Upplýsingar

Innilega til hamingju með afmælið okkar á fimmtudaginn, 14. febrúar.  Við erum nú búnar að vera saman í 26 ár og það hefur verið yndislegt og heldur því áfram.  Í kvöld eins og í öllum messum tölum við um Guð og okkur.
Ég ætla að segja þér tvær smásögur til af reifa málið.  Fyrri er svona:  Ég fór á bensínstöð.  Maðurinn kom og dældi fyrir mig og við spjölluðum saman og ég spjallaði líka við konuna sem tók á móti borguninni.  Sögulok. Hin sagan er svona:  Svo fór ég í bankann og konan þar gerði upp reikningana fyrir mig og svo spjölluðum við örlítð. Sagan búin.
 Ég hugsaði með mér að þessar manneskjur væru andlit þessara miklu fyrirtækja.  Það eru þær sem við hittum og eru miklu mikilvægari fyrir okkur en fólkð sem situr á skrifstofunum og stjórnar öllu og við höfum aldrei séð.  Samt þarf að stjórna þessu öllu því það þarf alltaf bæði manneskjur sem hafa yfirlit og framkvæmdir fyrir allar deildir og þær sem sjá um verkin á sínum stöðum
Þessar smásögur leiða til þess að tala um Guð og okkur.  Guð gerir nefnilega hvort tveggja, að vera á staðnum og sjá svo um allt.  Hún á heiminn og er þar alltaf í eigin persónu. Bara alltaf til viðtals og hjálpar.  Það er dásamlegt og við skulum hugsa meira um það.
Finnst þér það ekki stórkostlegt að eiga alltaf aðgang að henni sem stjórnar þessu stóra fyrirtæki þar sem milljónir vinna.  Og hafa það starf að hafa áhrif á aðrar milljónir.  Og að hún skuli vera í afgreiðslunni.  Og að hún skuli vera vinkona þín?
Við skulum tala um það í kvöld hver hún er.  Hver er Guð?  Og hverjar erum við sem erum vinkonur hennar?
Þótt hún hafi engum sagt hvers vegna hún skapaði veröldina sem hún mátti vita að yrði allt öðru vísi en hún skapaði hana til að vera, og þótt hún hafi ekki sagt nokkurri manneskju hvernig spillingin kom í heiminn, þá hefur hún sagt hver hún er.
Ég er sú sem ég er, sagði hún.  Það getur þýtt að hún þarf ekki að segja meira en að hún er Guð af því að það eru ekki aðrir guðir til.  Hún ein er Guð.
Hún sagði  það oft:  Ég er Guð, ég ein.  Og þess vegna skaltu elska mig og þú skalt elska mig af öllu hjarta þínu, sálu og mætti.  Og þú skalt elska þig og þú skalt elska annað fólk.
Og svo sagði hún:  Þú skalt ekki meta nokkra manneskju meira eða minna en aðrar manneskjur.  Þú skalt hlusta á allar manneskjur. hvort sem þær eru mikils eða lítils metnar.  Þú skalt ekki vera hrædd vð nokkra manneskju.  Því það er ég sem dæmi.  Þú skalt berjast fyrir réttlætinum, eins og ég og með mér.  Þú þarft aldrei að gera þetta ein.  Þú ert aldrei ein.  Ég er alltaf hjá þér.
Þetta stendur í Mósebókunum.  Alveg það sama og í guðspjöllunum.  Ég er Guð, sagði Jesús.  Þess vegna gæti ég þín og leiði þig um alla vegu þína.  Ég er með þér og ég dey og rís upp til að frelsa þig og ég gef þér mátt til að vinna með mér.   Og ég kem aftur og geri allt nýtt.
Við vitum vel að fólk átti aðra guði og fólk á aðra guði núna.  Í Gamla testamentinu er sagt frá fólki Guðs sem trúði á aðra guði ef því þótti það hagkvæmt.  Þetta voru hentugir guðir.  Fólk Guðs trúði um tíma á Bal af því að það var sagt að hann gæfi rigningu þegar þyrfti.  Það var hentugt að nota sér þetta.  Við munum eftir sögunni um það hvernig Guð sannaði að Bal var ekki til en hún var til.  Hún sannaði það með því að kveikja bál á altarinu sem var helgað henni.
Það er sagt að öll trú sé trú á sama guð.   En það er aldrei sagt í Biblíunni.  Aldrei nokkurn tíma.
Hvað eigum við þá að segja þegar nú er farið að flytja til okkar fólk sem hefur önnur trúarbrögð og vill búa hjá okkur og vinna með okkur?  Það á sína trú og lætur sér ekki detta í hug að það sé okkar kristna trú.  Hvað eigum við að segja?
Við eigum að gá í Biblíuna.  Þar stendur að margar þjóðir muni koma til Guðs upp á fjallið  þar sem hún situr.  Þær koma til hennar.  En það stendur aldrei að hún sé önnur en hún sem hún er.
Það stendur aldrei að hún sé Guð margra trúarbrgða.  Það stendur að hún sé hún og halfi skapað allar manneskjur og elski þær allar.
Það stendur víða í Gamla testamentinu að Guð tali við fólk sem vissi ekki hver hún er.  Það stendur líka í Nýja testamentinj.  Jesús tsagði það sem hópnum hans fannst svo fráleitt að þau móðguðust stórlega.  Hvað ertu að meina?  Þú lætur okkur breyta lífi okkar og fara frá fjölskyldum okkar og svo talarðu eins og ekkert sé við fólk sem hefur aldrei gert neitt fyrir þig.
Jesús sagði margt skrýtið.  Hann sagði að þau sem væru ekki með sér væru á móti sér.  En hann sagði líka að þau sem væru ekki á móti sér væru með sér.  Og hann sagði að sumt fólk sem segðist vera með sér væri það  ekki og gerði ekkert til að sýna réttlæti og kærleika.  En fólk sem þekkti sig ekkert sýndi bæði réttlæti og kærleika.
Hvað ertu eiginlega að meina með því að viðurkenna allt þetta fólk? sagði hópurinn.  Og Jesús sagði:  Verið ekkert að hugsa um það. Ég elska ykkur og hef valið ykkur.  Ég treysti ykkur og gef ykkur allt sem ég á.  Ég sé um ykkur.
Ég held að við skulum fara eftir þessu þegar við hugsum um fólkið sem kemur til Íslands og hefur aðra trú.  Það hefur sína trú og hver sem hún er þá eru þau sköpun Guðs.  Það er fólk sem Jesús dó og reis upp fyrir alveg eins og hann dó og reis upp fyrir okkur.   Ég held að Guð segi:  Ég skal sjá um þetta.  Haldið þið áfram að vinna fyrir mig og með mér.  Þið eruð vinkonur mínar og ég treysti ykkur og þarfnast ykkar.  Það stendur óbeytt að ég ein er Guð.
Hverjar erum við sem erum vinkonur hennar?  Við erum með í hópnum sem er sagt frá í Gamla testamentin og hópnum sem Jesús valdi sér.  Við eigum svo gott eins og þau.  Við erum hjálp Guðs og við erum skjól hennar.   Samt gerum við vitleysur.  Alveg eins og fólk hennar í Gamla testamentinu og Nýja testamentinu. Þótt við séum langt frá því að gera alltaf það sem við eigum að gera og langt frá því að skilja alltaf það sem við eigum að gera, þá heldur hún áfram að vera vinkona okkar.  Treysta okkur til að vera skjól sitt og skjöldur.   Af því að hún er vinkona okkar.  Vinkonur standa alltaf saman.  Svona erum við og Guð.
Það hlýtur að hafa verið raunalegt fyrir Jesúm að bestu vinkonur hans og vinir skildu svo lítið í því sem hann var margbúinn að segja þeim.   Að Guð ein gefur skilninginn og kærleikann.  Hún gefur það litlum börnum og l fólki sem er fyrirlitið og fólki sem er mikils virt, öllum sem vilja taka við því gefur hún.  Líka þeim.  Líka okkur.
Þess vegna talar hún við okkur til að hjálpa okkur til að skilja.  Og trúa og vinna.  Það er sagt að Guð hafi bara talað við fólkið í Gamla testamentinu og þagnað svo og hafi ekki talað við fólk síðan.  Það er ekki satt.  Þú  veist það best.  Af því að hún talar við þig.  Hún talar við þig um það sem þú talar um við hana, þig sjálfa, fjölskylduna þína, vinnuna þína, skoðanir þínar, hvernig þú getir verið hjáp hennar og skjól.  Og þegar þú þarft að blanda þér í það sem er erfitt að skilja gefur hún þér hugsanir og kjark og auðmýkt.
Þú veist og  finnur að hún stappar í þig stálinu og hún kennir þér að lifa svo að þú kulnir ekki og stífnir ekki og frjósir ekki og bráðnir ekki og gefir allt frá þér.  Og þótt það komi yfir þig er hún samt hjá þér.   Og  læknar þig.  Alltaf.  Þú veist það.  Hún hefur læknað þig aftur og aftur.  Af því sem þjáði þig.  Hvað sem það var.  Hún gerði það og hún heldur því áfram.   Af því að hún er vinkona þín og þú ert vinkona hennar.  Af því að hún á allt og getur allt.  Af því að hún er það sem hún er og er þar sem þú ert.
Svona er Guð og svona erum við.  Eða hvað finnst þér?