Upplýsingar

Við erum staddar á fjalli í Ísrael forðum daga margar, margar, karlmenn og börn líka og Jesús hefur upp augu sín og lítur á okkur, sem hann fikrar sig ofar í hlíðina og segir: Koma so! Áfram gakk! Þið eruð sko á réttri leið, þið sem eruð auðmýkt í andanum, vegna þess að þið eigið himnaríki! Þannig ávarpaði Jesús mannfjöldann ef marka má þýðingu alsírska lögfræðingsins Messa í Grensáskirkju. Séra Yrsa Þórðardóttir André Chouraqui sem tókst á hendur að þýða fyrst gamla testamentið og svo viðaukann, sem við köllum nýja testamentið og án þess væri engin biblía, finnst okkur. Chouraqui segist þarna vera nær arameískunni og að Jesús hafi þarna verið að lýsa fólki sem er teinrétt á markvissri göngu. Því segir hann að Jesús hafi horft í kringum sig og hrósað fólkinu eða viðurkennt að það væri aldeilis vel innréttað og hafi skilið hvað var á seyði. Mikið eruð þið vel heppnuð! Þið megið aldeilis kalla ykkur sæl!
Strax þarna sjáum við að allt er öfugsnúið og þessvegna vildi ég að yfirskrift þessarar messu væri allt á hvolfi í guðsríkinu. Jesús talaði sem kunnugt er um guðfræði við konur og vildi að börn fengju að tala við sig, sem var ekki siður á hans tíma, þetta vitum við vel. En þá fyrst keyrir um þverbak þegar hann talar svo við þetta fátæka og smáða fólk í herteknu landi, eins og það sé á óslitinni sigurgöngu um lífið og hafi fangað sannleikann. En þannig er það með fólk sem hefur kynnst Guði og lætur sig trúna varða, það hefur fengið anda sem er mjúkur og snortinn og lífið fær við það ljóma sem enginn getur tekið í burtu, hvorki rómverski herinn né fátækt og erfið kjör.

Þetta fólk átti eitthvað fyrst það vildi fylgja Jesú og heyra meira um lífið og upprisuna, trú og Guð. Þetta fólk bjó í hersetnu landi þar sem ríkti vopnaður friður, sem átti að tryggja rómverskum ríkisborgurum algert næði og öryggi alls staðar. Það getur vel verið að fjöldafundir innfæddra hafi verið litnir hornauga, rómverska setuliðið hefur ábyggilega fylgst nokkuð vel með vinsældum Jesú, því að tryggja þurfti hollustu við keisarann út af skattheimtu, lögum og reglu og friði. Því var þetta fólk hugsanlega í hættu auk þess sem það missti úr vinnu, fólkið var sérlega fátækt á þessum tíma og þurfti að nota hverja vökustund til að strita.

Mikið hlýtur fólkið að hafa langað mikið að hitta Jesúm og heyra í honum fyrst það yfirgaf vinnu sína og fylgdi honum. Ég er prestur í Digraneskirkju og þar er kær kollega minn, Magnús Björn Björnsson prestur sem lánaði mér bíómynd um Lúther og við horfðum á hana saman, systir mín og frænka. Í henni er sýnd þessi klassíska sena í byrjun þegar Lúther lenti í óveðrinu og lofaði heilagri Önnu að hann gengi í klaustur ef hann kæmist lífs af. Hann ætlaði í lögfræði en lenti svo út af þessu í guðfræði. Ekki fann hann þar sannan frið, því að hann var ekki sérlega fátækur í anda, allt of hugsandi, kvíðinn, fann ekki eirð í sínum beinum, því að þrátt fyrir giftusamlega björgun og tákn um handleiðslu Guðs og varðveislu heilagrar Önnu og gott ef ekki annarra dýrlinga, barðist hann við efann um að honum væri vís staður á himnum, hér eða eftir dauðan. Guðsríkið var honum ekki nærri. En þegar hann var orðinn doktor í guðfræði og prófessor og varð að fela sig í kastala svo að hann yrði ekki drepinn, því að páfi og keisari börðust um að bannfæra hann og úthýsa, sat hann glaður og öruggur við að þýða Biblíuna á þýsku, sem var gersamlega bannað, og fann ró við að leita auðskilinna orða til að lýsa vernd Guðs og ást. Hann orti sálma eins og Vor Guð er borg á bjargi traust, og hefur sjálfsagt séð fyrir sér þetta virki sem hann bjó í í skjóli furstans sem skaut yfir hann skjólshúsi.

Allt var á hvolfi í guðsríkinu sem hann bjó í, Guð var hans hæli og styrkur en herrar þessa heims ofsóttu hann. Í myndinni er hann sýndur útskýra fyrir börnum söguna um týnda soninn, sem sumum finnst ætti að heita sagan um ástríka pabbann. Því að það var pabbinn sem var týndur ef hann fékk ekki að eiga hamingjusama syni. Tvisvar í sögunni hleypur pabbinn, fyrst til að hitta hinn meinta týnda son. Lúther spyr börnin: af hverju hljóp hann? hann var hræddur um að soninn langaði aftur í burtu, aftur til svínanna sem hann gætti, pabbinn vildi svo mikið fá hann til sin því að hann elskaði hann svo mikið“. Lúther var þarna að lýsa ást pabbans en ekki hversu góður hann væri að fyrirgefa, hann hefði gert hvað sem er til að fá soninn til sín glaðan. Pabbinn þarf svo að hlaupa til hins sonarins og nostra við að hafa hann glaðan líka. Sá sonur er spældur að finnast sér mismunað, engum kálfi slátrað eða neitt handa sér. Þessa sögu þekkjum við vel. En þekkjum við eins vel okkar afstöðu? Væntum við þess að Jesús hlaupi til móts við okkur að reyna allt sem hann getur til að við finnum okkur heima í guðsríkinu? Hvar er þetta guðsríki? Það er ekki staður, það er ástand, því að þegar tvö eða þrjú eru samankomin í Guðs nafni, eins og hér í kvöld, þá er guðsríkið. Það er augnablik.

Stundum er þetta eitt einasta augnablik, stundum er þetta viðvarandi. Ætlun Guðs er án efa að það sé viðvarandi, að við kappkostum eins og Lúther að finna líkingar sem segja okkur í núinu hversu mikið Guð elskar okkur. Að við finnum orð til að umorða biblíuna svo að hún láti allt standa á haus og okkur standa á öndinni af hrifningu yfir að sjá loksins hvað það er spennandi að þekkja Guð.
Sálmar sem við syngjum koma oft orðum að þessu, t.d. eins og lagið úr Töfraflautu Mozarts sem við syngjum á jólum, þar syngjum við: Sá Guð, er hæst á himni situr,
 er hér á jörð oss nær.
 Sá Guð, er ræður himni háum,
 hann hvílir nú í dýrastalli lágum,
 sá Guð, er öll á himins hnoss,
 varð hold á jörð og býr með oss. Þar eru þverstæður, um Guð sem er á himni en þó hér, sem ræður öllu en kaus þó að vera smábarn í jötu og Guð sem á allt en varð samt einn af okkur. Eins getum við hugsað okkur hversu undarlegt er að skapari heimsins og frelsari er mitt á meðal okkar og við biðjum til hennar, tölum við hana og eigum hana að vinkonu. Skrýtið. En fyrst svo er, fyrst Guð er með okkur í för og við með Guði, getum við leyft okkur að vera fátækar í anda, auðmjúkar í andanum, kannski svolítið á báðum áttum jafnvel.

Ég er nefnilega ekkert viss um að hvatningar- og aðdáunaróp Jesú til fólksins í fjallræðunni hafi þýtt að hann teldi það svo teinrétt á leiðinni í hina einu réttu átt, það var frekar að það þoldi að vera ekki alltaf visst í sinni sök heldur leitandi. Systur sækjum á, systur sækjum á, það kann að vera bratt og það kann að vera grýtt en systir sækjum á. Þetta heróp okkar á enn við. Hefðin okkar og arfleifð siðbótar sýna okkur að málstaður okkar er stundum skrumskældur og stundum ber okkur meira að segja af leið. Skrif Lúthers voru tekin og notuð gegn lýðnum í bændauppreisninni og tugir þúsunda voru drepnir. Hann var sannarlega ekki hlynntur þessari uppreisn heldur gersamlega á móti viðleitni bændanna, og það sem hann skrifaði um Tyrki og múslima var ekki fallegt.
En annað, sem hann skrifaði um frelsi andans, um leitina að sannleikanum í Biblíunni, um ást Guðs og náðina sem umleikur okkur, það hefur breytt kristinni trú til hins betra, svo að frelsið og náðin og endurlausnin koma miklu oftar við sögu en undirgefni, drottnun kirkjunnar og hlýðni við páfa. Við þurfum ekki lengur að kaupa okkur aflátsbréf til að stytta veru ástvina okkar í hreinsunareldinum.

En látum þá ekki aftur leggja á okkur ok. Eitt okið er ok siðmenningar, menntunar og málfars. Við leggjum á okkur nám og lestur til að verða menntuð, en getum í sumum tilfellum misst auðmýkt andans. Jesús sagði að aðeins börn kæmust í guðsríkið, og mig langar að tala aðeins um hvað ég held hann hafi átt við. Börn velta öllu fyrir sér og hugsa mikið, en þeim finnst ekkert flókið að útskýra hvernig Guð getur bæði verið einn og þríeinn, Guð og svo líka Jesús og heilög önd, það bara er svoleiðis. Þannig myndu þau elta uppi Jesúm ef þau langaði, bara af því að þau langar en ekki af því að það borgar sig að vera í sigurliðinu eða það er smart. Mér komu í huga orðin úr Lúkasarguðspjalli 12:34 Því hvar sem fjársjóður yðar er, þar mun og hjarta yðar vera. Ef við lesum þennan tólfta kafla þar er hann svipaður fjallræðunni. Verið ekki að hafa áhyggjur af fötunum ykkar eða matnum, afkomu eða slíku, Guð sér hröfnum fyrir fæðu og skreytir liljurnar svo vel að drottningar eru ekki eins flottar, haldið þið þá ekki að Guð sjái fyrir ykkur? Leitið fyrst að ríki Guðs og réttlæti, þá fáið þið fæði og klæði í kaupbæti því að þar sem fjársjóður ykkar er, þar er hjarta ykkar.

Með öðrum orðum, það sést glöggt hvar hugur ykkar og hjarta eru, hvað er ykkur langdýrmætast, ef við bara skoðum hvar þið eruð á ferð. Erum við, systur, að sækja á brattann þótt oft sé örðug leið?
Eða erum við í rólegheitum einhversstaðar þar sem er nóg að bíta og brenna en við hjálpum ekkert til að finna réttu orðin í biblíuna eða að hjálpa til í bændauppreisn vorra daga? Brennum við í andanum í baráttunni fyrir réttlæti, eða framgangi þeirra málefna sem eru okkur kærust eða treystum við okkur ekki til þess eða nennum því ekki? Er kannski ekkert sem brennur á okkur? Leiðist okkur? Allt þetta skiptir höfuðmáli og Guði er alls ekki sama. Segjum að Jesús sæi til okkar og segði: Áfram gakk, þetta líst mér á, þarna fer kona sem hefur erindi og stefnu, andans kona sem er sæl í sinni baráttu. En ef ekki, gæti sá hinn sami Jesús sagt: hvað amar að þér? Varstu ekki einhvern tímann að tala um að sigra heiminn og gera svo margt? Er eitthvað hægt að hjálpa, heldurðu kannski að námskeið í Kvennakirkjunni gæti hjálpað?

Þú ert nú búin að hjálpa svo mörgum er ekki komið að þér að einhver stumri yfir þér smá stund? Manstu eftir sögunni um mömmuna sem elskaði stelpurnar sínar svo mikið að hún hljóp á eftir þeim til að sjá þær glaðar og elskaði báðar jafnt, þá sem sat heima í móðurhúsum og hina sem fór út í heim að skoða sig um. Heldurðu ekki að Guð elski þig að minnsta kosti eins mikið? Koma so, þú ert ekki misheppnuð, þú ert bara búin að gefast upp, komdu þér frekar í var til að ná áttum, og svo muntu finna þína leið. Við skulum kanna hug okkar hér í kvöld og vita hvar fjársjóður okkar er og hvar hjarta okkar er. Leyfum öllu að vera á rú og stú og snúa á hvolfi, það er langbest í leitinni að sannleikanum.

Sannleikurinn er alltaf á hreyfingu og það er drasl í kringum sannleikann. Munið þið bara þegar við vorum börn að gera eitthvað skemmtilegt, þá var best að hafa klístur á milli puttanna og allt í drasli, sokkabuxur um hausinn til að þykjast vera með sítt hár og alls konar skemmtilegheit. Við höfum nú þegar erft guðsríkið, við höfum séð Guð og við erfum landið. Þessi biblíuþýðandi, André Chouraqui, þýddi þá auðvitað faðirvorið, því að það stendur í biblíunni á eftir fjallræðunni og svona byrjar það í þýðingu hans, sem hann staðhæfir að sé rétt, ég meina hann bjó þarna í Alsír, segir hann og andaði að sér þessu andrúmslofti og talar hebresku: Himnafaðir okkar, nafn þitt helgast, konungsríki þitt kemur, vilji þinn verður jafnt á himni sem jörðu. Við erum með öðrum orðum ekki að biðja og biðja til að hjálpa til við að framkalla ríkið heldur biðjum við því að Jesús kenndi okkur þessi orð og við höfum erft guðsríkið sem kemur vissulega, sem er nú þegar komið.

Við þurfum ekki að borga erfðaskatt en við höfum ekki stoppað síðan við hittum Guð að meðhöndla þessa arfleifð. Það er ekkert smotterí að hafa eft landið því að við vitum ekki hvernig á að fara með Icesave, lögin féllu úr gildi, við vitum ekki hvað tekur við en við vitum eitt: Jesús setti “like” á líf okkar og við erum ekki einar á ferð, við erum saman, Guð er með okkur og við erum maríneraðar í andanum. Þetta getur ekki nema farið vel. Og áfram svo! Við erum á leiðinni heim.