Upplýsingar

Til hamingju með daginn og til hamingju með sextíu ára afmæli lýðveldisins í fyrradag. Og næsta ár verður nítíu ára afmæli kosningaréttar kvenna og þrjátíu ára afmæli kvennafrídagsins.

Lýðveldið og kvennabaráttan hefur gefið okkur nýtt líf og við höfum notið þess. Við höfum öll eignast miklu stærra svið til að lifa á.Það fer alltaf svo að það sem er mikið notað kuðlast ögn og krumpast í hnjaski daganna. Eins og dúkarnir sem brúkast og þvost og upplitast í sólinni á snúrunum og undir heitum straujárnunum. Þeir fölna með tímanum.

En þá gerum við alltaf eitthvað. Við kaupum til að byrja með nýjar og glaðlegar servéttur til að hressa upp á gamla dúkinn sem er alls ekki slitinn og alltaf fallegur þótt hann sé farinn að fölna. Við hugsum nýjar hugsanir. Við höfum hugsað margar nýjar hugsanir í kvennabaráttunni núna. Kvennahreyfingin hefur sent yfirvöldum mótmæli gegn mansali og vændi og nektardansstöðum. Það er vont að kynlífsþrælkun skuli flæða um heiminn. En það er gott að það skuli vera talað um það og það er gott að yfirvöld skuli hlusta og aðgæta og sjá og framkvæma.

Það er svona í ýmsum fleiri málum. Það er ýmislegt vont og gott í einu. Konur hafa komist langar leiðir í menntun og störfum og það er gott. Samt búum við enn undir glerþökum og undir þykkum múrveggjum og njótum ekki réttinda og möguleika. Það er gott að við skulum sjá að við þurfum að berjast. Það er vont að við skulum samt oft blunda og blekkjast og sjá ekki að við þurfum að berjast.

Og það er þess vegna, eða það held ég, sem við vitum ekki alveg núna hvað við þurfum að gera í kvennabaráttunni og hvernig við eigum að gera það. Við erum orðnar ögn þreyttar á hugmyndum okkar og við þurfum að hressa þær. Við sjáum þær ekki láta til sín taka eins og fyrir þrjátíu árum. En þær eru samt víða að vinna. Þær eru farnar inn af útifundunum og hættar að syngja við raust. En þær fóru inn til okkar sjálfra, heim til okkar og í fyrirtækin sem við vinnum í, og fullt af konum og mönnum nota þær daginn út og inn sér og okkur öllum til ómetanlegra heilla. Við tökum bara ekki lengur eftir því af því að þær eru orðnar hluti af lífinu.

En nú er tíminn til að nota þriðju bylgu kvennahreyfingarinnar.Það er talað um þrjár bylgjur kvennahreyfingarinnar, en þær eru samt miklu fleiri. En þessar þrjár eru stærstar. Fyrsta bylgjan var í rauninni bylgjan sem Jesús hratt af stað með stórkostlegum boðskap sínum og seinni bylgjur eiga grundvöll sinn í henni. En bylgjan sem er kölluð fyrsta bylgjan hófst um miðja 19. öld og stóð til 1920 eða 30. Önnur bylgjan hófst eftir 1960 og stóð kannski til 1985 eða þar um bil, það er allt álitamál hvenær málin breytast. Og þriðja bylgjan er hafin og hófst rétt fyrir nokkrum árum. Við hefjum hana á loft og styðjum hver aðra með margvíslegum framkvæmdum okkar.

Ég held að við þurfum núna að leggja fjórar litríkar servéttur á lúna dúkinn okkar. Ég held að þær séu grundvallarservéttur sem verði til þess að við nælum okkur í áframhaldandi styrk til að vinna að því sem við erum að gera og enn þá miklu meiru.

Í fyrsta lagi skulum við sjá hvað við höfum áorkað miklu. Bylgjur kvennahreyfingarinnar hafa gefið okkur möguleika sem voru ekki til. Fyrir hundrað árum máttu konur ekki taka stúdentspróf, fyrir níutíu árum máttu konur ekki kjósa. Fyrir sextíu árum voru konur litnar hornauga ef þær unnu úti, fyrir þrjátíu árum voru það eilíf vandræði að koma börnum í leikskóla. Núna eru allar þessar leiðir opnar. Og við skulum þakka þeim sem ruddu brautirnar og syngja gleðisöngva og nota tækifærin.

Í öðru lagi skulum við horfast í augu við að við höfum enn ekki nærri, nærri allan réttinn sem við Guð skapaði okkur til að eiga. Þótt heimurinn hafi breyst stórkostlega er hann enn ekki okkar heimur. Hann er enn smíðisgripur manna sem smíðuðu hann fyrir sig og hina strákana og gerði ráð fyrir því að stelpur skiptu sér ekki af stjórnuninni en væru penar og sætar og vinnusamar til þjónustu. Við vitum þetta allt. Ég þarf ekki að segja meira um það, þótt ég minni á orðin hennar Símonettu frá Sjónarhæð, sem heima hjá sér hét Simone de Beauvoir. Hún sagði: Menn eru þeir en konur eru hinar . Það snýst allt um þá og það sem konur segja skiptir engu. Það er enn svo mikið svoleiðis. Og við þurfum að sjá það.

Í þriðja lagi skulum við segja hver annarri og að við munum vitanlega halda áfram að segja það sem skiptir máli. Það var talað um það í hinum bylgjum kvennahreyfingarinnar að kvennareynsla væri svo mikilvæg að hún ætti að bærast út um allt. Og hver er þessi merkilega reynsla kvenna? Og nú skaltu hlusta vel, elskan mín. Ég var mánuðum saman að hugsa þessa guðfræði sem ég ætla að birta þér núna. Og þegar ég var búin að festa hana á blað og fá mér kaffi og pönnuköku til að halda upp á það, opnaði ég splunkunýja bók sem mér var gefin um morguninn. Og hvað skyldi standa þar nema þetta nákvæmlega sama sem ég var búin að nota hundrað daga til að finna? Það var gott. Því við erum svo margar, svo margar að hugsa nákvæmlega það sama. Og kannski ert þú löngu búin að hugsa það sem ég fer að segja núna.

Dýrmæt kvennareynslan er sú að konur hafa um aldaraðir lifað úti á jöðrunum þar sem þær þjónuðu og báru umhyggju fyrir öðru fólki. Þær lærðu hvað það er að lifa við valdaleysi og þær vissu hvað það er að það var ekki hlustað á þær. Þessa dýrmætu reynslu getum við núna borið inn á miðjuna og gert hana að valdamiklum stefnum. Jesús sagði það svona: Ef þú ætlar að stjórna skaltu gera það með því að þjóna þeim sem þiggja stjórnuna. Hann sagði að þessir mildu og máttugu stjórnendur fengju styrk sinn í stuðningi þeirra sem nytu stjórnunar þeirra. Því þau vissu að þau væru ekki meiri en stjórnendurnir en ynnu með stjórnendum sínum og styrktu þau af heilum hug.

Það er þetta sem heimurinn þarfnast núna. Ég held alls ekki að konur séu betur gerðar en menn og heldur ekki betur gefnar. Og ég held ekki að konur séu einar um að hafa lifað í valdaleysi, heldur hafa konur verið hópur sem um aldir var valdalaus helmingur mannkynsins. Og núna er tíminn til að ganga inn á sviðið og inn í miðjuna með þessa dýru reynslu og sækja valdið til að gera hana að valdi sem verður öllum manneskjum til góðs.

Við höfum fyrirmyndina. Það er fyrirmynd Guðs sem er hvorki hershöfðingi né dómari í valdamikilli fjarlægð heldur vinkona sem er við hlið okkar og treystir á okkur til að varðveita gullgóða veröldina sem hún skapaði. Hún sýndi alltaf umhyggju. Og hún átti alltaf valdið sem þurfti til þess. Hún átti það sjálf, lét ekki taka það af sér, en gaf það öllum með sér, öllum sem vildu nota valdið í umhyggjusemi svo að umhyggjan yrði valdamikil.

Til þess þurfum við að setja fjórðu servéttuna á dúkinn okkar. Og það er annað af tveimur þekktustu kjörorðum kvennahreyfingarinnar, og það er þetta: Vinátta kvenna er kraftur, eða Sisterhood is powerful. Kvennavináttan opnaði ótal hjörtu og gaf kjarklausum konum sjálfstraust. Þegar hinar konurnar sögðu þeim hvað þær væru stórkostlegar sáu þær það líka sjálfar. Og allar saman breyttu þær heiminum.

Þegar við lesum núna ævisögur kvennanna sem stóðu fremst í annarri bylgjunni lesum við um hina hliðina á vináttunni sem breytti heiminum. Það er saga um vináttuna sem brast og brann og særði og stakk og gekk næstum frá þeim. Það er ekki hægt að vinna við að breyta heiminum nema stórsærast, sagði ein sem heitir Susan Brownmiller. Við erum samt heppnar að vera í okkar hreyfingu, sagði önnur, Gloria Steinem, því í sumum öðrum baráttuhreyfingum skjóta þeir hver annan.

Ég er þess fullviss að fjórða aðalverkefni kvennahreyfingarinnar núna er að gæta að vináttu okkar. Við getum ekki lifað án hennar og ekkert gert nema eiga hana. Og hún hefur ekki bara krumpast og upplitast heldur skolast burt með möguleikunum sem við unnum okkur. Hvers vegna? Af því að við keppum hver við aðra. Við hvetjum sjálfar okkur og aðrar til að klifra upp valdapýramídann sem við erum samt að mæla á móti. Við erum komnar of langt frá gleði þess að vera margvíslegar, meta hver aðra eins og við erum, meta margs konar leiðir og alla vega liti og lífsstíl. Við erum komnar of langt frá okkar eigin heimi. Við erum komnar of langt í að taka á móti því sem er í heimi þar sem þeir eru allt og við mótum ekkert.

Við þurfum að gá að því hvers vegna við gerum þetta allt. Af því að það eru orsakir fyrir því. Kannski þær sem ég taldi upp, kannski aðrar og alla vega miklu fleiri. Það er sagt aftur og aftur að konur séu konum verstar, að konur séu vondar hver við aðra á kvennavinnustöðum, að konur séu smámunasamar, dómharðar, kjarklausar og hikandi og taugaveiklaðir eða harðir stjórnendur. Það er sagt að konur sem ráða meti menn meira en konur. Við þurfum að gá að þessu ölllu. Því ef einhver ofurlítill sannleikur felst í þessu þurfum við að sjá hann og leggja okkur í framkróka við að skilja hann.

Og svo þurfum við að uppræta hann. Það er ekki einkamál nokkurrar okkar að okkur skuli hafa hrakað í vináttu heldur sameiginlegt grundvallandi alvörumál okkar allra.

Og þegar við höldum áfram að gá að þessu öllu verður dúkurinn smátt og smátt jafn litríkur og hann var þegar fyrsta og önnur bylgjan söng og dansaði og breytti öllu lífinu.Og það verður ekki bara það. Heldur saumum við nýja kringjóttan dúk og breytum ílanga borðinu í kringlótt borð þar sem sumt fólk situr ekki við endann og ræður og heyrir bara til þeirra sem sitja í næstu sætum. Heldur sitjum við öll í góðum sætum og erum glöð og sjáum hvað við erum flott. Og það er servétta með valdi við hvern einasta disk.

Og Guð býður okkur að setjast til að ráðgast um vinnuna og fara svo saman og gera það sem þarf. Og hún safnar okkur til kvöldverðar og hún talar við okkur um vinnuna og þakkar okkur fyrir daginn og framkvæmdirnar. Ég hefði aldrei getað þetta án ykkar, segir hún, og nú skulum við borða og tala saman og syngja og finna hvað við erum mildar og máttugar. Og mild og máttug. Og það er allt í lagi þótt það fari ögn af sósunni og kertavaxinu og kaffinu og rjómanum niður á dúkinn, því við þvoum hann bara og hengjum upp í golunni og straujum hann fyrir annað kvöld. Dúkar eru til að brúka – og við kaupum nýja dúka þegar þarf og fáum nýjar hugmyndir. Ég gef ykkur mínar hugsanir, ég gef ykkur nýtt hjarta, þið megið alltaf velja á milli doðans og lífsins. Elskurnr, segir hún, núna eins og hún sagði fyrir þrjú þúsund árum: Elskurnar, veljum nú lífið. Takk.