Upplýsingar

Góða fólk.

Eins og glögg augu sjá er ég ekki Sveinbjörg. Sveinbjörg er veik og biður innilega að heilsa og saknar okkar og vonar að við björgum málunum þótt hún geti ekki flutt ræðuna sem hún ætlaði að gera í kvöld. Við björgum málunum eins og alltaf og biðjum Guð að lækna hana og þær aðrar vinkonur okkar sem eru veikar í kvöld.

Ég gæti alveg hugsað mér að vera Sveinbjörg. Ég held að það sé verulega gaman, svo mikla hæfileika sem sú góða kona hefur. Ég segi þetta í fullu trausti þess að Sveinbjörg gæti stundum hugsað sér að vera ég. Eða þú. Og ég segi þetta af því að það er innifalið í boðskap kvöldsins sem er eitt af kvöldum föstunnar. Það er sá yndislegi boðskapur að við skulum setja okkur í sport hver annarrar og vita mætavel að við erum allar hluti hver af annarri. Það er með því sem við finnum hverjar við erum sjálfar.

Það er skrifuð mektar guðfræði um það að við skulum bæði vera við sjálfar og við allar saman. Sveinbjörg ætlaði að predika um 13. kaflann í Jóhannesarguðspjalli og ég ætla þess vegna að gera það líka. 13. kaflinn í Jóhannesarguðspjalli er hluti af frásögunni um síðustu kvöldmáltíðina og það sem Jesús sagði þá við vinkonur sína og vini. Og við spyrjum nú strax hvað hann segi þar um það að við eigum bæði að vera það sem við erum sjálfar hver og ein og það sem við erum allar saman.

Það er auðvitað stórlega eftirsóknarvert að vita það. Einfaldlega af því að við erum alltaf að leita eftir því að vita hverjar við erum. Það er svo eftirsóknarvert að við förum á rándýr námskeið til að læra það og kaupum okkur bækur sem segja okkur það.

Hvað sagði Jesús um það í síðustu kvöldmáltíðinni?

Hann sagði: Vertu í mér. Þá verð ég í þér. Þú verður þú. Þú verður það sem þú ert. Og það sem þú ert er einmitt svo flott. Svo yndislegt.

Við getum nú stansað við og sagt sisona: Einmitt það. En er það nú ekki einmitt á föstunni sem kirkjan ræðst á okkur með svakalegan boðskap um að við séum svo galómögulegar, svoddan endemis syndarar að Jesús þurfti að kveljast og deyja?

Nú væri kannski hentugt að geta sagt: Nei, nei, elskan mín góða, það er ekkert svoleiðis. Svo að fólki finnist kristin trú ekki fráhrindandi eða bara heimskuleg. En, það er einmitt svoleiðis. Boðskapur föstunnar er um synd okkar og kvöl Jesú. Það var sagt í sálminum sem við sungum: Kvölin sem hann bar var kvölin sem ég átti að bera. Það sem ég hélt að væri hans var mitt.

Hvað segirðu nú? Hvað segirðu? Læturðu segja þér að þú sért syndari? Við tölum oft um það í Kvennakirkjunni okkar og það er víst áreiðanlega satt að sitt sýnist hverri. Það er ekki viðkunnanlegt að vera syndari. Og það er bara ekki viðkunnanlegt að vera alltaf að tala um kvöl Jesú og skelfingu og eymd.

Hvað eigum við að segja um þetta allt? Nú skaltu bara hlusta verulega vel. Og ákveða sjálf hvort þú ert sammála eða ósammála því sem ég segi. Það er alltaf svoleiðis um allar predikanir. Þær eru bornar fram og þau sem hlusta dæma, velja og hafna, og fara heim mað það sem þau vilja.

En það sem stendur í borðræðu Jesú er svo augljóst að ég legg bara eindregið til að þú veljir þetta: Þú ert syndari. Í því orði, synd, sem sumar okkar kunna ekki við, felast önnur orð, eins og mistök og klaufaskapur, misskilningur og fáfræði og öll möguleg önnur sem við þekkjum svo vel úr daglegu lífi okkar.

Stundum stöndum við andspænis einhverju sem sýnir okkur svart á hvítu að við gerum ekki bara mistök í mismælum og óhugsuðum orðum og verkum og fordómum og hugsunarleysi. Stundum rennur það upp fyrir okkur að við erum í rauninni syndarar. Allt þetta sem við rekumst á í fari sjálfra okkar bæði hversdags og spari getur verið svo galið og svo þungbært að það veki okkur á nóttunni og hreki okkur út í örgustu deilur á daginn. Ellegar roluskap, ellegar hver veit hvað? Og svo verður ómögulegt að losna við það. Við hugsum okkur kannski að fara til sálfræðings og segja frá því eða út í Skerjafjörð eða upp í Heiðmörk til að prófa að hrópa það út í bláinn, af því að okkur er sagt að það geti hjálpað okkur.

Tíminn líður og þessi ræða má ekki halda áfram til miðnættis svo það er best ég vindi mér í svör og lausnir. Þeim máttu alveg treysta. Alveg pottþétt. Og hugsaðu þig nú vel um því það borgar sig að fara með þetta heim.

Það er svarið úr 13. kafla Jóhannesarguðsjalls. Þetta: Í fyrsta lagi: Jesús elskar þig. Það er með því að treysta því sem þú verður þú. Treystu því. Treystu honum. Treystu því að hann hefur tekið frá þér syndir þínar. Treystu því. Treystu þér. Punktur. Farðu heim með þetta.

Í öðru lagi: Þú lærir að treysta þér með því að læra að treysta okkur. Við lærum að treysta okkur með því að treysta þér. Það er þess vegna sem við hittumst. Við komum messu eftir messu, hittum hver aðra og hittum Guð saman. Við segjum kannski hinum frá einu og öðru í kaffinu. En mest segjum við ekki, en segjum það samt með því að koma. Það er játning okkar um einlæga ósk okkar um hjálp Jesú. Og um traust okkar til þess að hann hjálpi okkur.

Jesús sagði okkur frá þessu þegar hann þvoði fæturna á vinkonum sínum og vinum. Það átti að verða aðalefni predikunarinnar í kvöld og verður það núna:

Það er svona: Við síðustu kvöldmáltíðina sagði Jesús: Nú sýni ég þér hver þú ert með því að þvo fætur þína. Og ég sýni þér hver ég er. Og hver hin eru. Svo sagði hann orðin sem okkur geta fundis svo skrýtin: Þau sem hafa laugast þurfa ekki að þvost.

Hann sagði: Þú tilheyrir mér, allar syndir þínar voru fyrirgefnar í skírninni, þegar þú laugaðist í skírnarvatninu. En við sjáum bæði að þú heldur áfram að gera gloríur. Þú þarft ekki að laugast upp á nýtt. Þú tilheyrir mér. Alltaf. Og þess vegna skal ég þvo af þér mistök þín aftur og aftur. Og aftur og aftur. Eins og ég þvoði fætur þeirra sem fylgdu mér.

Þá veistu það: Þú tilheyrir Jesú frelsara þínum sem er Guð vinkona þín. Það er óafturkræft. Það er eilíft. Það er öruggt. Það er dásamlegt.

Og: Hvað segir það um það að þú sért það sem þú ert með því að hitta okkur hinar og lofa Guð með okkur?

Það segir þetta: Eins og Jesús sýndi öllum hópnum sínum kærleika sinn og líka hverju þeirra fyrir sig, eins megum við taka hver aðra og hvert annað að okkur og treysta samfélagi okkar, treysta því að Jesús elskar Kvennakirkjuna okkar.

Jesús segir síðast í 13. kaflanum að hópurinn hans einkennist af kærleikanum. Og af kærleikanum geti allt annað fólk þekkt þennan hóp.

Svo nú förum við heim með þetta: Við eigum fyrirgefningu Guðs vinkonu okkar sem er Jesús frelsari okkar. Við megum hafa það að þakkarefni föstunnar að við megum fyrirgefa sjálfum okkur. Og við megum fagna yfir sjálfum okkur og hver yfir annarri.

Og þegar við förum til verkefna okkar á morgun förum við nýjar manneskjur. Við erum þær sem eiga fyrirgefningu og gleði Guðs einu sinni einu sinni enn. Og við eigum yndislegar vinkonur Kvennakirkjunar sem eru svo flottar að það er alveg dásamlegt að vera eins og þær. Og þær biðja alltaf fyrir okkur. Amen.