Upplýsingar

Sífellt samstarf okkar og Guðs.

Prédikun í Neskirkju 16. febrúar 2014.

Arndís G. Bernhardsdóttir Linn

Guð gaf mér fótfestu á bjargi. Guð er bjarg mitt og björgun.  Hún gefur mér öryggi í göngulagi.
Guð er bjarg hjarta míns.   Þetta stendur allt í Davíðssálmum.  Og þegar Jesús kom sagði hann að hann væri sjálfur þetta bjarg.
Hann sagði:   Þau sem heyra orð mín og fara eftir þeim byggja líf sitt á bjargi.  Þótt steypiregn og stormar æði þá brestur líf þeirra ekki því það er grundvallað í mér.  Guð blessar okkur.  Amen

Hún á afmæli í dag – hún á afmæli í dag – hún á afmæli Kvennakirkjan – hún á afmæli í dag !
Gott að sjá ykkur hér í dag og Innilega til hamingju með afmælið.
Já hún er tuttugu og eins árs Kvennakirkjan. Hefur lifað tímana tvenna. Hún er eldri en internetið og  álíka gömul og gsm símar. En ólíkt þeim tækninýjungum sem hellast yfir heiminn byggir hún á gömlum, stöðugum grunni sem haggast ekki –– Guð er í dag sú sama og hún var í upphafi og sú sama og hún mun verða um alla framtíð. Traust og áreiðanleg. Guð er bjarg sem byggja má á eins og segir í barnasálminum.
Á þessu trausta bjargi, Guði sjálfri hefur Kvennakirkjan byggt. Strax í upphafi var stefnan skýr:  Í riti Kvennréttinda félags Íslands frá árinu 1993 segir Auður Eir í viðtali hjá Elísabetu ; ,,Kvennakirkjan á að vera vettvangur kvenna til að  móta eigin guðfræði, finna hana og lifa hana hversdags og spari.“ Auður segir jafnframt „Kvennaguðfræðin leggur fram hugmyndir sínar og spyr konur um líf þeirra, hugmyndir, lífssýn, vonir og vonbrigði. …… Allt er þetta sífellt samstarf okkar og Guðs.“ tilvitnun lýkur.
Í samstarfi við Guð hefur Kvennakirkjan síðastliðið 21 ári lagt boðskap kristinnar trúar fram á ferskan, einlægan og aðgengilegan hátt sem talar til reynslu kvenna.  Hún hefur boðað trú á Guð sem er mild og máttug og fær um að fylgja hverjum sem á hana trúir. Og Guð hefur ekki verið fjarlægur veruleiki sem heilsar frá hæstu hæðum heldur hefur hún verið til taks í blíðu og stríðu, gengið með okkur Laugaveginn eins og frægt er orðið, verið nálæg vinkona sem lætur sér annt um og annast þau sem hún elskar.
Og á þessum árum hafa gefist ótakmörkuð tækifæri til að skapa með Guði. Guð hefur gefið kjarkinn, gleðina, máttinn og mildina og Kvennakirkjukonur hafa í gegnum tíðina sáð ríkulega og uppskorðið eins og best verður á kosið. Gefið út bækur, fréttabréf og bæklinga.  Farið í ferðalög og síðdegisboð. Haldið guðsþjónustur, útimessur, námskeið, málþing, örþing, og svo margt margt fleira sem lesa má um í sögu Kvennakirkjunnar sem Elísabet tók saman á 20 ára afmælinu og finna má á heimasíðunni okkar.
Og þegar ég segi Kvennakirkjan – þá er ég að sjálfsögðu að tala um ÞIG – það er þú sem ert Kvennakirkjan. Það ert þú sem mótar guðfræðina, lifir hana og notar bæði hversdags og spari. Þú sem svarar spurningunum um þitt líf, þínar hugmyndir, vonir og vonbrigði. Það er Þú sem gengur með Guði og upplifir vináttuna.
Hvað er þér efst í huga á afmælinu þínu og Guðs? Hverju breytir vinátta Guðs í þínu lífi? hvar hjálpar hún? Hvernig gleður hún? Hvaða gildi hefur það fyrir þig að grundvalla líf þitt á bjarginu sem er Guð sjálf?
Eitt af því sem frá upphafi heillaði mig í Kvennaguðfræðinni var sú hugmynd að það sé köllun okkar að verða sá einstaklingur sem Guð ætlar okkur að vera.  Á svipstundu breyttist fókusinn. Í stað þess að nota alla mín krafta í að streitast á móti öllu því sem mér fannst ég ætti ekki að vera kviknaði hugmynd um að horfa til þess Guð ætlaði mér að vera, til þess sem ég gæti orðið. Það opnaði flóðgáttir möguleika. Færði lífskraftinn frá niðurrifi til uppbyggingar.  Mér fannst ég skynja kraft Guðs að verki í heiminum á nýjan og áhrifaríkan hátt. Ég skynjaði kraftaverk Guðs.

Nýlega las ég skáldsögu eftir konu sem heitir Cecilia Samartin og í henni fann ég einmitt lýsingu á kraftaverkum sem rýma við minn veruleika. Ein af aðalpersónum bókarinnar segir eitthvað á þá leið að „Kraftaverk séu óútskýranleg og dásamleg atvik sem fara langt fram úr æðstu draumum þínum, ögra sýn þinni á lífið og hlutverki þínu í því“

Frá mínum bæjardyrum séð er það einmitt það sem vinátta Guðs gerir í mínu lífi.  Guð læðir inní líf mitt atburðum, upplifunum og fólki sem mig  hefði ekki órað fyrir, bæði agnarsmáum og risastórum hlutum sem breyta lífinu. Og hún ögrar lífi mínu á þversagnakenndan en jafnframt yndislegan hátt. Trúin á Guð sem gengur með mér og fylgir mér í amstri dagana hjálpar mér að yfirstíga hindranir og erfiðleika og gefur mér tækifæri til að vaxa og dafna, verða það sem Guð ætlaði mér að vera. Og ég finn að Guð er traust og áreiðanleg og líka afskaplega alúðleg.

21. Aldursár Kvennakirkjunnar er jafnframt fyrsta árið mitt hér í Kvennakirkjunni.  Það hefur verið skemmtilegt, lærdómsrík og gefandi. Eftirminnileg útimessa í Laugardalnum þar sem Guð mætti með blíðskapar veður og við hinar með bros og gleði í hjartanu. Við höfum m.a. lesið saman Biblíuna, þeyst saman um Þingholtin, skoðað hvernig trúin var órjúfanlegur þáttur kvennfrelsisins og lært að vera leiðtogar í eigin lífi. Umfram allt höfum við iðkað guðfræði og æft okkur í að treysta Guði. Miðlað hver annarri af reynslu okkar af því að heyra orð Jesú og finna hvernig þau styðja okkur og styrkja í stormviðrum lífsins.
Í tengslum við vígslu mína til Kvennakirkjunnar síðastliðið sumar gerði ég mér grein fyrir hvað samstarf Kvennakirkjunnar við Guð hefur borið ríkulegan ávöxt og haft áhrif víða. Um það vitnaði biskup Íslands, Agnes á heimasíðu sinni í tenglsum við vígsluna þar sem hún sagði m.a.
Í fyrsta sinn hefur prestur verið vígður til að sinna sérstaklega þjónustu við konur í kirkjunni. ……….. Kvennakirkjan hefur rannsakað og iðkað kvennaguðfræði, en kvennaguðfræði er guðfræði sem konur skrifa um vináttu Guðs í lífi þeirra.  Kvennaguðfræðin hefur eflt kirkjuna og íslenskt samfélag og mun halda áfram að gera það í framtíðinni. Kvennaguðfræðin og jafnrétti kynjanna eru málefni framtíðar en ekki bara fortíðar. Þó margt hafi áunnist í jafnréttismálum og varðandi rétt og möguleika kvenna er jafnrétti ekki náð. Stöðugt þarf að vinna áfram á þessum vettvangi og með vígslu prests Kvennakirkjunnar er lögð áhersla á mikilvægi þessa málaflokks fyrir kirkju framtíðarinnar á Íslandi.“ (www.biskup.is)

Já Kvennauguðfærðin hefur elft kirkjuna og íslenskt samfélag –  hvorki meira né minna. Og hennar er þörf í framtíðinni.

Guð býður okkur til áframhaldandi samstarfs og samfélags sem eflir, styrkir og nærir. Guð þráir að verða grundvöllurinn í lífi sérhverrar manneskju því hún ein getur gefið okkur fótfestu og öryggi, verið bjarg okkar og björgun eins og sagði í guðspjallatextanum áðan.
Og það er gott að vita sig standa á stöðugum grunni sem haggast ekki –– Því Guð er í dag sú sama og hún var í upphafi og sú sama og hún mun verða um alla framtíð. Traust og áreiðanleg. Amen.