Göngum í hús Guðs

Við skulum blaða í nýju bókinni okkar Göngum í hús Guðs.  Hún er til nota fyrir sjálfar okkur og þau sem vilja nota hana á einhvern hátt eftir sínum óskum.  Þar er margt af því sem við höfum flutt í guðþjónustum okkar og höldum áfram að flytja.  Við höfum inngangsorð um messuna og skrifum um messuformin sem við notum og svo koma kaflar einn eftir annan um það sem við flytjum í messunum.  

Þetta er einn af upphafssálmunum og er eftir Sigríði Magnúsdóttur en lagið er  eftir Gunnar Persson í útlöndum:

Í gleði Guðs geng ég nú glaðsinna inn,
ó, hve gott er að fagna með þér. 
Hérna finn ég þann frið sem oft fjarlægur er
og ég finn að þú samgleðst með mér.
Og gott er að ganga hér inn því gleði og vináttu finn.
Hérna finn ég þann frið sem oft fjarlægur er
Og ég finn að þú samgleðst með mér.

Næst í bókinni eru orð í upphafi guðþjónustunnar.  Þessi eru úr bókinni No Longer Strangers sem kom út hjá Lúterska heimssambandinu og fleirum árið 1983 og við höfum metið mikils:

Verum innilega velkomnar til að njóta vináttu Guðs og vináttu hver annarrar og hlusta á fagnaðarerindið sem gerir líf okkar yndislegt.  Hvers vegna komum við?

Til að minnast þess hvað ritningin segir okkur um hjálp Guðs.
Til að finna og gleðjast yfir nærveru Guðs í hversdegi okkar.
Til að leggja dýpsta ótta okkar,  gleði og vonir fyrir Guð.
Til að hafa kjark til að sjá að við eigum heilaga nærveru Guðs
í venjulegum atburðum lífsins.
Til að þakka Guði ástina í náðinni sem hún sýnir okkur í Jesú Kristi.

Blíðar kveðjur,  Auður Eir

By |30 júlí 2021 19:35|Fréttir|

Kvennakirkjan horfir fram til haustsins

Góðu vinkonur.  

Við erum svo margar farnar af hlakka til að hittast í september.  Við skulum  vona að þá verðum við aftur orðið grænt land.  Biðjum Guð að blessa jörðina sína.  Hún vill að við biðjum.  Gerum það.  Það er svo gott fyrir okkur að sitja hjá henni og tala við hana og heyra hvað nú segir.  Hún segir að það sé líka svo gott fyrir sig.

Það stendur auðvitað til að byrja með messu í september.  Við ætlum þá að láta nýju bókina okkar móta guðþjónustuna, eins og hún mótar allar guðþjónustur okkar.  Hún er einmitt um messurnar okkar og heitir:  Göngum í hús Guðs  –   guðþjónustan okkar.

Við ætlum að kynna hana í fyrstu messunni, syngja sálmana í henni og biðja bænanna og lesa lestrana úr Biblíunni.  Það verður svo gaman.  Við stöndum allar að bókinni en píanóleikarinn okkar Aðalheiður Þorsteinsdóttir hafði umsjónina með öllu saman.  

Bókin er gullfalleg.  Soffía Árnadóttir setti hana upp og teiknaði myndir í hana. 

Blíðar kveðjur,  Auður Eir

By |27 júlí 2021 15:19|Fréttir|

Nýr framkvæmdastjóri Lútherska heimsambandsins

Á kvennréttindaginn, 19. júní var kosin nýr framkvæmdastjóri lútherska heimsambandsins. Séra Anne Burghardt verður fyrsta konan sem gegnir þessari leiðtogastöðu.

Lúterska heimssambandið (LWF) hefur kosið eistneska guðfræðinginn séra Anne Burghardt sem næsta framkvæmdastjóra  sambandsins.  Hinn 45 ára gamli Burghardt starfar nú sem yfirmaður þróunar fyrir guðfræðistofnun Eistlensku evangelísku lútersku kirkjunnar (EELC) og er ráðgjafi kirkjunnar vegna alþjóðlegra og samkirkjulegra tengsla.

Burghardt mun taka við sem nýr framkvæmdastjóri LWF í byrjun nóvember og taka við af séra Dr Martin Junge sem hefur leitt samfélag 148 meðlimakirkna síðustu ellefu ár. Hún verður fyrsta konan sem gegnir þessari leiðtogastöðu.

Eftir tilkynninguna sagði Burghardt:

„Ég er auðmjúk yfir þessum mikla heiðri og þakklát fyrir það traust sem meðlimir heimsambandsins hafa sýnt mér. Um leið og ég tek við þessari  sérstöku ábyrgð innan heimsambandsins, bið ég um leiðsögn anda Guðs. Ég fagna því að hafa möguleika á að vinna með ráðinu, með aðildarkirkjum og með mismunandi samstarfsaðilum, þar sem LWF heldur áfram að taka þátt í heildrænu verkefni Guðs. Megi Guð blessa samfélag okkar svo það geti verið blessun fyrir  kirkju og heim. “

Sjá nánar á heimasíðu Lútherska heimsambandsins með því að smella hér.

By |21 júní 2021 11:33|Fréttir|

Sjáumst hress í haust!

19. júnímessan verður ekki núna. Starf Kvennakirkjunnar hefst af fullum krafti í haust þegar september rennur upp svo fagur eins og alltaf. Þá bíða okkur nýútsprungnar bækur sem við bjóðum hver annarri og þeim sem vilja slást í hópinn. Þær eru alveg að renna sér í prentun. Þær eru til að safna okkur til biblíulestra, um Markúsarguðspjall, Postulasöguna og bréfin og Gamla testamentið. Mikið verður gaman. Látum okkur líða vel í sumrinu og hittumst í haust.

By |15 júní 2021 20:04|Fréttir|

Heilög önd – Örhugleiðing sr. Huldu Hrannar

Heilög önd.

 Á Hebresku og arameisku er andinn kvenkyns, í grísku er hann hvorkyns, en á íslensku er hann karlkyns.  Gamla testamentið er skrifað á hebresku og arameisku og Jesús talaði arameisku.  Nýja textamentið er skrifað á grísku.  Svo hvers vegna er Heilagur andi karlkyns á Íslensku?  Spyr sú sem ekki veit.  Skiptir það máli að persónur guðdómsins séu ritaðar í karlkyni?  Hefur það áhrif á guðfræði okkar að Heilagur andi er karlkynsorð á íslensku?

Það gæti verið góð hugmynd að lesa eitt guðspjallanna og setja alls staðar Heilög önd í stað Heilags anda til að sjá hverju það breytir.

 

Er allt fólkið lét skírast var Jesús einnig skírður.  Þá bar svo við, er Jesús gerði bæn sína, að himininn opnaðist og Heilög önd steig niður yfir hann í líkamlegri mynd, eins og dúfa, og rödd kom af himni:  “Þú ert minn elskaði sonur, í dag hef ég fætt þig.” (Lk.3:21-22)

By |10 mars 2021 19:45|Dagleg trú|

Sýn okkar á Jesús – Örhugvekja sr. Huldu Hrannar

Sýn okkar á Jesús

Jesús fylltist af fagnandi gleði Heilagrar anda og vegsamaði Guð. (Lúk.10:21a)

Flestar gerum við okkur í hugarlund mynd af Jesús.  Hver er þín mynd?  Er hann glaður, leiður, sorgmæddur, þjáður?  Brosir hann með augunum, blíðu brosi, með umhyggju, kærleika, miskunn, vináttu o.s.frv. eða er hryggð í svip hans?  Ritningarversið hér að ofan minnir okkur á að Jesús var einnig glaður þrátt fyrir að flest öll málverk af honum sýni annað.  Og hann kom til að flytja fátækum gleðilegan boðskap (Lk.4:18b). Getur ekki verið að Guð brosi til þín og sé ánægð með þig?  Taktu á móti gleðinni.  Leyfum gleði Heilagrar andar að fylla líf okkar, lofum Guð og brosum út í eitt, því brosið eykur gleði okkar.  Og gleði Guðs er styrkur okkar (Nem.8:10c).  Jesús sagði:  Þetta hef ég talað til yðar til þess að fögnuður minn sé í yður og fögnuður yðar sé heill.  Þetta er mitt boðorð, að þér elskið hvert annað eins og ég hef elskað yður.” (Jóh.15:11-12)

 

Við biðjum:

“Metta oss að morgni með miskunn þinni, að vér megum fagna og gleðjast alla daga vora.” (Sálm.90:14)

By |4 mars 2021 19:44|Dagleg trú|

Kraftaverkin – stjörnur í augum – Örhugleiðing sr. Huldur Hrannar

Kraftaverkin – stjörnur í augum

Jesúbarnið í jötunni kallar fram vellíðunartilfinningu hjá mörgum.  Það er birta í kringum það, því himneskt ljós lýsir á það og frá því, og skin frá stjörnunni.  Við fáum stundum stjörnur í augun því við minnumst gleðistunda í æsku, tilhlökkunar og ánægju.  Og við sjáum þessar tilfinningar hjá yngri kynslóðinni og jafnvel tekst okkur sjálfum að skapa með hjálp Guðs þessar góðu tilfinningar.  Við opnum hjörtu okkar fyrir kraftaverkum og meðtökum þau.  Guði er enginn hlutur um megn.  Það sjáum við og heyrum í jólaguðspjallinu.  Og það á einnig við í dag.  En partur af því hvers vegna við fáum stjörnur í augun er að Jesús breytir lífum fólks til hins betra, það lesum við m.a. um í guðspjöllunum.  Allt þetta góða sem Jesús gerði fyrir fólk.  Það er dásamlegt.  Og Guð færir einnig birtu og kraftaverk inn í líf okkar.  Sérð þú skinið frá stjörnunni sem lýsir þína leið?

By |27 desember 2020 10:42|Fréttir|

Lífið og ljósið – Örjólahugleiðing sr. Huldu Hrannar M Helgadóttur

Lífið og ljósið

      Jólatréið sígræna minnir okkur á lífið sem eilíft.  Í Jóhannesarguðspjalli stendur:  “Í Guði var líf og lífið var ljós mannana …  Hið sanna ljós, sem upplýsir hvern mann, kom nú í heiminn.”  (Jóh.1:4,9) 

     Jólin eru komin.  Og við minnumst fæðingar Jesú.  Það var að því er mig minnir ekki fyrr en á 3 öld sem kristnir menn fóru að halda þessa hátíð hátíðlega.  Upprisuhátíðin var og er aðal hátíðin.  Já kristnir menn fagna lífinu á margan hátt.  Enda er hvert líf dýrmætt og einstakt.  Einnig þitt.  Því þurfum við að vernda og meta lífið og stuðla að andlegri sem líkamlegri velferð okkar.  Það gerum við m.a. með því að láta okkur annt um okkur sjálf sem og annað fólk – að gefa og þiggja.

     Já lífið er að finna hjá Guði og lífið er ljós sem bregður birtu sína yfir tilveru okkar.  Guð lýsir upp líf okkar m.a. með orði sínu.  Og bænin er mikilvægt samtal og afl – það hafa rannsóknir sýnt.  Tölum við Guð og opnum hjörtu okkar fyrir því sem hún vill við okkur tala – hvert hún vill leiða okkur og lýsa upp líf okkar.  Það er engin ein formúla t.d. getur höfuðnudd, magnesíum og bros lýst okkur upp og því getur Guð m.a. verið að hvetja okkur til að fara í nudd eða brosa oftar.  En það er gott að hvíla í handleiðslu Guðs og ljósi Guðs.

     Megi ljós Jesú Krists lýsa upp tilveru okkar þessi jól.  Hvítur er litur jólanna.  Gleðieg jól.

By |25 desember 2020 10:38|Fréttir|

Hvert er uppáhalds jólaskrautið þitt?

Örhugleiðing sr. Huldu Hrannar M. Helgadóttur

Hvert er uppáhalds jólaskrautið þitt?

     Flest eigum við okkur okkar uppáhalds jólaskraut.  Jólaskraut getur kallað fram gleði, notalegheit og jólatifinningu í huga okkar.   Og mörgum finnst heldur fátækleg jól án nokkurs jólaskrauts.  Við höfum mismunandi smekk á skrauti.  Sum eru t.d. meira ljósafólk á með önnur eru meira dúkafólk, sum eru meira fyrir einfalt handgert skraut á með önnur vilja glit og glans. Hvert er uppáhaldsjólaskrautið þitt?  Og hvers vegna er skrautið í uppáhaldi hjá þér?

     Norman Vincent Peale segir frá því bókinni Fjársjóður jólanna (Reykholt 1993) þegar hann hélt upp á jólin í Kenía 87 ára að aldri.  Ekki var hann beint jákvæður þegar fjölskylda hans kom með þessa hugmynd að búa í tjaldi um jól innan um villt dýr.  Aðstæður voru frumstæðar og sólarhiti.  Hann varð andvaka þarna úti vegna þess að ekkert minnti hann á jólin, engin jólatré og engin jólaljós.  Hann var dapur í bragði.  Svo kom að jólunum.  Þá var fjölskyldan sett niður við árbakka svo hún gæti horft á tvo hirða gæta nautgripa.  Þessi friðsæla sýn vakti með honum viðkvæmni, því þarna tengdi hann við fjárhirðana í Betlehem og einfaldleika jólafrásögunnar.  Hann fékk fullkomna vissu og frið fyrir því að þar sem jólin væru annars vegar, skiptir umhverfið ekki neinu máli.  Andi Guðs væri nefnilega alls staðar.  Skrautið væri umbúðirnar um hið raunverulega djásn, sem er að Guð hefur í lotið að mannheimi í litlu barni, til að gefa þeim af kærleika sínum.

 

By |24 desember 2020 10:29|Dagleg trú|

Skilaboð á Covid tímum

Elskulegu vinkonur.  Svo sem rétt er og skyldugt höfum við í góðu samráði hver við aðra fellt niður allar samkomur okkar um óákveðinn tíma.  Engar messur, engar mánudagssamverur.  Við tilkynnum þegar úr rætist og við getum aftur hists.  En hvað það verður gaman.  Reynum allar að njóta þessara daga sem gefa okkur tækifæri til að gera eitthvað annað en vanalega eða hvíla okkur bara og horfa út um gluggann.  Við ætlum að lesa Markúsarguðspjall þegar við getum aftur byrjað mánudagssamveruna svo það væri gaman að byrja að lesa það heima.  Biðjum hver fyrir annarri og fyrir öllu okkar frábæra þjóðfélagi.  Kvennakirkjan

By |29 október 2020 21:23|Fréttir|