Aðventumessa í Laugarneskirkju 5. desember 2004

Í fyrra á aðventunni hitti ég eina vinkonu mína á förnum vegi. Hún hafði ekki tíma til að tala við mig heldur hljóp áfram og sagði: ,,Ég hef ekki tíma til þess að tala við þið núna, ég á eftir að skreyta allar jóagjafirnar, kaupa allt húsið, baka jólakortin og skrifa smákökurnar.”
Þessi sama vinkona mín kom til mín núna í nóvember og sagði mér að hún gæti ekki hugsað sér að upplifa aðra eins aðventu og í fyrra. Svo ég ákvað að gefa henni nokkur einföld ráð og í kvöld ætla ég að gefa ykkur þessi ráð og ég vona að þið getið notað þau eins og vinkona mín. Sem sagt þá ætla ég að segja ykkur í kvöld hvernig ég og Guð njótum aðventunnar saman.

Við byrjum á því að fara í blómabúð eða einhverja aðra búð sem selur kerti. Mér finnst voða gott að fara í Blómaval vegna þess að ég bý hérna í hverfinu. Þegar við komum inn í búðina þá göngum ákveðnum skrefum að kertadeildinni og kaupum okkur kerti með piparkökulykt eða einhverri annarri kökulykt. Ég keypti t.d. þetta kerti núna í vikunni, það er með svona kryddlykt, ekkert ósvipaðri lykt og kemur af nýbökuðum piparkökum.

Það næsta sem við gerum er að fara út í búð þ.e. svona matvöruverslun, helst í Bónus eða Krónuna, því það er hagstæðast fyrir budduna okkar, en annars ráðið þið því alveg í hvaða búð þið farið. Þegar inn í búðina er komið þá gangið aftur þessu ákveðnum og öruggu skrefum að hillunum þar sem allar dásamlegu tilbúnu smákökurnar eru. Allar tegundirnar sem búið er að baka fyrir okkur. Þið kaupið nokkrar sortir, allt eftir því sem ykkur langar í og líst á. Það er mjög sniðugt […]

Messa í Grafarvogskirkju 10. október 2004

Elsku Guð, leiddu mig í þessari hugvekju, og kenndu okkur öllum að læra að fyrirgefa og þiggja fyrirgefningu.

Guð gefðu okkur öllum styrk og visku til að meta mátt og miskunn fyrirgefningarinnar.

Þjófur á Nýlendugötu ?
Ég vaknaði í morgun: Míb, míb, míb, míb…þjófavarnakerfi í einhverjum bílnum hafði farið í gang. Það hljóta flestir íbúar við vesturenda Nýlendugötunnar að hafa hrokkið upp, að minnsta kosti rumskað. Æ, hvað þetta var óþægilegt, ætlar þetta ekkert að hætta! Það var ekkert lát á, og það heyrðist míb, míb, míb, í tja, a.m.k. 10 mínútur. Eigandinn hefur eflaust verið á sýningu í Loftkastalanum kvöldið áður og skilið bílinn eftir. Ég og hinir íbúarnir tékkuðum ekkert á því hvort verið væri að ræna úr bílnum, þetta bara gekk og gekk!! Ekki gætti ég að hvað var að gerast, en vonaði að einhver annar eða önnur myndi nú kannski gera eitthvað í málinu. Kannski hefði ég bjargað fartölvu, en það kemur vonandi einhvern tíma í ljós.

30 ára vígsluafmæli og rolukast
Við höfum undanfarið verið að halda upp á 30 ára vígsluafmæli sr. Auðar Eir, lærimóður okkar m/meiru. Það hefur í raun verið afmæli okkar allra, því vígsla hennar braut blað í sögu kvenna á Íslandi. Þrjár ólíkar uppákomur hafa verið í boði: Kvennaferð að Holti í Önundafirði, Hátíðarmessa í Neskirkju og m álþing í Hallgrímskirkju, svona “trílógía”, svo talað sé á tæknimáli! Ég náði að taka þátt í tveimur fyrri, mér til ómældrar ánægju og gleði – en ég var í rolukasti, eins og sr. Auður Eir kallar það, þegar sú þriðja átti sér stað, og fýlu út í allt og alla, en Guð minnti mig svo bara á að ,,eymd er valkostur” – og ekki var ég nú hrifin af þeim valkosti og […]

Messa við Þvottalaugarnar í Laugardal 19. júní 2004

Til hamingju með daginn og til hamingju með sextíu ára afmæli lýðveldisins í fyrradag. Og næsta ár verður nítíu ára afmæli kosningaréttar kvenna og þrjátíu ára afmæli kvennafrídagsins.

Lýðveldið og kvennabaráttan hefur gefið okkur nýtt líf og við höfum notið þess. Við höfum öll eignast miklu stærra svið til að lifa á.Það fer alltaf svo að það sem er mikið notað kuðlast ögn og krumpast í hnjaski daganna. Eins og dúkarnir sem brúkast og þvost og upplitast í sólinni á snúrunum og undir heitum straujárnunum. Þeir fölna með tímanum.

En þá gerum við alltaf eitthvað. Við kaupum til að byrja með nýjar og glaðlegar servéttur til að hressa upp á gamla dúkinn sem er alls ekki slitinn og alltaf fallegur þótt hann sé farinn að fölna. Við hugsum nýjar hugsanir. Við höfum hugsað margar nýjar hugsanir í kvennabaráttunni núna. Kvennahreyfingin hefur sent yfirvöldum mótmæli gegn mansali og vændi og nektardansstöðum. Það er vont að kynlífsþrælkun skuli flæða um heiminn. En það er gott að það skuli vera talað um það og það er gott að yfirvöld skuli hlusta og aðgæta og sjá og framkvæma.

Það er svona í ýmsum fleiri málum. Það er ýmislegt vont og gott í einu. Konur hafa komist langar leiðir í menntun og störfum og það er gott. Samt búum við enn undir glerþökum og undir þykkum múrveggjum og njótum ekki réttinda og möguleika. Það er gott að við skulum sjá að við þurfum að berjast. Það er vont að við skulum samt oft blunda og blekkjast og sjá ekki að við þurfum að berjast.

Og það er þess vegna, eða það held ég, sem við vitum ekki alveg núna hvað við þurfum að gera í kvennabaráttunni og hvernig við eigum að gera það. Við […]

Messa í Kópavogskirkju 16. maí 2004

Við skulum hafa örlitla hugleiðingu áður en við göngum út í vorkvöldið og förum saman, allar sem getum og höfum tímann til, í kaffið hjá Ásdísi og Olgu og Steinunni niðri á Urðarhól.

Við höfum gefið hver annarri ró og frið í umhugsun um möguleika léttleikans í fyrirgefningunni og vissunni um vænu skrefin sem Guð hjálpar okkur að ganga. Á morgun þegar við göngum út í fyrsta vinnudag vikunnar, hvaða vinnu sem við höfum, launaða eða ólaunaða, göngum við í vissu Guðs.

Guð frelsar mig frá volæðinu og gefur skrefum mínum festu. Hún leiðir mig út á víðlendið. Það er skrifað um þetta í 23. Sálminum:

Þú leiðir mig út á grænar grundir
þar sem ég má hvílast við friðsæl vötnin.
Þegar ýmislegt gerist sem gæti vakið mér volæði
óttast ég samt ekki,
því þú ert hjá mér.
Þú gefur vellíðan og vissum um sjálfa mig
og þá undursamlegu gjöf að óttast ekki fólk.

Á morgun verða þessar grænu grundir og friðsælu vötnin það líf sem við vöknum til. Hvert ferð þú í fyrramálið? Hlakkarðu til – eða finnst þér það hversdagslegt – eða finnst þér það kvíðvænlegt?

Okkur langar svo til að uppörva þig. Eins og þú uppörvar okkur. Svo að þér finnist það bara heldur gott að vakna til þess lífs sem þú vaknar yfirleitt til. Það er ekki alltaf alveg eins, en það er oftast eins. Við förum í vinnuna úti í bæ, eða í vinnuna heima hjá okkur. Við hittum fólk, margt eða fátt, fyrr eða síðar í hverjum degi. Og það er alla vega, og við komum því alla vega fyrir sjónir og eigum misjafnlega auðvelt með að umgangast það eins og það á misjafnlega auðvelt með að umgangast okkur.

Þetta er allt innifalið í vissunni um vænu skrefin. Volæðið sem grípur […]

Messa í Langholtskirkju 18. apríl 2004

Við skulum biðja.
Guð, þú sem ert uppspretta alls sem lifir. Við þökkum þér fyrir lífið og fyrir hvern dag, sem þú gefur okkur. Takk fyrir að leiða okkur hingað í kvöld, til að hlusta á orðið þitt, biðja saman og njóta samvistanna hvert við annað. Viltu opna hjörtu okkar fyrir orði þínu, svo að það veki okkur og efli. Í Jesú nafni. Amen.
Ég er hamingjubarn, ég á himneskan arf,
þó að hörð reynist ævinnar braut.
Ó, hve gott er, að aldrei ég örvænta þarf.
Mína auðlegð með Jesú ég hlaut.

Þetta vers er úr einum af mínum uppáhaldssálmum. Sálmi, sem ég kynntist hér í Kvennakirkjunni. Í hvert skipti sem ég syng hann, finn ég fyrir mikilli gleði og fyllist undursamlegum friði. Lagið er fallegt og boðskapurinn einfaldur og skýr.

Ég get tekið undir með skáldkonunni, Hugrúnu, og sagt: Ég er hamingjubarn. Það getum við öll. Sérstaklega þegar við hugsum um páskana, hátíð upprisunnar. Við erum hamingjubörn, börn ljóss og vonar. Þrátt fyrir öll vonbrigði lífsins erum við hamingjubörn, vegna þess að við höfum fengið himneskan arf í upprisu Jesú. Við höfum hlotið auðlegð upprisu og lífs í sigri hans.

Vonin er þema þessarar messu. Vonin kristallast í boðskap páskanna. Hún byggir á trúnni á sigur Jesú. Sigur hans á dauðanum, myrkrinu og vonleysinu. Vonin er um upprisu og eilíft líf. Lífsins með Guði, hér og nú og alltaf.

II
María var hamingjubarn. Dag einn kynntist hún manni, sem breytti öllu í hennar lífi. Manni sem gaf lífinu tilgang og markmið. Jesús kom inn í líf hennar. Hann nefndi hana með nafni og sagði henni hver hún væri í raun og veru. Að hún væri einstök manneskja, góð og falleg sköpun Guðs. Jesús sagði að hún ætti að byggja líf sitt á honum og […]

Vináttan. Prédikun í Seltjarnarneskirkju 21. mars 2004

Loksins, loksins fæ ég að predika, ég er búin að bíða og bíða og mér liggur svo mikið á hjarta að ég ætla bara að byrja predikun mína á leiðinni upp í predikunarstólinn.

Ég veit ekki hvort þið vitið það en það er svo sárasjaldan sem guðfræðingar, og svo ég tali nú ekki um nýútskrifaðir guðfræðingar, fá tækifæri til þess að predika í kirkjum landsins að ég ætla svo sannarlega að nýta þetta tækifæri vel.

Mér finnst rétt að vara ykkur við, því að afleiðing þess að við erum beðin svo sjaldan að predika er sú að okkur hættir til að reyna að koma öllu fagnaðarerindinu fyrir í einni predikun og sé ég ekki ástæðu til að breyta út frá því og byrja því á byrjuninni: Í upphafi skapaði Guð himin og jörð.

Nei að sjálfsögðu er ég að stríða ykkur pínulítið og byrja bara á Nýja testamentinu, það er svo miklu styttra. Nei nú skal ég hætta að hrekkja ykkur, þetta er ekki nema svona um það bil klukkustundar löng messa og ég má víst ekki tala allan tímann. Og samkvæmt rannsóknum þá heldur fólk yfirleitt ekki einbeitingu lengur í einu en í svona fimm til sjö mínútur þegar verið er að hlusta á talað orð. Fólk fer að láta hugann reika og orðið sem verið er að boða, ef um predikun er að ræða, fer fyrir ofan garð og neðan. Fólk fer að velta fyrir sér hvernig kirkjuvörðurinn skipti eiginlega um perur þegar þær springa eða hversu undarleg þessi altaristafla sé nú eða af hverju það sé ekki nein altaristafla.

En þegar ég fór að velta efni þessarar predikunar fyrir mér, en við höfum sjaldan í Kvennakirkjunni verið að eltast við fyrirfram ákveðnar textaraðir, þá kom textinn […]

Að verða til, vera og vaxa. Prédikun í Laugarneskirkju 15. febrúar 2004

Það var á fimmtudaginn og klukkan hálf fimm og veðrið aftur orðið svo gott og vorlegt eftir bitra kuldann og hálkuna. Við reynum alltaf að hlaupa saman nokkrar frá Kvennagarði niður á Pósthús einu sinni á dag, til að hreyfa okkur og sjá fólk á Laugaveginum, og reka erindi okkar, og stundum förum við í banka og búðir og bakarí í leiðinni.
Á fimmtudaginn hlupum við Elísabet og efst í Bankastrætinu mættum við Siggu Victors sem lengi var í kórnum en á fimmtudaginn í eldrauðri kápu og jafn flott og alltaf. Ég ætla að fara að koma, sagði Sigga, það er bara eitthvað svo mikið um að vera með barnabörnin mín í bili, en það er alltaf svo gott að koma. Og svo hélt hún áfram upp Laugaveginn og við náðum í Pósthúsið af því það var ennþá opið þótt klukkan væri orðin hálf fimm. Og konurnar hlógu og við töluðum um góða veðrið og kuldann sem hefði verið vondur og vorið sem væri aftur komið á gangstéttarnar. Svo fórum við aftur upp í Kvennagarð og fengum okkur örlítið kaffitár sem hinar voru búnar að hella á könnuna. Og svo varð klukkan hálf sex og síðasti tíminn í námskeiðinu um líðan þeirra sem eiga langveika ættingja byrjaði. Það stóð þangað til við sem héldum þetta námskeið saman fórum í einkabílum og strætóum heim til okkar til að hafa kvöldmat og fara út eða slá okkur til rólegheita á eftir.

Manstu hvað þú varst að gera á fimmtudaginn? Þú hefur líka verið eitthvað að hlaupa og stússa og hitta fólk og fara heim og hafa kvöldmat og hver veit hvað? Svona líða dagarnir einn eftir annan og það er eins og við séum að skrifa bók um sjálfar […]

Messa í Hallgrímskirkju 11. janúar 2004

Hófleg vitleysa hversdagsins
Þetta var fyrsta messa ársins og yfirskriftin var eitt af V orðunum sem við höfðum valið sem yfirskrist nýja ársins. Við fluttum messunar í kaffisalnum en ekki inni í kirkjunni. Kaffilsalurinn er hluti af kirkjunni og hann gefur okkur tækifæri til að sitja þéttar í hópnum. Messan byggðist, eins og allar messur, á sameiningu í söngnum og orðunum, en núna líka á inngripum í ræðuna, bæði með orðum og atburðum. Atburðirnir voru að við komum inn með kassa og dökkgrænu leiktjöldin okkar, sem eru nokkrir metrar af grænu efni, og með grímur. Þær sem töluðu sátu með hinum í hópnum og töluðu þaðan.

Textarnir voru um léttleika hversdaganna eða hina hóflegu vitleysu hversdagsins, eins og yfirskriftin fjallar um og tvær okkar lásu þá með þessum orðum:

Jesús gerði svo margt sem var allt öðru vísi en fólkið hans þekkti. Hann gerði til dæmis konur að samstarfskonum og leiðtogum sem aðrir menn létu sér ekki detta í hug. Hann eldaði morgunmat á ströndinni fyrir vinafólkið sitt og sagði því að gera allt mögulegt sem það hafði ekki órað fyrir en gerði lífið miklu skemmtilegra. Og svo var hann alltaf í boðum.

Og svo sagði hann: Hver sem vill fylgja mér afneiti sjálfri sér og taki kross sinn daglega og fylgi mér. Því hver sem vill bjarga lífi sínu mun týna því og hver sem týnir lífi sínu mín vegna mun bjarga því.

Þetta þýðir meðal annars að við skulum ekki fela okkur bak við uppgerð. Við skulum hafa okkar eigið andlit á hverjum degi. Við skulum fylgja Jesú eins og við erum og feta í fótspor hans. Og við munum sjá að við lærum að gera allt mögulegt eins og hann gerði það. Hann kemmir okkur að fara […]