Prédikun í Jólaguðþjónustu Kvennakirkjunnar 25. desember 2017 í Háteigskirkju. Sr. Arndís Linn prédikaði
Biðjum saman:
Ljúfi Jesús lýstu mér
svo lífsins veg ég finni
láttu ætíð ljósið frá þér
ljóma í sálum minni.
Amen
Ljós aðventunnar hafa smátt og smátt sprottið fram, úr endalausu myrkri síðustu vikurnar. Eitt og eitt hafa þau kviknað, marglitu og glitrandi rafmagnsljósin sem ryðja burt þéttasta skammdeginu. Smátt og smátt höfum við líka kveikt kertin á aðventukrönsunum okkar, sem á mörgum heimilum skipa stóran sess í undirbúningi og aðdraganda jólanna. Eftir því sem ljósunum fjölgar virðist vetrarmyrkrið hörfa og tilveran, verður örlítið bjartari.
En jólaljósin eru ekki einungis vanmáttug tilraun til að lýsa upp svartasta skammdegið. Þau eru tákn um hátíð ljóss og friðar.
Þau vísa til einhvers sem er meira og máttugra en allt það sem við fáum skilið í þessum heimi. Þau vísa til þess sem við heyrðum hér í Jóhannesarguðspjalli áðan, :
Hið sanna ljós, sem upplýsir hvern mann, kom nú í heiminn. Hann var í heiminum og heimurinn var orðinn til fyrir hann en heimurinn þekkti hann ekki.
Hið sanna ljós sem guðspjallið talar um er Jesú, jólabarnið frá Betlehem, sem síðar í sama guðspjalli sagði um sjálfan sig ,,Ég er ljós heimsins“
Fyrir nokkrum árum starfaði ég í barnastarfi hér í Lágafellskirkju og við kenndum yngstu börnunum að segja þessa tilvitnun úr Biblíunni með höndunum. ,, Jesús sagði , Ég er ljós heimsins“ Stundum bættum við við og og kenndi nú börnunum að halda áfram og segja ,,Og við getum verið ljós fyrir Jesú“
Og börnin voru áhugasöm: ,,Hvernig ljós“ spurðu þau í einlægni? Hvernig get ég lýst fyrir jólabarnið? Þau réttu upp höndina eitt af öðru og vildu öll leggja sitt af mörkum til að lýsa fyrir litla barnið í jötunni.
Já hvað táknar þetta ljós sem er […]