Lífið og ljósið

      Jólatréið sígræna minnir okkur á lífið sem eilíft.  Í Jóhannesarguðspjalli stendur:  “Í Guði var líf og lífið var ljós mannana …  Hið sanna ljós, sem upplýsir hvern mann, kom nú í heiminn.”  (Jóh.1:4,9) 

     Jólin eru komin.  Og við minnumst fæðingar Jesú.  Það var að því er mig minnir ekki fyrr en á 3 öld sem kristnir menn fóru að halda þessa hátíð hátíðlega.  Upprisuhátíðin var og er aðal hátíðin.  Já kristnir menn fagna lífinu á margan hátt.  Enda er hvert líf dýrmætt og einstakt.  Einnig þitt.  Því þurfum við að vernda og meta lífið og stuðla að andlegri sem líkamlegri velferð okkar.  Það gerum við m.a. með því að láta okkur annt um okkur sjálf sem og annað fólk – að gefa og þiggja.

     Já lífið er að finna hjá Guði og lífið er ljós sem bregður birtu sína yfir tilveru okkar.  Guð lýsir upp líf okkar m.a. með orði sínu.  Og bænin er mikilvægt samtal og afl – það hafa rannsóknir sýnt.  Tölum við Guð og opnum hjörtu okkar fyrir því sem hún vill við okkur tala – hvert hún vill leiða okkur og lýsa upp líf okkar.  Það er engin ein formúla t.d. getur höfuðnudd, magnesíum og bros lýst okkur upp og því getur Guð m.a. verið að hvetja okkur til að fara í nudd eða brosa oftar.  En það er gott að hvíla í handleiðslu Guðs og ljósi Guðs.

     Megi ljós Jesú Krists lýsa upp tilveru okkar þessi jól.  Hvítur er litur jólanna.  Gleðieg jól.