audurilitminnstÁ sprengidaginn fór ég í strætó og tvær framhaldsskólastelpur sátufyrir aftan mig. Ég vona að amma hafi eitthvað fyrir okkur sem borðum ekki baunir, sagði önnur. Hún hefur það alltaf, lambalæri eða eitthvað.

Mér þykir alltaf yndislegt að heyra að fólk á athvarf hvert hjá öðru og margar sögur hef ég heyrt frá ykkur af þeim samverum sem þið haldið.

Það er eitt það allra besta í lífinu að eiga gott fólk að. Svo fór ég að hugsa um ömmuna sem var búin að setja upp pott með saltkjöti og baunum og læri í ofninn, tilbúin til að taka á móti sínu
fólki úr skólum og vinnu.
Og ég fór að hugsa um fólk sem eldar handa mér og fólk sem borðar hjá mér. Og um ömmur yfirleitt og sá mér til gleði og fagnaðar að ég get alltaf verið að koma heim og borða hjá einni ömmu – þegar ég er ekki að borða hjá öðrum – nefnilega sjálfri mér.

Það er algjör lúxus að eiga sjálfar okkur að. Koma til sjálfra okkar og fá þessar líka fínu móttökur. Finnst þér það ekki?

Njótum nú þess sem við gefum sjálfum okkur. Og þökkum fyrir að vera alltaf og ævinlega boðnar í mat til Guðs vinkonu okkar sem einu sinni eldaði kjúklinga og vöfflur handa fólkinu sínu sem
hresstist og blessaðist á göngunni um eyðimörkina.

Blíðar kveðjur, Auður