Upplýsingar

Guðspjallatextinn:

 Jesús tók þá tólf til sín og sagði við þá: „Nú förum við upp til Jerúsalem og mun allt það koma fram sem spámennirnir hafa skrifað um Mannssoninn. Hann verður framseldur heiðingjum. Þeir munu hæða hann, misþyrma honum og hrækja á hann. Þeir munu húðstrýkja hann og lífláta en á þriðja degi mun hann upp rísa.“En þeir skildu ekkert af þessu, orð þessi voru þeim hulin og þeir skynjuðu ekki það sem sagt var.Lúkas 18: 31-34

(Leikmunur: Desilítramál, málband, og klukka)

Það var einu sinni lítil mús sem kom til töframanns og sagði honum að hún hefði mætt ketti. Músin var svo hrædd við köttinn að hún bað töframanninn að breyta sér í kött. Töframaðurinn var snjall og kenndi í brjóst um músina, og frá honum fór músin sem köttur. Stuttu síðar mætti kötturinn hundi. Hárin risu og hún hljóp hratt til vinar síns, töframannsins. Hún sagði honum raunasögu sína og bað hann fyrir alla muni að breyta sér í hund. Kötturinn sem áður var mús, gekk á fjórum fótum frá töframanninum en nú í líki hunds.
Hundurinn sem áður var köttur og þar áður mús, undi hag sínum vel í líki hunds. Allt þar til hundurinn mætti tígrisdýri, en þá spretti hann úr spori skelfingu lostinn. Ekki hægði hann á sér fyrr en hann var kominn til töframannsins á ný og bar upp enn eina óskina. Töframaðurinn var orðinn heldur leiður á þessu og hugsaði með sér: ,,Jæja þá í þetta síðasta sinn!” Og hundurinn sem áður var köttur og þar áður mús, fór nú út frá töframanninum sem tígrisdýr.
Tígrisdýrið drottnaði yfir gresjunni, og óttaðist ekkert. Enginn gat gert því mein.  Eða það hélt tígrisdýrið allt þar til það mætti manni, og maðurinn var með byssu.Tígrisdýrið hljóp sem aldrei fyrr og kom fram fyrir töframanninn enn einu sinni.
En nú sagði töframaðurinn: ,,Nei, ég breyti þér ekki í manneskju!”
Þrátt fyrir að vera í nýjum líkama, með nýtt ytra útlit, þá var hjarta tígrisdýrsins ennþá lítið músarhjarta! Hugrekki þess var hugrekki músarinnar.
Umræddri mús vantaði hugrekki til að takast á við eigin aðstæður, takast á við það að vera sú sem hún var.

Hversu oft er það ekki einmitt svo við leitum skjóls í því sem ytra telst en finnum ekki huggun, frið og ró hið innra.

Það kostar mikið hugrekki að sjá framundan mikla erfiðleika, og jafnvel eiga þá möguleika að snúa við og flýja, en halda samt áfram og klára verkið.

Það sem mætti Jesú í guðspjallatextanum okkar í kvöld, krafðist mikils hugrekkis. Þarna er hann að tala við  vinkonur sínar og vini og hann er að segja þeim hvað bíði hans. Hann vissi hvað fólst í krossfestingu, hann hafði séð manneskjur krossfestar. Það voru örlög margra hinna dauðadæmdu í samfélagi Jesú að láta lífið á krossi. En þrátt fyrir það hélt hann ótrauður áfram.

Jesús hafði oft talaði við vinkonur sínar og vini um hvað biði hans, en þrátt fyrir það verður það þeim mikið áfall að horfa upp á það sem síðar gerðist. Samkvæmt heimildum guðspjallanna voru þau skelfingu lostin en um leið mjög undrandi. Sannleikurinn er sjálfsagt sá að vinahópurinn gat  ekki meðtekið það sem Jesús var að reyna að segja þeim.
Það er nú bara þannig að stundum heyrum við nefninlega bara það sem við viljum heyra.
Það eru engin eins heyrnarlaus og þau sem vilja ekki heyra og engin eins og blind og þau sem vilja ekki sjá.
Þrátt fyrir bresti vinahópsins, þá gafst Jesú ekki upp á þeim, vinkonum sínum og vinum. Þrátt fyrir vantrú þeirra og skilningsleysi þá treysti hann þeim, þau voru vinahópurinn hans, kannski einmitt af því þau voru eins og þau voru.
Í breyskleika okkar mætum við einmitt Jesú, þar kemur hann til móts við okkur. Hann gefst aldrei upp á okkur.  og hann gengur með okkur hverju einu á lífsgöngunni okkar, bæði í gleði og sorg.
Þegar við stöndum frammi fyrir einhverjum vanda og ótta svo ekki sé talað um missi eða sorg þá veitir hugrekki trúarinnar okkur styrk . Músin í sögunni, tókst ekki á við sinn vanda heldur setti upp varnir til að þurfa ekki að takast á við óttann. En við getum tekist á við allan vanda með Jesú.
Jesús segir einmnitt í Mattheusarguðspjalli, ,,Hjarta yðar skelfist ekki, trúið á Guð og trúið á mig…”
Mesta hugrekkið felst kannski í því að vera manneskja, og gera sitt besta, lifa lífinu og læra af því þegar sorgin og erfiðleikarnir sækja okkur heim. Og taka því öllu með tár á hvörmum en líka með örlitlu brosi yfir því hve tækifæri lífsins er dýrmætt þar sem trúin, vonin og kærleikurinn ríkir.
Í Biblíunni okkar er einmitt  mikið talað um kærleikann um elsku Guðs. Eitt af mörgum versum Biblíunnar  um elskuna, er Litla Biblían sem er í Jóhannesarguðspjalli: Því svo elskaði Guð heiminn að hún gaf einkason sinn til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki heldur hafi eilíft líf.
Þetta var fyrsta versið sem ég lærði utan af úr Biblíunni sem lítil stelpa og það hefur verið mér hjartfólgið síðan. Svo var það einu sinni þegar ég var að lesa versið mitt og íhuga þá fór ég að hugsa um það hversu elska Guðs er stórkostleg og hvort það væri nokkur möguleiki að mæla hana.  Svo í kvöld tók ég með mér þrjá hluti sem við notum næstum dags daglega til að mæla eitt og annað , við notum  þá mis mikið reyndar, en  ef til vill geta þeir hjálpað okkur til að mæla elsku Guðs:
Við notum stundum svona desilítramál þegar við erum að elda og baka, ég geri það að minnsta kosti, því eins og konan sagði í auglýsingunni hér um árið: það er ekki til dass af einhverju.  Þannig að desilítramálið er mikið notað á mínu heimili. Ætli við getum notað svona mál til að mæla elsku Guðs?
Í 23. Davíðsálmi sem hefst svona: Drottinn er minn hirðir, en það eru mörg ykkar sem þekkja þennan sálm, þá stendur í 5 versi: bikar minn er barmafullur. Ef bikarinn er barmafullur þá flæðir yfir hann, svo ekki getum við notað  svona mál til að mæla elsku Guðs því elska Guðs, hún flæðir einfaldlega yfir barmana.
Þegar við smíðum, saumum eða prjónum þurfum við oft að nota málband af einhverju tagi til að mæla hversu langt, breytt eða hátt það er sem við erum að vinna með.  Ætli við getum notað svona málband til að mæla elsku Guðs?
Í Sálmi 108 segir: því að miskunn þín nær til himna og trúfesti þín til skýjanna.
Ég held að það sé ljóst að málband nægir ekki  til að mæla elsku Guðs.
Við notum flest ef ekki öll klukku til að mæla tímann.  Ég er viss um að þegar hafa nokkri kirkjugestir litið á klukkuna og velt því fyrir sér hvað ég ætli að tala lengi og hvenær þetta verði nú búið :o).
En í sálmi 103 stendur að miskunn Guðs vari frá eilífð til eilífðar, þannig að ég tel ljóst að við getum ekki notað klukku til að mæla elsku Guðs.
Desilítramál, málband, og klukka, við getum ekki notað neitt af þessu til mæla elsku Guðs. Lausnin felst , held ég, í því að það sé best að hættum að reyna að skilja Guð með hugsun okkar og skilningi.  Ég held að skynsemi okkar og skilningur næga ekki til að nálgast Guð og eignast trú eins flottar og við erum.  Það eina sem við þurfum að gera er að opna hjarta okkar og bjóða henni inn. Einfalt.
Einu sinni var konu nokkri boðið í afskaplega fínt boð hjá útvöldum hópi spekinga. Hún var svolítið smeik en venja var í þessum boðum að leggja fyrir gestina spurningar um ýmis málefni. Hún ákvað að leggja fyrir spekingana eina spurningu. Hún safnaði öllu því hugrekki sem hún átti til og spurði :,,Vitið þið hvar Guð býr?“  Spekingarnir hlógu og sögðu: Hvernig spyrðu, er ekki öll veröldin full af Guðs dýrð? En konan svaraði sjálfri sér og sagði: Guð býr þar sem Guði er boðið inn.
Haldið þið að það geti nokkuð verið að þegar Guð kemur í heimsókn til okkar að þá séum við jafnvel ekki heima?   Ég vildi óska að gætum öll upplifað hversu, víð,  hversu há og hversu djúp elska Guðs er, þó við getum á engan mannlegan hátt mælt hana.  Sum okkar örvænta og eru ekki viss um að þau trúi nóg til að eiga elsku Guðs en við nálgumst Guð aðeins með kærleikanum og með opnu hjarta og með smá hugrekki í hjartanum, hugrekki eins og Jesús bjó yfir  en ekki hugrekki músarinnar.
Og nú ég skal gefa ykkur lykil að lausninni. Þetta er svo einfalt: Við sjáum ekki né skiljum nema með hjartanu.  Það mikilvægasta er ósýnilegt með augunum. Og það allra mikilvægasta er að  við þurfum ekki að leita Guðs því Guð hefur þegar fundið okkur.  Amen.