Upplýsingar

Pédikun í Seltjarnarneskirkja 21. október 2018. Sr. Auður Eir Vilhjálmsdóttir flutti

Við erum að tala um sjálfstraustið þessa dagana í Kvennakirkjunni.  Auðvitað erum við alltaf að tala um sjálfstraustið því við erum sammála um að kristin trú boði okkur að við eigum að hafa trú á sjálfum okkur.  Guð þarf á því að halda að við  treystum sjálfum okkur.  Af því að hún þarf á okkur að halda í baráttu sinni fyrir heiminum sem hún skapaði og á og elskar.  Og af því að hún elskar okkur og vill okkur allt það besta.  Hún vill að okkur líði vel.  Treystum Guði svo að við treystum sjálfum okkur,  öðrum og lífinu segjum við í kvennaguðfræði okkar.

Ég kem með þessa þrjá poka sem ég set á mitt gólfið.  Þeir eru fullir af sjálfstrausti.  Í þessum fyrsta er þetta brothætta glas og litli rauði klúturinn sem er einn af þeim sem við gáfum hver annarri í einni messunni til að fara heim með og minna okkur á litríka gleði kristinnar trúar.  Þetta er til að segja okkur að það er betra að eiga mjúkt sjálfstraust sem réttir úr sér þegar það  bögglast heldur en að eiga glerfínt sjálfstraust sem brotnar þegar það  verður fyrir áfalli.

Í miðpokanum eru uppástungur um það hvað ræðst á sjálfstraust okkar aftur og aftur.  Mér finnst ég pödduleg þegar  ég rifja upp mínar hugsanir um það.  En ég ætla samt að gera það.  Það er tilfinning fyrir því að annað fólk sé flottara en ég.  Skelfilega pöddulegt.  Og að mér hafi mistekist svo svakalega margt.  Hvort tveggja er alveg satt.  Þó það nú væri.  Margt fólk stendur mér auðvitað miklu miklu framar og mér hefur mistekist ýmislegt.   Það er satt en ekki gagnlegt að hugsa um það aftur og aftur.  Best að vita það og sjá að það er alveg óhjákvæmilegt en ekki skelfilegt.  Það er bara svona hjá öllum manneskjum og við gætum ekki heimtað það af sjálfum okkur að vera aleina undantekningin.

Mér finnst það líka sverfa að mínu sjálfstrausti að hleypa að mér skoðunum sem draga úr mér máttinn.   Ég á að hafa sjálfstraustið til að horfast í augu við þær og afþakka þær.  Það eru skoðanir sem ég heyri víða og mér finnst ómerkilegar og skoðanir sem eru hafðar eftir spekingum og verða ráðandi en ég held ekki að séu neitt spakari en mínar eigin.  Eins og spekingar geta verið spakir og það sem ég heyri frá venjulegum manneskjum bráðgott.  Betra er að taka á móti því.

Hvað finnst þér um Þig?  Það er gagnlegt að nefna það sem okkur finnst vega að sjálfstrausti okkar,  þótt það sem við nefnum geti verið asnalegt eða pöddulegt eins og ég segi.  Það er eins og í ævintýrinu um Gilitrutt.  Konan átti að segja Gilitrutt  hvað Gilitrutt héti, annars myndi Gilitrutt ráða yfir henni.  Og konan sagði:  Þú heitir Gilitrutt.  Og varð frjáls undan yfirráðum hennar.

Í þriðja pokanum er sjálfstraustið sem er gjöf Guðs.  Það er ekki sjálfstraustð sem við gefum okkur sjálfar.  Það er ekki brothætt heldur mjúkt og litríkt og réttir sig upp þótt það bælist.  Það er ekki fast í hugsunum sjálfra okkar heldur mjúkt og sterkt í hugsunum Guðs.  Hugsunum hennar sem hún gefur okkur.  Það er sjálfstraust fyrirgefningar hennar.  Hún fyrirgefur okkur það sem við gerðum vitlaust.  Og fyrirgefur okkur að hanga í því að endurtaka hugsanirnar um mistök okkar aftur og aftur.

Í þessum þriðja poka er sjálfstraustið sem við megum taka á móti.  Gerum það.  Einu sinni enn. Á hverjum einasta degi.  Treystum okkur af því við erum vinkonur Guðs.  Við erum mildar og máttugar.  Við erum yndislegar manneskjur.  Til hamingju með það.