manneskjum. Það styrkir þig og styður og ber alla þessa yndislegu ávexti. Leyfðu því að vaxa, blómstra, ilma og teygja anga sína og ávexti til annarra. Og vittu til , Guð garðyrkjukona er búin að setja á sig garðhanskana tilbúin til að safna saman allri þeirr uppskeru sem hefur vaxið í þínum garði. Amen.