Upplýsingar

Náð Guðs er með okkur. Það er yndislegt að fá að hittast hérna í kvöld. Koma inn úr kuldanum inn í hlýja Dómkirkjuna og njóta jólaljósana í rökkrinu. Njóta nærveru hvert annars í nærveru Guðs, heyra jólaguðspjallið og tónlistina. Gleðileg jól. Ég ætla að segja ykkur þrjár jólasögur í kvöld.
Fyrsta jólasagan er svona: Fjóla og Finna voru litlar stelpur sem bjuggu hérna í grenndinni, uppi í Þingholtunum og gengu í Miðbæjarskólann. Þær voru alltaf saman, fóru í kellingaparís og kallaparís og stikk og sto og alla leikina sem krakkarnir fóru í. Svo leið tíminn og Finna fór til Ameríku en Fjóla bjó hér heima. Fjóla lenti í miklum erfiðleikum. Og Finna tók sér flugfar heim og kom til Fjólu til að bjóða henni alla þá hjálp og nærveru sem hún gat veitt henni. Og hún gat veitt henni mikið. Allar minningarnar og traustið og vináttuna frá góðu æskuárunum sem gátu huggað Fjólu og stappað í hana stálinu til að sýna henni hvað hún hafði verið dæmalaust flott stelpa og var það enn. Finna gat líka gefið henni ráð. Og hún gat gefið henni fjárráð, því Finna var rík og umsvifamikil og fræg í Ameríku. En Fjóla þáði ekkert af þessu. Hún tók Finnu kurteislega en afar fálega. Og þáði ekkert, hvorki fé né ráð né nærveru. Ég veit ekki meira um þessa sögu, veit ekki hvernig hún fór, hvernig það fór með Finnu og hvernig það fór með Fjólu. Finnst þér þetta furðuleg jólasaga? Gleðisnauð? Hversdagsleg og óhæfandi á jólunum? Ég myndi ekki hafa sagt þér hana í kvöld nema af því einu að hún stendur í jólaguðspjallinu. Samt ekki um Fjólu og Finnu heldur um Guð og allar manneskjur veraldarninnar. Þetta er ekki jólaguðspjallið hjá Matteusi sem segir frá undrusamlegri og óútskrýanlegri þungun Maríu og svo frá fæðingunni í Betlehem og heimsókn vitringanna frá Austurlöndum. Það er heldur ekki jólaguðspjall Lúkasar sem Dóra las fyrir okkur. Það er jólaguðspjall Jóhannesar. Í fyrsta kaflanum. Í upphafi var Orðið og Orðið var hjá Guði, og Orðið var Guð. Hið sanna ljós sem upplýsir hverja manneskju kom nú í heiminn. Guð var komin til fólksins síns, Jesús var kominn og heimurinn var orðinn til fyrir hann. En heimurinn þekkti hann ekki. Jesús kom til eignar sinnar og hans eigið fólk tók ekki við honum. Þetta er líka sorgleg jólasaga. Óhemjulega sorgleg. Það væri skelfilegt ef hún endaði svona. En hún endar ekki svona. Næsta vers hjá Jóhannesi segir framhaldið. Það byrjar á en. Og þegar sagt er en eru breytingar í vændum. Og nú heyrum við breytinguna: En – öllum þeim sem tóku við honum gaf hann rétt til að verða Guðs börn, þeim sem trúa á nafn hans. Það þýðir að öllum sem tóku við Jesú gaf Guð rétt til að eiga vináttu sína, öllum sem trúa á nafn Jesú. Þetta var fyrsta jólasagan og hún heldur áfram í næstu sögu. Önnur jólasagan er um okkur og öll hin sem eiga líka vináttu Guðs af því að við trúum öll á nafn Jesú. Það er saga margra alda og hún nær um alla veröldina. Það er saga fólks sem gaf allt til að nafn Jesú yrði kunnugt fleirum og til að ekkert fengi að skyggj á það. Það er yndislegt að hitta þau sem trúa á Jesúm. Ég fór í nóvember til Strassborgar sem er hluti af Frakklandi þar sem kaþólska kirkjan er miklu sterkari en mótmælendakirkjan. En margir frumkvöðlar mótmælendakirkjunnar voru í Strassborg og mótmælendakirkjan er þar enn sterk og fjölmenn. Dalla dóttir mín þekkir presta þar og hringdi til að fá upplýsingar um messur þennan sunnudaginn. Við fórum í messu mótmælenda í miðbænum í einni af gömlu og stóru kirkjunum þar sem eru þykkir dökkleitir veggir og mörg hólf út úr aðalkirkjunni. Kirkjan var troðfull. Af fallegu svipmiklu fólki í þykkum síðum vetrarkápum. Messan var alveg eins, hún var efnismikil og löng og stóð í tvo tíma. Prédikarinn var gestur frá samtökum mótmælenda. Hann gekk út frá því að við þekktum öll textann sem hann útskýrði og prédikunin var biblíulestur. Það sem hann sagði var þetta: Það er engin kirkja án Krists. Kirkjan er Kristur. Við fórum daginn eftir í bókabúð og ég keypti þykka bók eftir franskan guðfræðing á fyrri hluta fyrra aldar. Hún var þykk eins og messan og margslungin eins og kirkjubyggingin og það sem hún sagði var alveg það sama og prédikunin: Það er engin kirkja án Krists. Kirkjan er Kristur. Þetta er fagnaðarerindi jólanna. Guð er komin til okkar. Jesús er Guð sem er komin. Hann er hún sem er komin. Til okkar. Til að gefa okkur trú. Þá er komið að þriðju jólasögnunni og ég verð eiginlega að biðja þig að skrifa hana. Hún er um það hvernig við notum kristna trú okkar til að vera flottar kristnar manneskjur í daglegu lífi okkar. Við kennum hver annarri að trúa á sjálfar okkur, treysta því og finna það að við erum flottar manneskjur og vinkonur Guðs. Svo að það sjáist í göngulaginu og finnist í handtakinu. Hvernig er það sem við horfum bæði á okkur sjálfar og sjáum hvað við erum yndislegar manneskjur og vinkonur Guðs og horfum líka á Guð vinkonu okkar sem er komin og er Jesús? Við skrifum alla guðfræði okkar saman. Og nú ætla ég að biðja þig að fara heim með þessa sögu og skrifa hana og segja okkur seinna hvernig þú hafðir hana. Við komum áreiðanlega með margar sögur, af því að við erum margvíslega yndislegar. Kristin guðfræði okkar er margvísleg af því að við megum tala við Guð eins og okkur langar til. Mér finnst það svipað að búa til guðfræði og að búa til mat. Mér finnst best að lesa margar uppskriftir í einu og búa svo til mat eftir þeim þegar ég þarf. Og mér finnst best að lesa góða skammta af guðfræði og nota þá þegar ég þarf. Ég var í Vestmannaeyjum á jólunum hjá Þjóðhildi dóttur minni og fjölskyldu hennar og hún fékk uppskriftir Nigellu í jólagjöf. Ég hafði sumar með mér á blaði og sumar í huganum og þegar ég fer að nota þær veit ég að Nigella tæki því verulega glaðlega þótt ég breyti ögn um kanil og kúmmen og hafi lauk þótt hún hafi rauðlauk eða perlulauk. Hún er líka svo langt í burtu hún Nigella þótt hún sé hjá okkur í bókinni. Ég held líka að Guð taki því ágætlega og hafi gaman af því þegar við skrifum öðruvísi guðfræði hver um sig. Og hún er ekki langt í burtu og er bæði hjá okkur í bókinni sinni og með okkur í framkvæmdunum. En það er eitt sem verður eins hjá okkur öllum. Af því að það er eins í öllum uppskriftum og hefur alltaf verið og verður alltaf. Það er þetta sem var sagt í Frakklandi: Kirkjan er Kristur. Það er engin kirkja án Krists. Hvernig eigum við að sjá sjálf okkur og sjá líka fyrirmynd okkar í Biblíunni. Fyrirmyndina í Guði vinkonu okkar sem er komin til okkar og er Jesús frelsari okkar? Hvernig eigum við að vera allt sem við erum en sleppa því líka? Við töluðum um það eftir eina bænastundina í Kvennagarði hvernig við gætum losnað við hugmyndir sem við viljum ekki hafa. Hvernig getum við sleppt þeim? Svarið var þetta: Við skulum ekki sleppa. Við skulum ekki láta okkur detta það í hug. Alls ekki. Af því að við getum það ekki. Hvað gerum við þá? Við förum til Guðs. Við erum hjá henni. Og hún losar handtak okkar á því sem við eigum ekki að halda í. Hún getur það. Bara hún. En hún getur það. Og hún gerir það. Við eigum nærveru hennar í hjarta okkar og í Orðinu. Orðinu sem var í upphafi og er komið til okkar. Við eigum það í Biblíunni og getum lesið það á hverjum einasta degi. Það verður hluti af okkur. Svo að guðfræðin sem við búum til verður yndisleg, margbreytileg og ilmandi. Við höldum áfram að skrifa hana og lifa hana og tala saman um hana og segja hver annarri. Svo að þínir réttir verði okkur hinum líka til gleði eins og þér. Svo að við tökum á móti gleði hinna eins og hún Fjóla hefði getað ef hún hefði viljað taka á móti henni Finnu vinkonu sinni. Guð blessar okkur. Alltaf. Amen..