Upplýsingar

Gleðilegt haust, góðu vinkonur, yndislegt að hittast aftur og leiða hver aðra inn í haustið. Ég talaði við eina okkar sem sagði að hún byggist við að veturinn yrði að mörgu leyti góður. Ekki áreiðanlega stórgóður að öllu leyti. Við vitum það alltaf, eins og við segjum líka alltaf. Við skipumst á að mæta gleði og erfiðleikum, það eru margskonar kaflar í lífi okkar allra. Okkur dettur ekki í hug að afneita því eða gleyma því því það er okkur svo hollt og gott að vita það. Okkur býðst ekki sífellt sumar og það er gagnlegt að vita það. Og Guð er alltaf hjá okkur og þess vegna hefur flest tilhneigingu til að fara heldur vel.

Einu sinni enn rifjum við saman upp þennan augljósa sannleika að það sem gerist í kringum okkur hefur áhrif á okkur og það sem við gerum og segjum og hugsum hefur áhrif á það sem gerist í kringum okkur. Er það ekki öldungis yndislegt og stórkostlegt að við skulum geta haft hönd í bagga með sjálfum okkur?

Við ætlum að tala um það í kvöld. Við ætlum að gefa hver annarri nestispakka í ferðina inn í haustið.

Nú þykir mér ráðlegt að við hugsum hver um sig um innstu gerð sjálfra okkar í stutta stund. Ég held nefnilega að það sé prýðilegt að gá að mestu kostum okkar. Af því að það er svo upplagt að nota þá í vetur, þessa undursamlegu kosti okkar. Hefurðu það á hreinu hverjir eru bestu kostir þínir? Ég held við rétt byrjum á verkefninu og svo verði það heimaverkefni. Og við bætum því við hverjir við höldum að séu mestu ókostir okkar. Það er nefnilega afar hugsanlegt, bara áreiðanlegt, að við getum með góðri umönnun umvafið þá með kostum okkar. Eða hvað heldur þú? Ég legg til, eindregið, að við tökum þetta verkefni með heim. Og tökum það að okkur í stemningu haustsins með nýja skerpu í loftinu og eftirvæntingu eftir litum nýrra daga og ljósum nýrra kvölda. Stærstu sneiðarnar í nestispakkanum eru þessar: Önnumst sjálfar okkur. Svo að við getum annast annað fólk. Og tekið á móti umönnuninni sem okku býðst.

Svona leggjum við af stað inn í haustið með sjálfar okkur í umhyggju, rétt eins og alltaf. Það er yndislegt að við skulum fá umhyggju hver annarrar í þessu mikla verki. Ef þú leyfir mér að hafa persónulegan vitnisburð þá ætla ég að gera nú verulega alvöru úr því að borða fisk og gulrætur og hreyfa mig rækilega og hugsa fallegar hugsanir og gæta að því sem ég segi, svo það særi hvorki annað fólk né mig sjálfa svo ég fari að vakna á næturnar með ónotatilfinningu yfir sjálfri mér. Ég ætla líka að ljúka verkefnum vikunnar á föstudögum svo ég vakni ekki upp við róðaríið fyrir utan mig og inni í mér. Þetta eru stórgóð áform. En við stígum skrefi lengra.

Eins og alltaf. Við stígum til Guðs vinkonu okkar. Eins og við segjum svo oft: Við tökum lífið í hendur okkar og leggjum okkar hendur í hendur Guðs. Það er dásamlegt. Það breytir öllu. Eins og við vitum af margendurtekinn reynslunni.

Og svo stígum við skrefi lengra. Við vöxum í trú okkar og verðum litskrúðugri og skarpari eins og laufin verða marglit og loftið fær nýja og ferska skerpu. Við stígum inn í texta kvöldsins: Sæl eru þau sem eru fátæk í anda. Eða blessuð ert þú þegar þú ert fátæk í anda þínum.

Spurning kvöldsins er hvað þetta þýðir. Það þýðir kannski það að það er svo gott þegar við gerum ekki mikið úr sjálfum okkur. Ég held það. Hvað heldur þú? Og ég held það þýði enn meira og betra. Og ég held það sé fagnaðarerindi kvöldsins sem við gefum hver annarri í nestisboxið. Það er svona: Þú finnur blessun þína í því að vera fátæk í sjálfri þér svo að þú hafi rými fyrir auðæfi Guðs í hjarta þínu og öllu lífi þínu.

Hver eru auðævi Guðs sem þú mátt fylla hjarta þitt af? Það er fagnaðarerindið um það að Guð er vinkona þín og elskar þig og er alltaf hjá þér. Hún kom sjálf og varð manneskjan Jesús í Nasaret sem tókst á við sömu vandamálin og þú þarft að gera. En hann beið aldrei ósigur heldur sigraði alltaf og að lokum með því að sigra dauðann. Bæði svo að þú eigir eilíft líf og svo að þú eigir uppörvun og gleði í hverjum degi.

Nú megum við fylla hjarta okkar af þessu. Við erum vinkonur Guðs. Hún kom og var Jesús og fyrirgefur okkur á hverjum degi og gefur okkur gleði til dagsins. Það er sagt í kvennaguðfræðinni að syndin sé að vilja ekki taka á móti gleði Guðs, nenna því ekki eða þora það ekki. Við skulum nenna og þora. Til hamingju með það. Amen