Upplýsingar

Seltjarnarneskirkja 13. nóvember 2022
Séra Auður Eir Vilhjálmsdóttir
Saga kvöldsins er um sálmasönginn í húsi Guðs og úti í grænu grasinu.  Það var einu sinni þegar fólk Guðs var búið að búa í nokkur hundruð ár í landinu sínu að vondur kóngur að austan kom og tók þau höndum, eyðilagði musterið og múrana kringum Jerúsalem og flutti þau langt í burtu þar sem hann átti heima,  Þau sátu við fljótið og grétu og seinna sungu þau sálminn sem við heyrðum áðan:  Við Babýlonsfljót sátum við og grétum.  Hvernig áttum við að syngja Guði ljóð í öðru landi?  Næsti kafli Biblíunnar er um það þegar Guð leiddi þau aftur heim.  Til að gera langa sögu stutta þá byggðu þau aftur upp musterið og múrana og þegar það var búið var haldin undursamleg hátíð.  Það er tekið fram að hún var ekki bara fyrir mennina heldur líka fyrir konurnar og börnin.  Og tveir miklir kórar komu syngjandi sitt úr hvorri áttinni og gengu upp á múrana og mættust þar og sungu.   
Þriðju kaflinn er um Jesúm sem söng með fólkinu sínu.  Í síðustu kvöldmáltíðinni lauk kann máltíðinni með að syngja lofsönginn áður en hann gekk út í Getsemane og var hadtekin og krossfestur.  
Hann stofnaði kirkjuna og hún breiddist út með miklum hraða og fólkið kom saman í söfnuðunum sínum og söng sálma.  Þau átti heila sálmabók, Davíðssálmana í Gamla testmentinu.  Syngið saman, syngið sálmana sem styrkja ykkur og blessa í yndislegri trú ykkar á Jesúm frelsara ykkar.  Það stendur aftur og aftur i bréfunum sem söfnuðirnir fengu frá. postulunum., konunum og mönnunum sem sífellt heimsóttu söfnuðina og skrifuðu þeim bréf.  Syngið sálma, skrifuðu þau,  syngið sálma til að styrkja og gleðja trú ykkar.
Þetta stendur í Postulalsögunni sem við erum að lesa á mánudagskvöldunum.  Hún er um söfnuðina sem sungu saman og styrktust og glöddust.  Hún er um kvenfrelsið sem Jesús stofnaði.  Hún er um andann sem fyllti hvert einasta hjarta og knúði allt starfð áfram.  Við lásum um hvítasunnuna þegar andinn kom eins og stormur í hjörtun og sagði þeim hvert þau skyldu fara og hvernig þau skyldu vinna.  Postulusagan er sagan um heilagan anda og líka um konurnar sem voru kallaðar til starfa.     
Postulasagan er líka um okkur.  Hún er um andann sem Guð gefur okkur.   Hún er um það hvernig Guð talar við okkur og segir okkur hvernig við skulum vinna.  Við höfum sagt hver annarri frá því.  Hvernig Guð sagði sumum okkar hvaða störf þær skyldu vinna,  hvernig þær skyldu læra þau og vinna þau.  Hún sagði okkur öllum hvernig við skyldum treysta Guði í venjulegum dögunum,  í blíðu og stríðu, huggast í sorginni og finna jafnvægið og kjarkinn og allt sem þurftu í breytilegu lífinu í fögnuði og eftirvæntingu.  Við byrjuðum guðþjónustuna okkar á orðunum í kvennaguðfræðinni:  Við skulum finna nærveru Guðs í venjulegum dögum okkar.  Það er ekki bara nóg að finna trúna í venjulegu dögunum,   það er dásamlegt.
Þú veist hvernig það er.  Þú veist hvernig Guð hefur talað við þig.   Gáðu og sjáðu.  Guð hefur l talað við þig eins og hún talaði við fólk Gamla testamentisins og Nýja testamentisins.  Í venjulegum dögum þínum.  Hún gerði þig milda og máttuga.    Hugsum um það og þökkum fyrir það.  
Fólk Postulasögunnar lifði í sífelldum stríðum eins og fólk Gamla testamentisins.  Eins og við sjálfar.  En mitt í ólgu heimsins áttu þau sömu öruggu vissuna og við:  Við eigum Guð sem elskar okkur og kom í Jesú Kristi.  Við eigum tilgang, allt líf okkar er helgað Guði vinkonu okkar sem er Jesús frelsari okkar.  Við fylgjum honum.  Það er tilgangur lífs okkar.  Jesús er mitt í lífi okkar.  Kross hans er  vitni um ólgu og gleði heimsins  og grundvöllur allra daga okkar.
Þess vegna skrifaði kvennaguðfræðingurinn Dorothee Sölle að krossinn væri ekki eitthvað kristiðlegt tákn.  Hann er ekki tákn sem hangir gullið á bringum biskupanna. Hann er ekki eitthvað út af fyir sig og allt annað en lífið sem streymir í kringum okkur.  Hann er skelfilegur blóðugur raunveruleiki sem sýnir miskunnarlaust ofbeldi sem fólk sýnir hvert öðru.  Hann er barátta gegn óréttlætinu og sigurinn.  
Kross Krists er sigur yfir hörmungum heimsins.  Þess vegna er hann sigur yfir daglegri óró okkar og mistökum, angurværð okkar og sektarkennd.  Það er boðskapur kvöldsins.  Eins og allra kvölda okkar.  Amen