Upplýsingar

Það var á fimmtudaginn og klukkan hálf fimm og veðrið aftur orðið svo gott og vorlegt eftir bitra kuldann og hálkuna. Við reynum alltaf að hlaupa saman nokkrar frá Kvennagarði niður á Pósthús einu sinni á dag, til að hreyfa okkur og sjá fólk á Laugaveginum, og reka erindi okkar, og stundum förum við í banka og búðir og bakarí í leiðinni.
Á fimmtudaginn hlupum við Elísabet og efst í Bankastrætinu mættum við Siggu Victors sem lengi var í kórnum en á fimmtudaginn í eldrauðri kápu og jafn flott og alltaf. Ég ætla að fara að koma, sagði Sigga, það er bara eitthvað svo mikið um að vera með barnabörnin mín í bili, en það er alltaf svo gott að koma. Og svo hélt hún áfram upp Laugaveginn og við náðum í Pósthúsið af því það var ennþá opið þótt klukkan væri orðin hálf fimm. Og konurnar hlógu og við töluðum um góða veðrið og kuldann sem hefði verið vondur og vorið sem væri aftur komið á gangstéttarnar. Svo fórum við aftur upp í Kvennagarð og fengum okkur örlítið kaffitár sem hinar voru búnar að hella á könnuna. Og svo varð klukkan hálf sex og síðasti tíminn í námskeiðinu um líðan þeirra sem eiga langveika ættingja byrjaði. Það stóð þangað til við sem héldum þetta námskeið saman fórum í einkabílum og strætóum heim til okkar til að hafa kvöldmat og fara út eða slá okkur til rólegheita á eftir.

Manstu hvað þú varst að gera á fimmtudaginn? Þú hefur líka verið eitthvað að hlaupa og stússa og hitta fólk og fara heim og hafa kvöldmat og hver veit hvað? Svona líða dagarnir einn eftir annan og það er eins og við séum að skrifa bók um sjálfar okkur þótt hún sé ekkert skrifuð og komi hvergi út. Svo að ártalið verður ekki útkomuárið heldur árið sem við fæddumst. Og svo koma stundum stór kaflaskipti með nýrri auðri blaðsíðu og svo blaðsíðu með stóru letri í fyrirsögninni. Og svo heldur næsti kafli áfram eins og fyrri kafli með nokkrum feitletruðum fyrirsögnum og svo venjulega letrinu á eftir. Feitletruðu fyrirsagnirnar inni í nýju köflunum geta verið að við fórum í ferðalag, einhver veiktust, þeim batnaði aftur, við móðguðumst, við glöddumst, og svo framvegis og framvegis.

Þetta er allt svipað hjá okkur öllum. Eða það held ég. Ekki alveg eins, en svipað. Heldurðu það ekki? Lífið féll okkur öllum í skaut einhvern morguninn eða um nótt eða kvöld eða síðdegi, og síðan höfum við verið til. Og við höfum verið til dag eftir dag og ár eftir ár og stundum hafa orðið kaflaskipti. En letrið var það sama í næsta kafla. Eða það held ég. Og ég held það af því að ég held að við séum alltaf svipaðar sjálfum okkur, svipaðar því sem við vorum þegar lífið féll okkur í skaut. Það var þegar við vorum lagðar í vöggurna okkar og fólkið kom og horfði á okkur og sagði nússinússi dúllídú og mikið ertu sæt, elsku litla stelpa. Og þegar við vorum settar út í vagnana kom fleira fólk og kíkti inn í vagnana og sagði búllibúllidallídallí og kallaði á fleira fólk til að kíkja á okkur steinsofandi og sílspikaðar og yndislegar svo að það fengi líka að sjá hvað við vorum dásamlegar. Og þótt við séum löngu búnar gleyma þessu, og höfum ekki beinlínis verið þátttakendur í því sakir æsku okkar og svefns þá býr minningin í okkur eins og fallegar og bjartar litmyndir.

Því það eru myndir í bókinni. Og það er óendanleg hamingja að fá að skoða fallegu myndirnar aftur og aftur. Og svo er það pappírinn. Eins og það sem allt er skrifað á í lífinu, allir kaflarnir á sama pappírinn. Hvað finnst þér um þína bók? Finnst þér hún skrifuð á glanspappír eða þunnan eða þykkan eða lipran pappír? Og ertu ánægð með hann? Ertu dálítið ánægt með lífið? Þitt eigið dýrmæta líf? Eða hefðirðu viljað hafa pappírinn öðru vísi, og heldurðu að þú hefðir getað skrifað smávegis öðru vísi og heldurðu að myndirnar væru skýrari og flottari ef þú hefðir fengið betri pappír? Ég held ekki. Bara alls ekki. Ég sem sé þig svo vel héðan frá altarinu sé hvað þú ert falleg og góðleg, glæsileg og gáfuleg. Og vð skulum gefa hver annarri og sjálfum okkur þá gjöf í kvöld að sjá þessa fallegu drætti í þeim sem sitja við hliðina á okkur. Og fyrir framan okkur og aftan okkur. Og segja í huganum hver við aðra: Mikið lifandis skelfingar ósköp ertu góður pappír ! Við segjum þetta bara af því að við eigum að segja sannleikann. Og þetta er sannleikurinn um okkur.

Það er nú hvorki meira né minna en út af öllu þessu sem við létum Kvennakirkjuna verða til og vera til í þau ellefu ár sem hún hefur skrifað sína bók. Við rifjum það upp á hverju afmæli af hvernig við bara byrjuðum, auglýstum messu og héldum svo áfram, og áfram og áfram. Alltaf með litlum skrefum, alltaf í áttina að markmiðum sem við náðum, og svo komu ný markmið. Við höfum gert mikið. Fengið okkar eigið húsnæði og svo nýtt og stærra. Haldið messur, námskeið, haldið söngæfingar, haldið fermingartíma, mótað guðfræði okkar, gefið út bækur, farið í ferðir, talað saman, verið saman, beðið saman og sungið saman. Við minnumst þess þegar það var 14. desember 1992 og við vorum á aðventukvöldi með fleiri konum og Elísabet Þorgeirsdóttir sagði að við ættum að stofna Kvennakirkju. Og sex konur réðu ráðum sínum og hálfmum mánuði seinna, 14. febrúar 2003, auglýstum við messu í Kópavogskirkju. Jónína okkar Gísladóttir spilaði fyrir okkur en hafði ekki tíma til að halda áfram. Og svo kom Aðalheiður Þorsteinsdóttir til að spila eitt kvöld og við báðum hana að vera hjá okkur. En hún afþakkai kurteislega og sagðist ekki hafa tima. Svo að við héldum áfram að biðja hana kurteislega að vera samt hjá okkur og gengum á eftir henni meira en nokkur hefur gengið á eftir henni þótt oft og mikið hafi verið gengið á eftir henni fyrr og síðar. Og svo kom dagurinn að hún sagði þessa gullvægu setningu: Jæja, ég verð bara með ykkur. Guðnú og Sigga Magg hafa verið í kórnum frá byrjun, og þið hafið margar verið í messunum frá byrjun, og sumar ykkar komu seinna. En við höldum áfram og áfram, við saman, og hver einasta okkar skiptir öllu máli. Svona höldum við áfram.

Allt til þess að fimmtudagarnir og hinir dagarnir, þegar við erum að allar að skrifa hver sína bók, geti sem oftast verið vorlegir með plássi fyrir eitthvað skemmtilegt. Allt til þess að við getum hist og borið saman bækur okkar og uppörvað og glatt hver aðra og huggað ef þarf. Til að við eigum saman stað þar sem við gefum og fáum og förum með það út í dagana þar sem við móðgumst og gleðjumst, veikjumst og læknumst.

Allar bækurnar heita Guð og ég. Og Guð er sú sama fyrir okkur öllum. Eða nokkurn veginn sú sama og hún krefst þess ekki af okkur að við tölum allar um hana á alveg sama háttinn. En við erum ýmsar fyrir Guði af því að við höfum margs konar skapgerð og hugmyndir og lífshlaup, en við erum líka allar þær sömu, vinkonur hennar sem henni þykir afar mikið til um. Hún hefur sjálf sagt það. Aftur og aftur. Hún treystir á okkur til að varðveita heiminn. Og við megum treysta henni. Það er ekkert smámál. Því lífið er dýrmætt og það er ekkert smálegt að vita að hvernig sem það skrifast er hún hjá okkur. Og hjálpar okkur til að komast í gegnum erfiðu kaflana. Og til að velja góðar myndir í bókina, til að horfa á úr fortíðinni. Og til að finna hvað pappírinn sem við skrifum á er góður. Það þýðir að hún hjálpar okkur til að gleðjast yfir sjálfum okkur og njóta lífsins og nota það. Og það þýðir að hún hjálpar okkur til að vera ekki að ásaka okkur fyrir eitt og annað sem okkur finnst við hefðum getað gert öðru vísi.

Og ég held að það sé ein allra besta gjöf Guðs. Það að njóta góðu fimmtudaganna og hinna þegar allt er gott og venjulegt og safna okkur sjóðum til að mæta hinum dögunum sem eru heldur verri og kannski miklu verri. Því sumir dagar verða erfiðir og raðast saman í margar blaðsíður með skáletri um mótlæti eða þá leiðindaletri um leiðindadaga. Eða neðanmálsgreinum þar sem við reynum að útskýra fyrir sjálfum okkur eitt og annað í textanum sem við skiljum ekki alveg eða bara alls ekki.

Það er svo furðulegt, að þegar líður á bókina sjáum við að kaflarnir voru sem flestir bráðgóðir. Og við lærðum af þeim að skrifa næstu kafla um sama efni sem komu seinna í bókinni. Þá vissum við að það þarf stundum að skrifa leiðinlega kafla og neðanmálsgreinar og við höfum skrifað þetta áður. Við bara skrifum. Og lesum. Og sjáum að þetta er bara fínt. Við erum bara ágætar. Bara flottar. Við höfum gert eitt og annað.

Og við eigum afmæli. Það var í gær og við höldum upp á það í dag. Við höldum upp á vináttu okkar og vöxt í lífinu og kvennaguðfræðinni. Eða kvennaguðfræðinni og lífinu, ef við viljum hafa þá röð. Það skiptir engu, því lífið leggur okkur til guðfræði okkar og guðfræðin leggur fram lausnir í lífinu. Og þegar við tölum um lífið tölum við um Guð. Og þegar við tölum um guð tölum við um lífið. Og þegar við tölum um Guð tölum við um Guð sem segir frá sjálfri sér í Biblíunni. Hún segist vera vinkona okkar og hún segist elska okkur og hún segist eiga allt vald á jörðu og himni. Hún segist skapa, frelsa og vera hjá okkur. Hún segist treysta okkur til að skapa með sér, frelsa með sér og vera hver hjá annarri. Hún segist vera Jesús sem kom og dó og reis upp frá dauðum til að gefa okkur nýtt líf á hverjum degi. Og til að gefa okkur nýtt líf þegar við deyjum.

Hún segist gefa okkur frelsi til að hugsa ýmsar og ólíkar hugsanir og segja hver annarri frá allri þeirri guðfræði sem við geymum með okkur, líka þeirri sem er óvenjuleg og ótrúleg. En hún heldur áfram að vera Guð sem kom og var Jesús og er alltaf hjá okkur. Það breytist aldrei. Og það er mesta afmælisgjöfin á hverjum afmæli okkar.

Og nú höfum við talað um orðin sem við ætluðum að tala um, að verða, vera og vaxa. Og allra síðast kemur enn eitt orð sem ég ætlaði að láta koma síðast. Það umlykur öll hin orðin. Það er orðið vatn. Það er vatn Guðs sem streymir raunverulega um líkaman okkar. Og það er vatnið hennar sem þvær af okkur andstreymið og það er vatnið hennar sem vökvar okkur dag eftir dag. Þótt hugur ykkar sé þurr eins og skraufþurr mosinn á Hellisheiðinni á rykugum fimmtudegi eftir marga umferðardaga í útblæstri og ryki þá verður hann mjúkur og ilmandi þegar ég sendi ykkur regnskúr í vorloftinu, þótt það sé um miðjan vetur. Og litirnir og anganin verða að stórkostlegri og djúpri gleði. Og þessi fimmtudagur verður tilhlökkunin á undursamlegum föstudegi og afmælislaugardegi og messusunnudegi.

Allt af því að Guð er vinkona okkar. Hún blessar okkur alltfaf.
Amen