Upplýsingar

Jólamessa í Háteigskirkju 27. desember.  Prédikun Arndís G. Bernhardsdóttir Linn

Gleðileg Jól kæru vinkonur og vinir !

Fæðing sérhver barns eru merkustu tímamótin í lífi einstaklinganna í kringum það – frá og með þeim tíma þegar barnið dregur fyrst andann er allt breytt. Ekkert getur orðið eins og það var áður. Þannig var það vissulega fyrstu jólanóttina. Tilvonandi foreldrar á  ókunnum og óhentugum stað, fjarri fjölskyldunni, án alls þess sem þau þekktu. Tilvonandi foreldrar sem stóðu frammi fyrir atburði sem átti eftir að breyta lífi þeirra og breyta heiminum. María fæddi Jesú og eftir það gat ekkert orðið eins og það var áður – aldrei að eilífu.–

Guð var, í öllu sínu veldi, komin í heiminn. Guð sem hafði allt vald á himni og jörðu kaus að fæðast í vanmáttugu og berskjölduðu barni.

Mörg þau sem hafa heyrt þessar fréttir síðan, þennan fagnaðarboðskap hafa undrast, velt vöngum, spurt sjálf sig,  Af hverju? Til hvers? Fyrir hvern?

Ég er með mynd sem ég ætla að biðja ykkur að láta ganga meðan ég held áfram að tala við ykkur. Ég geri mér grein fyrir að þið hafið oft séð þessa mynd áður. En ég hvet ykkur samt til að bera hana upp að andlitinu og skoða hana gaumgæfilega.

Því þessi mynd segir allt. Í henni felst svarið við því til hvers Guð kom í heiminn og fyrir hvern

Já Guð ákvað að koma í heiminn. Guð valdi að verða manneskja og fæðast í vanmáttugu og berskjölduðu barni. Við erfiðar aðstæður, inní óöryggi.

Þau sem mættu engli Drottins á Betlehemvöllum forðum urðu hrædd, ráðvillt, óörugg. Þeim var brugðið. Þau skyldu í fyrstu ekki þessa óvæntu uppákomu, þennan óvænta boðskap. Þannig hefur það líka verið fyrir marga einstaklinga sem á eftir hafa komið og hafa mætt Guði.

En Engill Guðs sefaði þau  og sagði,,verið óhrædd ég boða ykkur mikinn fögnuð“.  Þannig hefur Guð líka talað til þeirra sem á eftir hafa komið;  Því saga jólanna er bæði gömul saga og ný. Þegar við mætum Guði og skiljum ekki  hvað gengur á svarar Guð okkur og segir: „Svona, svona, já þetta hljómar vissulega sérkennilega og passar ekki inní kerfinn og rammana eða neinar fyriframgefnar hugmyndir ykkar – en þið þurfið í alvörunni ekkert að óttast. Ég er búin að plana þetta – Ég veit hvað ég er að gera og það mun örugglega koma ykkur á óvart.“

Og þannig er einmitt Guð, svo stórkostleg að hún kemur sífellt á óvart, svo stórkostleg að hún setur hlutina á hvolf. Ruglar fyrir okkur allt skipulagið sem við erum búin að flokka og greina í hólf og kassa svo við séum örugg og ekkert geti komið okkur á óvart. Því það er mannlegt að óttast það sem er óöruggt og óvanalegt, jafnvel þó það sé himneskt. En það er líka þar sem við vöxum hvað mest, við vöxum með því að horfast í augu við óttann og óöryggið í trú og trausti til Guðs.

Við vitum af hverju Guð kom. Guð kom í heiminn til að frelsa þau sem í honum eru. Sá fagnaðarboðskapur er fluttur til sérhverrar manneskju , til allra.  Hann er  í senn djúpur og margslunginn. Víðtækasta skírskotun fagnaðarerindisins er heimurinn, en hvaða merkingu hefur það fyrir þig? Hvað mætir þér í boðskap jólanna?

Mundu eftir myndinni sem þú ert annað hvort búin að sjá eða ert við það að fá í hendurnar. Myndinni sem felur í sér svarið við því til hvers Guð kom í heiminn og fyrir hvern.

Guð kom til að frelsa heiminn. Jesús kom í heiminn til að gera alla hluti nýja. Með því að verða manneskja fékk Guð tækifæri til að upplifa allt á eigin skinni. Engin mannleg tilfinning varð Guði framandi. Jesús upplifði bæði gleði og sorg og allt þar í milli. Og Guð vinkona okkar hefur alla tíð síðan  slegist  í för með okkur, til að styðja okkur, græða okkur og til að gera okkur heil. Hún kom til að vera til staðar þegar við þurfum á að halda, í blíðu og stríðu, hún kom til að fyrirgefa okkur og hugga. Og hún kom líka til að vera okkur fyrirmynd. En hún kom ekki bara alls þess vegna heldur kom hún líka til að fá okkur til liðs við sig til að bæta heiminn. Til að græða og gera heilt, til að lýsa þar sem er myrkur og til að færa fagnaðarerindið þangað sem það hefur ekki heyrst áður. Því hún er með plan sem kemur sífellt á óvart, sem er stórkostlegra en nokkurn gæti grunað og sem er ekki enn fullkomlega orðið að veruleika.

Guð kom fyrir þig – Þú ert Guðs. Hún elskaði ekki bara okkur öll, heldur líka sérhvert okkar, hvert og eitt okkar í sinni dýrmætustu mynd.  Guð er hér í kvöld og talar til þín í guðspjallinu.  Það er Þér sem frelsari er fæddur. Og kannski er einmitt þessi vídd guðspjallsins meira en við þorðum að vona, meira en við náum að meðtaka.

Boðskapur Guðs á jólanótt er ætlaður þér. Það er til þín sem Guð vill beina frelsinu, friðnum og fögnuðinum. Þar er til þín sem Guð talar þegar hræðsluefnin verða þér ofviða, þegar kvíði og ótti læðast að þér í hversdeginum, þegar þér líður eins og þessi áætlun Guðs geti bara engan vegin verið að ganga upp. Þá heyrirðu Guð hvísla til þín; ,,Vertu óhrædd/óhræddur.  Ég veit að frá þínu sjónarhorni lítur þetta vissulega sérkennilega út og passar ekki inní kerfinn og rammana þína – en þú þarft í alvörunni ekkert að óttast. Ég get gert langt fram yfir allt það sem þú biður, skynjar eða skilur. (Ef.3.20) Ég boða þér frelsi, frið og fögnuð.“

Loforð Guðs sem eru stráð um alla Biblíuna eru ætluð þér og það er þitt hlutverk að taka þau til þín í trú. Treysta því að þau séu ætluð þér. Treysta því að þau frelsi þig til betra lífs.

Því í dag, eins og alla daga fortíðarinnar og alla daga framtíðarinnar fer Guð á undan þér og hún verður líka með þér. Hún ætlar hvorki að sleppa af þér hendinni né fara frá þér. Þú hefur ekkert að óttast , þarft ekki að missa móðinn. (5. Mósebók 31.8)

Þess vegna er það ekki mynd sem hefur gengið hér á milli ykkar í kvöld, heldur spegill. Í Speglinum sérðu það sem er allra dýrmætast í augum Guðs,  bæði hér og nú og um alla eilífð. Í Speglinum sérðu dýrmæta sköpun Guðs sem hún lætur sér annt um. Guð ristir nafn þitt í lófa sér (Jes. 49.16), telur hárin á höfði þínu (Matt. 10.30), kallar þig með nafni og frelsar þig frá öllu því sem skyggir á samband þitt við hana.(Jes.43.1)

Frásaga jólaguðspjallsins er á mörkum þess guðlega og mannlega, segir frá sameiningu  tveggja heima, veruleika sem mætir þér – sem mætist í þér – Veruleika trúarinnar sem verður til fyrir kærleika Guðs sem kom í heiminn í litlu barni.

Og Þarna liggur hann í jötunni, Jesús sjálfur, vanmáttugt og berskjaldað barn og samt  Guð sjálf og á erindi við þig. Þér er í dag frelsari fæddur – Og nú getur ekkert orðið eins og það var áður, aldrei að eilífu.