Upplýsingar

Fagnaðarerindið
Ég skrifaði þessa ræðu í dag. En ef ég hefði vitað það í gær að veðrið yrði svona í dag hefði ég skrifað hana í gær. Af því að í gær var veður til að skrifa. Þú manst hvernig veðrið var, létt og ljósgrátt og hlýtt og faðmandi. En í dag er það dökkgrátt og mér finnst það ekki yndislegt. Ég heimsótti þrjár góðar manneskjur eftir hádegið en staldraði hvergi þótt mér væri boðið það, af því ég þurfti að fara heim og skrifa, og kaupa brauð í leiðinni. Ég fór í tvær búðir.
Það fékkst ekkert sem ég ætlaði að kaupa og aðgerðaleysið var breitt yfir allt þar inni. Svartir plastpokar voru meira að segja lagðir yfir það sem var í glerborðinu í annarri búðinni, og ekkert umleikis. Ég hefði geta tekið brauð síðan í gær eða fyrradag og haft með mér heim, en hver kærir sig um svoleiðis brauð? Ekki ég. Svo ég fór heim að skrifa. Það sem átti að vera svo lauflétt og yndislegt, en myndi verða þungt og litlaust.

Og það er ekki leyfilegt að skrifa þungt og litlaust um fagnaðarerindið. En stundum verður ekki við því gert. Eins og það sem á að verða svo gott verður stundum þyngslalegt. Eins og kökur sem falla. Og sósur sem brenna við. Og eins og liturinn á veðrinu í dag og líf mannsins sem ég ætla að segja þér ofurstutt frá.

Í morgun heyrði ég sögu um ungan mann sem fór í fæðingarorlof. Þetta er þriðja barnið hans og fyrsta sinnið sem hann fer í fæðingarorlof. Hann sagði frá því úti í bæ hvað honum þætti gott að vera í fæðingarorlofi, en svo uppgötvaðist það fyrir slysni að hann treystir sér ekki til að nota orlofið. Hann tók það bara en notar það ekki. Hann fer í vinnuna á hverjum degi eftir hádegið og er þar til fimm. Hann þarf ekki að segja neinum frá því af því að hann vinnur sem mest einn og gat flutt verkin í annað hús þar sem annað fólk vinnur þau. Og af því að konan hans er líka heima. Svo hann getur setið sjálfur í vinnunni sinni eftir hádegi og gert ekkert. Nema bara losnað við að vera heima allan heila daginn.

Þegar ég heyrði þetta í morgun fannst mér þetta svo fyndið. Samt hugsaði ég með mér um leið að þetta væri ekkert fyndið, heldur segði það söguna um kjarkinn sem þarf til að vera heima hjá sér allan daginn og passa börnin sín. Og þvo og elda og fara í leigubíl upp á slysavarðstofu með börnin sem meiða sig, sem klemma sig og höggva sundur á sér skinnið, og það þarf að hætta við að fara á fundi eða í bíó, og finnast það of mikil fyrirhöfn að klæða þau börnin sem eru ekki í vagni, og fara út að ganga.

Og þegar leið á þetta blýlitaða síðdegi í dag skildi ég þennan mann betur og betur. Og ég hugsa að þú gerir það líka. Ég hugsa kannski, en ég veit það samt ekki, af því að ég þekki hann ekki og veit ekki hvað hann heitir og hef aldrei séð hann og, að honum hafi fundist veröldin í fæðingarorlofinu einhvern veginn svona dauf og dýrðarlítil eins og mér fannst hún í dag. Að honum hafi kannski fundist það þegar hann átti að vera heima hjá sér allan daginn. Og passa smábarn. Og tvö önnur börn. Og geta ekkert farið út.

Ég hugsa að þið hafið margar lesið grein í einhverju helgarmoggablaðinu fyrir nokkrum vikum um það hvað fólki er farið að finnast það erfitt að koma heim til sín eftir vinnu. Það hangir og hangir í vinnunni til að þurfa ekki að fara heim. Af því að það er selskapslegt í vinnunni og reglusemin og róin miklu meiri en heima. Heima hjá fólki sem á lítil börn er eintómt vesen klukkan fimm, og ekkert búið að laga til, og erfitt að finna pláss á elshúsborðinu til að strá salti á fiskinn áður en hann er vafinn í hveiti og steiktur. Og kannski finnst sumum fiskurinn óspennandi og hefðu heldur viljað pylsur eða pitsur eða spakhettí.

Ég veit þú veist hvernig þetta er. Þú þekkir þetta allt. Og þú veist eins vel og ég að þetta er allt um fagnaðarerndið.

Fagnaðarerindið er það að við skulum geta farið í vinnuna og farið heim, lagað til, steikt fiskinn, ráðið fram úr vandanum, sofnað og vaknað aftur til alls hins sama. Fagnaðarerindið er að við getum það og gerum það og vitum að þótt það sé stundum þyngslalegt eins og veðrið í dag er það miklu oftar glaðlegt. Eins og veðrið í gær.

Þegar leið fram á síðdegið og klukkan var orðin fimm fór mig að langa svo til að tala við ykkur um þetta allt. Þetta lífsmunstur sem konur hafa alltaf búið við, og búa við. Og ég ætla að segja það strax að ég er ekkert að segja að bara konur kunni að búa við lífsstíl sem heimtar það af þeim að vera heima og laga til og passa börn og aldrað fólk. Ég held að menn geti það líka, og ég hugsa að kannski muni maðurinn sem ég heyrði um í morgun geta lært það núna í vikunni.

Mig langaði svo að segja það við okkur að VIÐ höfum kunnað þennan lífsstíl. Og að það er fagnaðarerindi. Það er fagnaðarerindi þitt að þú getur lifað því lífi sem þú þarft að lifa.

Og það er kannski alls ekki það að passa börn. Þú átt kannski börn sem eru orðin svo roskin að þau passa sig sjálf. Eða þú átt kannski engin börn og þarft ekki nema rétt sjaldan að passa börn sem annað fólk á. Kannski er fólk alltaf að ragast í þér og spyrja hvort þú ætlir ekki að eignast börn. Eða segja við þig að þú hafir nú nógan tíma til að gera eitt og annað af því að þú eigir engin börn. Og kannski finnst þér þreytandi og kannski einmanalegt þegar þú ert með öðrum konum sem eru alltaf að tala um sín börn, hvort sem þau eru lítil eða fullorðin. Þær kunna að guma endalaust af þessum börnum. Og segja endalausar frægðarsögur af þeim.

Það hefur verið ein af veigamestu og vandasömustu spurningum kvennahreyfingarinnar hvað eigi að segja um konur og börn. Á að gera ráð fyrir því að konur séu mæður? Eða á að gera ráð fyrir því að þótt konur séu mæður eigi þær ekki að láta það hafa áhrif á lífið utan heimilisins? Eiga þær að sjá sjálfar um það hvernig þær láta gæta þessarra barna og vera ekki að tala meira um það?

Ég held að fagnaðarerindið felist í því að geta svarað þessum spurningum. Ég held það ekki bara. Ég er handviss um það. Við verðum að svara þeim. Bara núna strax. Í kvöld.

Og ég skal segja þér hvað ég held að fagnaðarerindið segi um þær. Þú skalt bara hlusta vel. Af því að það sem ég segi er bráðmerkilegt. Það er þetta: Jesús sagði að fagnaðarerindið væri það að vera til og njóta fagnaðarerindisins og nota það sér og öðrum til blessunar. Hann sagði að það væri alls ekki rétt sem var sagt þá, og er enn sagt við konur, nefnilega, að fagnaðarerindi okkar sé það að vera mæður.

Þetta er svo merkilegt að við megum til með að hlusta vel á það og hugsa lengi um það. Því þetta leysir okkur undan því að þurfa nokkurn tíma að hugsa okkur að við séum verðmætar vegna þess að við erum hlekkur í framvindu mannkynsins. Eða að það sé af því að við getum passað aðrar manneskjur. Við erum verðmætar af því að við erum við sjálfar.

Og þetta fagnaðarerindi Jesú heldur svona áfram: Þess vegna geturðu látið þér vel lynda það afskaplega vel að vera móðir. Þú getur passað börnin þín sjálf allan heila daginn. Eða þú getur farið út að vinna og falið börnin þín í umsjá annarra á meðan. Og þess vegna geturðu látið þér það jafn vel lynda að vera ekki móðir og nota dagana til annars, eins og þú sjálf sérð að er best. Þú getur passað aðrar manneskjur, og þú getur passað sjálfa þig, og þú getur þegið það að aðrar manneskjur passa þig þegar þú þarft.

Þetta er fagnaðarerindið. Það er um það að vera til. Og um það að láta tilveruna ekki bara vera einhvern veginn og einhvern veginn, heldur stjórna henni eins mikið og við getum. Og að vita að við stjórnum ekki öllu. Við getum það ekki. Og við þurfum þess heldur ekki. En við skulum stjórna því sem við þurfum og getum og njóta þess.

Núna þurfum við að skrifa djúpa kvennaguðfræði saman. Við þurfum að skrifa kvennaguðfræði um fagnaðarerindið sem getur lifað af blýgráa daga þegar búðirnar breiða svarta plastpoka yfir glerborðin sín og ekkert er um að vera. Þegar áttatíu manneskjur í Reykjavík sækja um að fá að vinna á símanum í einu fyrirtæki. Þegar tvö hundruð manneskjum er sagt upp í einu. Þegar ungur maður getur ekki horfst í augu við að vera heima í fæðingarorlofinu sínu af því að það er svo óbærilega leiðinlegt að hann lætur konuna sína bara vera eins og hún sé ein í fæðingarorlofi. Þegar það er sagt hikstalaust að þunglyndi verði skaðvænlegasti sjúkdómur þessarar aldar.

Allt þetta er hluti af fagnaðarerindinu. Það er hvatnig til okkar, til að skrifa kvennaguðfræði um menninguna sem gerir þetta allt svona blýgrátt. Það er eitthvað að menningunni sem úthlutar vinnunni sinni svoleiðis að áttatíu manns þurfa að sækja um að fá sömu vinnuna og það er óbærilega leiðinlegt að vera heima.

Ég hugsa fyrir mitt leyti að svarið liggi í nýrri lífssýn og nýjum lífsstíl. Ég hugsa að hvort tveggja byggist á fagnaðarerindinu um vináttuna. Og um það að við skulum ekki bera lof á samkeppnina. Og ekki bera lof á það að vera á framabraut. Og það að við skulum ekki bera lof á mismununina sem lætur sumt fólk fá mörg hundruð þúsund í mánaðarlaun en sumt fólk fá minna en hundrað þúsund. Og ekki á hagræðinguna sem útilokar fólk. Ég bara meina það. Er það ekki alveg makalaus vitleysa hvernig við látum þetta vera?

Jesús sagði að sannleikurinn væri fagnaðarerindið. Og hann sagði að hann væri sannleikurinn. Það þýðir hvorki meira né minna en að hann ætli að skrifa með okkur þá guðfræði sem við þurfum að skrifa. Segjum nú að við skrifum þessa guðfræði bara fyrir okkur sjálfar. Að við skrifum hana ekki í blöðin og höldum ekki fyrirlestra um hana neins staðar, nema hérna hjá okkur sjálfum og hver fyrir aðra. Það er auðveldara fyrir okkur að gera þetta svona. Af því við þurfum að hugsa þessa guðfræði, og taka okkur tíma til að búa hana til, prófa hana og breyta henni. Og við erum ekki vanar að skrifa í blöðin. En ef við getum skrifað hana fyrir sjálfar okkur og lifað hana dag eftir dag, þá er það mikið fagnaðarerindi. Þótt það komi blýgráir dagar á milli. Við skulum skrifa þessa guðfræði saman, halda áfram að skirfa það. Eins og við höfum gert í næstum tíu ár. Og þú veist hvað það hefur gefið okkur mikla blessun. Það er guðfræðin um það hvernig við eigum að fara að því að lifa í fagnaðarerindinu svo að það verði ekki þunglyndið heldur hin góða líðan sem einkennir öldina sem er að byrja.

Og þegar klukkan var orðin sex og ég búin að drekka kaffið með soðinni freyðimjólkinni var farið að rökkva og veðrið orðið mjúkt á litinn. Það var tími til að kveikja á lömpunum og ljósið gerði allt notalegt og það var fallegt að sjá ljósin í gluggunum hjá Herði og Kristínu í næsta húsi. Og ég hlakkaði til að hitta ykkur og heyra sálmana sem við völdum, og vera með í allri messunni.

Ég hlakkaði mest til að heyra sálmana sem við eigum eftir að syngja núna. Það eru gamlir sálmar sem við þekkjum allar, sálmar úr alheimskirkjunni eins og Ég er hamingjubarn eftir hana Filippíu. Og bænasálmur um lausn frá kvíðanum eftir Lilju systur hennar. Og sálmurinn hans Sigurðar Kristófers um að Guð vakir yfir okkur, blíðlynd eins og besta móðir.

Stundum er sagt að það sé orðið gamaldags sem er sagt í gömlu sálmum. Að það sé gömul guðfræði að tala um krossinn og eilíft líf og betra að tala um lífið fyrir dauðann en lífið á himnum. En það er ekki svoleiðis. Við skulum bæði tala um jörðina og himininn og alltaf um krossinn. Því fagnaðarerindið er um krossinn og krossinn er um frelsið og frelsið er um kvenfrelsi og kvenfrelsi er um guðfræðina sem við erum að halda áfram að skrifa saman.

Guð sem er blíðlynd eins og besta móðir er líka blíðlynd eins og vinkona okkar, sterk og flott. Og það er eins og við segjum aftur og aftur. Hún þarfnast okkar. Hún þarfnast okkar til að varðveita heiminn sinn. Og hún hefur lofað því að hjálpa okkur til þess. Þess vegna skulum við láta fagnaðarerindið úr gömlum og nýjum sálmum umvefja okkur og kveikja ljós í hjarta okkar, svo að lífið verði mjúkt og litríkt, svo að við njótum þess og gerum það betra með guðfræði okkar og lífi. Guð blessi okkur. Amen