Upplýsingar

Við erum að huga að sjálfum okkur eins og alltaf, huga að blessun okkar, svo að við verðum sjálfar til blessunar, fyrir sjálfar okkur að annað fólk.
Við hugum að ræðunum sem Bryndís og Sveinbjörg fluttu í síðustu messum.  Sveinbjörg talaði um lífið sem væri ferð og vitnaði í gönguferð Cheryl Strayed um langa vegu  Bandaríkjanna   og væntanlega gönguferð  Vilborgar Örnu á Suðurpólinn.  Cheryl gekk alein í þrjá mánuði til að huggast og komast aftur til sjálfrar sín.  Og Sveinbjörg sagði:  Cheryl lýsir  átökunum við að lyfta útroðnum bakpokanum og sárunum sem hann skyldi eftir sig á öxlum hennar og mjöðum. Hún lýsir ógninni sem leyndist svo víða og horfði stundum beint í augu hennar, og öllum ósigrunum. En hún lýsir líka gleðinni sem hún fann svo oft fyrir vegna alls þess sem hún sigraðist á, og vegna fegurðar náttúrunnar og vináttu þeirra sem hún hitti. Á göngunni hugleiddi hún lífið, reynslu sína og breytni. Innri sársauki hennar mætti ytri sársauka.
Bryndís talaði um einn dag í sinni lífsgöngu, daginn sem hún dreif sig í að raka laufin úr garðinum svo að þau kæfðu ekki grasið og taka burtu laufin  sem voru búin að stífla rennurnar.
Hvers vegna ógnar lífið okkur stundum og hvers vegna verður það kæfandi og stíflandi?  Það er sagt í texta kvöldsins í 1. Kafla Jóhannesarguðspjalls.  Guð kom sjálf til okkar.  Hún var Jesús.  Hún kom til eignar sinnar.  En fólkið sem hún skapaði og átti tók ekki á móti frelsara sínum.  Þess vegna eru ógnir og erfiðleikar í heiminum.  Og þess vegna verður lífið stundum erfitt mitt í gleði þess og vináttu.  Líka fyrir fólkið sem treystir Guði hverja stund.
Aðventan býður okkur að kveikja á kertum og hlusta á jólasálma og huga að okkar eigin göngu.  Við snúum okkur að því núna, hver um sig með stuðningi allra hinna sem sitja hjá okkur í kirkjunni.  Svo höldum við áfram heima ef við bara viljum.  Við förum yfir okkar göngu og ógnir hennar og gleði og stíflur sem við getum losað.
Við kvennakirkjukonur erum alltaf að skrifa og lifa guðfræði um þetta allt.
Sumar okkar hafa farið á þessi líka fínu námskeið eða kennt þau sjálfar um það sem býðst eitt af öðru til að frelsa okkur.  Það er til dæmis jóga og innhverf íhugun og tilfinningagreind og þessi dásamlega list sem er núna svo ofarlega á baugi, að vera í núinu, hérna og núna, en vera ekki að hugsa um eitthvað allt annað.  Þetta stendur okkur allt til boða.
En ekkert af því getur komið í staðinn fyrir leið kristinnar trúar.  Það er að treysta boðskap aðventunnar.  Hann er svona:  Guð er komin.  Hún er Jesús.  Hann er frelsari heimsins og frelsari þinn.  Hann gengur með þér alla daga, mætir ógnunum með þér og hjálpar þér að raka saman laufunum og losa stíflurnar.
Það skiptir mestu hvað við hugsum.  Það eru okkar eigin erfiðu hugsanir sem stífla huga okkar og kæfa gleðina og ógna okkur.  Þær stafa af einu og öðru sem svo margt er ógnarlegt en líka margt eintóm vitleysa.  En allar þessar hugsanir trufla okkar dag eftir dag og þegar þær hverfa loksins koma aðrar í staðinn.  Eða hvað finnst þér?   Ekki er ég að segja frekar en fyrri daginn að við séum alltaf dimmar og daprar.  En erfiðar hugsanir eru svo mikill hluti af okkur að við erum líklega allar löngu búnar að sjá að við ráðum ekki við þær einar.
Enn og aftur gleðjum við hver aðra og uppörvum með því að segja hver annarri að það er fyrirgefning Guðs sem læknar huga okkar.  Á hverjum morgni fyrirgefur Guð okkar skilyrðislaust öll mistök okkar og allar stórgerðar misgerðir lífsins, þær sem við gerðum sjálfar og þær sem við urðum fyrir.
Guð hefur fyrirgefið okkur.  Þess vegna megum við fyrirgefa sjálfum okkur.
Ein af okkur fór til læknisins síns af því að hún hélt að hún væri veik.  En læknirinn sagði:  Nú er ég búin að skoða þig.  Þú ert ekkert veik.  Fyndist þér ekki grátlegt ef hún hefði farið heim og grátið yfir því að vera samt ábygglega fárveik?
Eins komum við til Guðs og segjum:  Ég er alltaf að gera það sem  ég vil ekki gera.  Og Guð segir:  Það sé ég nú, en ég er búin að fyrirgefa þér.  Farðu nú heim eða niður á Laugaveg og vertu svo fegin yfir að eiga fyrirgefninguna að þú gerir eitthvað skemmtilegt.
Fyrirgefningin er grundvöllur lífsins.  Þú átt hana.  Gerðu eitthvað  skemmtilegt á hverjum degi bara af því að þú átt hana.  Guð elskar þig.  Amen.