Upplýsingar

Prédikun í Laugarneskirkju í september – Hulda Hrönn M. Helgadóttir prédikaðiþ

Náð sé með yður og friður frá Guði.  Amen.

Ég ætla að byrja á því að segja ykkur skemmtisögu:

Ég sat á hjóli í ræktinni og hreyfði mig ekki.  Sat bara og hélt í stýrið og horfði fram fyrir mig.

Karl sem var líka í ræktinni, fannst þetta furðulegt að ég skyldi ekki hjóla fyrst ég var komin á hjólið.

Hann spurði af forvitni:  ”Af hverju situr þú á hjólinu og hjólar ekkert?”

”Ég er að fara niður brekku, viltu far?”

Já það er gott að taka lífið ekki of alvarlega og geta slegið á létta strengi, já að geta staldrað við og einnig að geta leikið sér.

Ég vona að þið hafið komið vel undan sumri andlega, þrátt fyrir dumbungsveðrið.  Það er blessun hvað haustið hefur verið gott þó nú sé farið að kólna all hressilega.  Við höfum fengið að njóta nú í haust litadýrð blómanna sem hafa glatt augað og fjöllin hafa birst okkur í allri sinni fegurð.

Veðurfarið hefur áhrif á okkur.  Lítil sól getur leitt til d-vitamíns skorts og drunga í sinni.  Ég hef tekið eftir því í prestsstarfinu að sólarlítil sumur hafa leitt til aukins þunga og andlegrar vanlíðan um veturinn.  En þá er um að gera að bæta sér sólarleysið upp með d-vitamíni og jafnvel bregða sér til sólarlanda.  Því við þörfnumst birtu og yls bæði hið ytra sem innra og að hafa lífið í litum – það gleður sinnið.  Svo er nú magnesíumið gott m.a. fyrir geðið.  En við erum ólík mannanna börn og sum hafa nóg af vítamínum meðan önnur þurfa að bæta sér upp skort.  Það er sláandi til þess að vita að um 33%  fólks í heiminum líður næringarskort (offita er meðtalin). Ekkert land er undanskilið.  Og ein af hverjum níu fara svöng að sofa.  Já það stendur ekki öllum til boða næringarríkt fæði.  Svo er komið að það er orðin þörf á að valdefla neytendur til að velja heilnæman mat og gott mataræði. (WCC-FAO)   Og minna okkur á að það hafa ekki allir nóg að borða.   Vegna loftslagsbreytinganna þá er t.d. ræktun í heitu löndunum orðin erfið og vegna þess flýja sumir flóttamenn norður.  Við erum hluti af nátturinni, ekki aðskilin frá henni.  Að venda náttúruna er að vernda okkur sjálf.

Nú er haustið komið og jafn undarlegt sem það hljómar þá er að koma sá tími sem m.a. hefur áhrif vellíðan okkar og lífshamingju.  Samkvæmt Alþjóðahamingjugagnagrunninum sem er stofnun í Hollandi skiptir loftslag máli – kaldari staðir eru hamingjuríkari.  Fólk er frekar hamingjusamt í tempruðu loftslagi en í hitabeltinu.  Og temprað loftslag merkir m.a. að meðalhitinn heitustu mánuða er milli 10-20 °C  og veðrátta breytileg.  Ísland skorar því hátt á hamingjuskalanum samkvæmt gagnagrunninum.   (Word database of Happiness, Rotterdam í Hollandi)  Veðurfar á Íslandi er í öllum litbrigðum og við erum heppinn alla vega enn sem komið er hversu loftið er víða ómengað, vatnið hreint og tært útsýni.  Þetta benda útlendingar sem heimsækja landið, okkur iðulega á.  Þetta er þakkarvert en hætt er við að við séum heldur sinnulaus og sofand fyrir þeim hlunnindum sem við fáum að njóta dags daglega og gleymum að huga að því að halda þeim til framtíðar.  Þakklæti er dýrmæt tilfinning – „rannsóknir sýna að þessi tilfinning er einna mest umbreytandi í lífi okkar.“ (VBA)

Lífið líkt og veðurfarið kemur í öllum litbrigðum.  Hægt er að líkja því við ferð í rússibana, upp og niður, gleði og sorg, eril og ró.  Og allt hefur sinn tíma eins og segir í Predikaranum og maðurinn getur engu bætt við með streði sínu. (Pred.3:1-15)

Við lesum um það í guðspjöllunum að Jesús brá sé í kyrrð, til að biðja, til að hlaða batteríin, til hvíldar.   Já meira að segja Jesús þurfti að draga sig í hlé.  Við vöxum með bæninni og kirkjan, samfélag trúðara, vex með því að biðja saman, vera einhuga í bæninni.  Kyrrð er hluti af tilverunni, að staldra við, til að njóta er annað og að þakka er þriðja.  Það mætti telja áfram þau mikilvægu atferli sem eru nauðsynleg í daganna rás og gjarnan láta undan síga í kapphlaupi tímans.  Það ber mikið á ótta, ótta við að glata sjálfinu, að missa félagslega stöðu, ótta við að glata vinnu, og ótta við að standa sig ekki í lífi og starfi.  Öll erum við ófullkomin, höfum kosti og galla.  Guð vill ekki að við séum að streðast við að verða fullkomin og brenna út, heldur að við gerum eins vel og við getum með hjálp hennar – meira getum við ekki gert.  Guð vill notar hverja ófullkomna persónu til starfa fyrir sig, til að lifa í trú, von og kærleika.  En það sem skiptir máli er að persónan sé tilbúin til þess, tiltæk, viðlátin og fáanleg.  Að trú og verk falli saman í eina heild og séu í jafnvægi og einnig að gefa og þiggja.  Eins og Arnold Temple biskup í Sierra Leone og nefndarmaður hjá Alkirkjuráðinu komst að orði og er byggt á ráðleggingum eldri manns:  „Ég vil gera mitt besta – Ég vil ekki vera sá besti.  Ekki að keppa eftir því að ná árangri, en keppa eftir trúmennsku.  Árangur er mælikvarði mannsins, meðan trúmennska er mælikvarði Guðs.“  (WCC)

Í dag er hvíldardagurinn og hvíldardagurinn var skapaður mannsins vegna.

Og í kvöld höfum við komið saman til hvíldar og endurnýjunar, komið til samfélags við Guð og aðrar kristnar konur.  Við erum hluti af heild, stórri heild sem telur um 31% mannkyns eða 2,3 milljarðar manna af 7,3 milljörðum.  (2015 Pew Research Center demographic analysis)

Kristin trú er stærstu trúarbrögð mannkyns, þó stundum mætti ætla annað af umtali.  Það gefur lífinu lit að trúa á Krist og við gefum lífinu lit með því að fylgja honum.   Því hann er með okkur alla daga og styður og hjálpar okkur að takast á við það sem mætir okkur í lífinu.  Lífið hefur á sér ýmis litbrigði. Á þessu hausti getum við enn á ný tileinkað okkur nýjan lífstíll.  Já ný byrjun á þessu hausti.  Og þennan lífstíl getum við litað nýjum litum og mynstrum og óteljandi litum lífsins.  Við getum t.d. valið að skrýðast  litum gleðinnar, hugrekkisins og vonarinnar.  Við getum valið að hafa hann flottan.  Það sem þér finnst flottast, því við erum ólíkar og því höfum við mismunandi smekk og  skoðanir á því hvað er flott.  Hvað finnst þér flott?  Hver er uppáhaldsliturinn þinn? Við erum ekki allar eins og leyfum okkur að vera ólíkar því það gerir tilveruna svo skemmtilega og heiminn litríkari.  Fögnum margbreytileika okkar því við erum allar jafnar að virðingu og reisn og alger óþarfi að láta taka hana frá okkur þó það sé tíðarandinn.  Já þökkum fyrir hvor aðra og stöndum saman.  Hugum að líðan hver annarrar og umföðmum hvor aðra með umhyggju

Við skulum byrja á því að dreifa sáðkornum, því sáðkorn dagsins í dag eru blóm morgundagsins og uppskeran fer eftir því hversu góðum sáðkornum við sáum.  Það er talað um að það taki 15 ár að breyta hlutum í þjóðfélaginu.  Við getum byrjað á að klæða okkur í skæra liti eða að brosa með augunum til ókunnugra því „bros getur dimmu í dagsljós breytt“. (EB)  Ég nefndi þetta aðeins sem dæmi því við þurfum að velja hver og ein hvers konar uppskeru við viljum og hvort hún eigi að vera í okkar eigin lífi eða þjóðfélagsins.  Hvaða litbrigði viljum við í líf okkar?  Við þurfum að hlúa að lífinu, okkur sjálfum sem öðrum, rækta okkur sjálfar og vernda okkur.  Lífið þarfnast aðhlynningar og það þarf að leggja rækt við það.  Líkt og blóm þarf það góðan jarðveg, áburð og reglulega vökvun.  Við erum blóm í blómagarði Guðs og það þarf að hlúa að blómunum.  Þau þurfa umhyggju og kærleika, frá Guði og mönnum.  Hamingjan er ekki markmið eða ákvörðunarstaður sem við stefnum að í framtíðinni, heldur er hamingjan það sem þú gerir með lífið í dag, aðferð til að lifa lífinu.  Hamingjan er þín ef þú hlúir að henni og málar líf þitt með henni.  Við eigum Guð að og hann segir: Því að ég þekki sjálfur þær fyrirætlanir sem ég hef í hyggju með ykkur, fyrirætlanir til heilla en ekki til óhamingju, að veita ykkur vonarríka framtíð. Þegar þér ákallið mig og komið og biðjið til mín mun ég bænheyra ykkur. Ef þið leitið mín munuð þið finna mig. (Jer.29:11-13)

Leyfum okkur sjálfum og öðrum að blómstra og vaxa í samfélagi Guðs og manna.  Hlúum að blómagarði Guðs hvort heldur sem það er eiginlegur blómagarður eða mannanna blóm, hvort heldur sem það er þú eða aðrir.  Hlúum að sköpuninni.  Biðjum Guð um að gera okkur rótfestar og grundvallaðar í kærleika. (Ef.3:13-21)    Fegurð Guðs umvefji ykkur í öllum regnbogans litum.  Njótum lífsins.

Amen.

Bæn

Elsku Guð við þökkum þér fyrir nálægð þína og ást.  Fylltu líf okkar af kærleika þínum, að við megum styrkjast fyrir anda þinn að krafti hið með okkur, svo við séum rótfestar og grundvallaðar í kærleika.

Hjálpa þú okkur til að standa saman og bera umhyggju fyrir hvor annarri.  Hjálpa þú okkur til að njóta tilverunnar og leggja af fullkomnunaráráttu.

Í Jesú nafni.  Amen.