Von, væntingar og vinátta á aðventu. Prédikun 6. desember 2009

Bæn Leiddu mig Guð – eftir þínu réttlæti, sestu niður með mér og rabbaðu við mig, gerðu beina brautina þína fyrir mér og gef mér ljós þitt svo ég sjái hvert ég á að stefna. Gefðu mér daglegt brauð og hjálpaðu mér við að fá að taka þátt í að baka það. Sendu mér áfram englana þína. Því að þú ert vinkona mín og vinur sem gengur með mér í gleði og sorg. Amen

Eins og fram kemur í fréttabréfi kvennakirkjunnar starfa ég sem aðstoðarskólastjóri í framhaldsskóla. Ég fæ því oft nemendur til mín í ýmsum erindagjörðum og oftar en ekki sem þurfa að fá hvatningu og ráð. Einn slíkur nemandi kom til mín nýlega og var frekar langt niðri, ég beitti samræðutækni og ýmsu uppbyggilegu til að veita henni sem besta þjónustu og hressa hana við, og smám saman sá ég að á henni lyftist brúnin. Ég hugsaði með mér að það sem ég hefði sagt hlyti að vera býsna snjallt. Spurði hana því, hvort að henni liði betur, en þá svaraði stúlkan og brosti einlæglega: „Ó, já, mér líður svo miklu, miklu betur AF ÞVÍ þú ert búin að brosa svo mikið framan í mig.“ …. Ég ætla nú samt sem áður ekki að láta duga að brosa bara framan í ykkur í kvöld.

Svona sendir Guð okkur engla sína til að kenna okkur. Nemandinn var þarna að kenna kennaranum. Englarnir birtast í nemendum okkar, samferðafólki okkar – fjölskyldu, samstarfsfólki, vinum, fólki sem við mætum á förnum vegi og göngum samferða á lífsleiðinni. Á lífsleiðinni sem er gangan frá fæðingu til dauða er svo mikilvægt að vera vel vakandi, eða hafa olíu á sínum lampa eins og hún Gunnbjörg Óladóttir ræddi um í síðustu messu […]

Messa í Grafarvogskirkju 10. október 2004

Elsku Guð, leiddu mig í þessari hugvekju, og kenndu okkur öllum að læra að fyrirgefa og þiggja fyrirgefningu.

Guð gefðu okkur öllum styrk og visku til að meta mátt og miskunn fyrirgefningarinnar.

Þjófur á Nýlendugötu ?
Ég vaknaði í morgun: Míb, míb, míb, míb…þjófavarnakerfi í einhverjum bílnum hafði farið í gang. Það hljóta flestir íbúar við vesturenda Nýlendugötunnar að hafa hrokkið upp, að minnsta kosti rumskað. Æ, hvað þetta var óþægilegt, ætlar þetta ekkert að hætta! Það var ekkert lát á, og það heyrðist míb, míb, míb, í tja, a.m.k. 10 mínútur. Eigandinn hefur eflaust verið á sýningu í Loftkastalanum kvöldið áður og skilið bílinn eftir. Ég og hinir íbúarnir tékkuðum ekkert á því hvort verið væri að ræna úr bílnum, þetta bara gekk og gekk!! Ekki gætti ég að hvað var að gerast, en vonaði að einhver annar eða önnur myndi nú kannski gera eitthvað í málinu. Kannski hefði ég bjargað fartölvu, en það kemur vonandi einhvern tíma í ljós.

30 ára vígsluafmæli og rolukast
Við höfum undanfarið verið að halda upp á 30 ára vígsluafmæli sr. Auðar Eir, lærimóður okkar m/meiru. Það hefur í raun verið afmæli okkar allra, því vígsla hennar braut blað í sögu kvenna á Íslandi. Þrjár ólíkar uppákomur hafa verið í boði: Kvennaferð að Holti í Önundafirði, Hátíðarmessa í Neskirkju og m álþing í Hallgrímskirkju, svona “trílógía”, svo talað sé á tæknimáli! Ég náði að taka þátt í tveimur fyrri, mér til ómældrar ánægju og gleði – en ég var í rolukasti, eins og sr. Auður Eir kallar það, þegar sú þriðja átti sér stað, og fýlu út í allt og alla, en Guð minnti mig svo bara á að ,,eymd er valkostur” – og ekki var ég nú hrifin af þeim valkosti og […]

Messa í Langholtskirkju 10. nóvember 2002

Bæn
Leiddu mig Guð – eftir þínu réttlæti, sestu niður með mér og rabbaðu við mig, gjörðu beina brautina þína fyrir mér svo ég sjái hvert ég á að fara. Gefðu mér daglegt brauð og hjálpaðu mér við að fá að taka þátt í að baka það. Því að þú ert vinkona mín og vinur og ert með mér í gleði og sorg. Amen
Þori ég get ég vil ég
Hún er sjö ára gömul. Hún er stödd í sundhöllinni á Barónstíg. Hún stendur hátt uppi á bretti. Allt of hátt. Hún fær fiðring í magann og kvíðahnút. Hún hefur verið stödd þarna áður en þá þurfti hún að bakka niður stigann, því hún þorði ekki að stökkva. Þau sem stóðu fyrir aftan hana í röðinni voru ferlega pirruð að þurfa að hleypa henni niður. En… þau þurfa þess ekki í þetta skipti því hún gengur út brettið og lætur sig gossa. Spliss – splass – vatnið fussast og hún fer á bólakaf, vatnið tekur vel á móti henni og hún skýst upp aftur og kemur upp úr brosandi út að eyrum og það eru engin smá eyru!

Hún þorði, hún gat og hún vildi og hún stökk.

Hún er 37 ára gömul. Stödd fyrir utan Háskólann. Hún fær fiðring í magann og kvíðahnút. Hún hefur verið stödd þarna áður, en hætti við, þá var það of erfitt og of mikil vinna með börnin. Hún sagði við Guð „Guð nú verður þú að hjálpa mér inn um þessar dyr“.. og hún fann hvernig Guð krækti handleggnum í hennar og hjálpaði henni inn, …. og það var tekið vel á móti henni.

Hún gat, hún þorði, hún vildi og hún gekk inn.

Hún er fertug. Stendur í prédikunarstól í Langholtskirkju. Hún fær fiðring […]