Messa tileinkuð fermingarbörnum Kvennakirkjunnar 15. mars 2009

Gott kvöld. Ég heiti Auður og ætla aðeins að tala um það hvaða merkingu ferming mín hafði, hvernig trú mín hefur breyst og hvernig hún nýtist mér í dag. Þegar ég fermdist fannst mér trúin mjög mikilvæg og ég fermdist af mikillri einlægni. Ég hef alltaf verið mjög þrjósk og föst í að vilja ekki trúa hlutum nema að ég skilji þá fullkomnlega. Ég bjó þá úti í Montréal og var í fjarnámi í fermingarfræðslunni hjá ömmu. Hún sendi mér tölvupósta um biblíusögurnar og talaði mikið um sjálfstraust. Mér fannst það hafa ósköp lítið með trúna að gera þá en ég fór samviskusamlega eftir því sem hún sagði og bað hana um fleiri verkefni.

Ég fékk svolitla uppljómun fyrir fermingu og fattaði loksins í alvöru af hverju jesús dó á krossinum. Ég vissi að hann dó til að fyrirgefa syndir okkar en skildi ekki raunverulega hvað það þýddi. Svo einn daginn fann ég raunverulegar tilfinningar jesús og fattaði í eitt skipti fyrir öll raunverulega hvers vegna þetta kom allt saman til. Ég gæti örugglega ekki útskýrt það en ég fann tilfinninguna innra með mér og skil hana enn innst inni. Þessi upplifun styrkti trú mína því mér fannst ótrúlegt að einhver gæti skáldað svona sanna tilfinningu.

Eftir fermingu fór ég að fara reglulega í æðislega presbytera kirkju sem hafði vit fyrir því að hafa sunnudagaskóla fyrir unglinga. Í þessum tímum gátum við unglingarnir spjallað saman um trúna og lesið saman í biblíunni. Þessir tímar hvöttu mig svo áfram trúarlega að ég var fljótlega komin í reglulegt e-mail samband við prestinn þar sem við ræddum kenningar mínar og hann gaf mér ítarleg svör við allar spurningar mínar. Eftir níunda bekk, flutti ég til Íslands og með tímanum breyttist […]