Upplýsingar

Guð vonarinnar

Prédikun í Háteigskirkju 28. desember 2014 – Arndís G. Bernhardsdóttir Linn

Gleðileg jól kæru vinkonur og vinir

Í upphafi var Guð
Í upphafi var uppspretta alls, sem er
Í upphafi var Guð sem þráði
Guð sem andvarpaði
Guð sem hafði fæðingarhríðar
Guð sem fæddi
Guð sem fagnaði
Og Guð elskaði það sem hún hafði gert
Og Guð sagði ,,Það er gott „
Carter Heyward

Þannig hljómar upphafið að altarisgöngubæn guðfræðingsins Carter Heyward þar sem hún vísar til upphafs heimsins, sköpunarsögunnar sem líst er í upphafi Gamla testamentisins, þar sem ítrekað er bent á að Guð leit á allt sem hún hafði skapað og sá að það var harla gott.

Einhverjum árþúsundum síðar var Guði ljóst að fólkinu sem hún hafði skapað gekk misvel og meiri segja nokkuð illa að horfa til þess góða í sköpuninni og í hvert öðru.

Guð sá að hún yrði að gera eitthvað róttækt í málinu – grípa inní – taka málin í sínar hendur til að endurnýja tengsl mannkynsins við ást sína, góðvild og sköpunarkraft. Til að færa mannkyninu frelsun og von.

Á jólum komum við saman til að fagna þessu inngripi Guðs. Við fögnum því að Guð kom sem Jesú og leitaðist við að finna kærleika sínum farveg og kenna fólkinu í heiminum að elska hvert annað eins og hún elskaði þau.

Og Guð fæddist sem Jesú Kristur frelsari heimsins og vissi að það var harla gott.

Við þekkjum sögu Jesú, frá jötu til grafar. Þrátt fyrir alla dýrðina sem sagan hefur sveipast gegnum árhundruðin var hún í upphafi ekki saga dýrðar, heldur miklu frekar saga um von í vonlitlum aðstæðum.

Það var sannast sagna vonlítið að vera úthýst og fæðast í fjárhúsi.

Og þegar Jesús hóf að boða ríki Guðs mætti hann háði og spotti bæði guðfræðinga og samtímamanna sinna, þeirra sem töldu sig vita og höndla sannleikann. Það var vonlítið að fara gegn ríkjandi trúarháttum samtímans á þann hátt sem Jesús gerði. Við vitum hvernig líf hans endaði – Það var lítil von í að vera hæddur, hengdur á kross og tekin af lífi.

En við vitum líka að líf Jesú hélt áfram á einhvern þann hátt sem engan hafði grunað.

Guð frelsaði mannkynið gegnum dauða og upprisu Jesú og færði fólki sínu hina sterku kristnu von.

Í haust las ég bók sem heitir ,,Making sense of God – a womans perspective“. Bókin er eftir Elizabet Dreyer sem er guðfræðiprófessor í Bandaríkjunum. Þar fjallar hún meðal annars um dyggðir kvenna og segir að dyggð sé þau viðhorf og hegðun sem helga okkur, gerir okkur heil og sem við getum tileinkað okkur til að bæta heiminn og gera samfélag okkar gott. Meðal þeirra dyggða sem Dreyer talar um eru hugrekki og von. Hún segir að hin sanna kristna von sé grundvölluð á þeirri sannfæringu að náð Guðs, elska Guðs muni alltaf hafa betur, ekki bara við endi tímana með eilífu lífi upprisunnar, eins og okkur er svo tamt að hugsa, heldur líka núna, hér og nú í þessu lífi.

Þessi von verður hvað sterkust þegar við upplifum okkur í aðstæðum sem virðast útiloka hið góða, þegar við upplifum reynslu sem virðist takmarka lífsfyllingu okkar og gæði, Þegar við sjáum aðeins svartnættið og eigum í vandræðum með að ímynda okkur að nokkurt ljós geti lýst það upp.

Dreyer bendir á að konur hafi í gegnum tíðina, jafnt innan kristninnar hefðar sem utan, upplifað ómælt svartnætti þar sem tilvera þeirra, hugsanir, framkvæmdir, skriftir og góðmennska voru að stærstum hluta hunsaðar. Þrátt fyrir það hafi konur haldið áfram að tjá hugsanir sínar, framkvæma, skrifa og láta góðvild sína hafa áhrif á umhverfi sitt. Barátta kvenna fyrir frelsi og virðingu í gegnum tíðina birti okkur því margkonar andlit vonarinnar.

Hin sterka kristna von felur í sér hæfileikann til að horfa til framtíðar sem einkennist af kærleika og gagnkvæmri virðingu meðal allra einstaklinga. Þessi von færir okkur líka trú og traust á að slíkt samfélag sé mögulegt og gefur okkur hugrekki og sannfæringu til að vinna í ríki guðs. Jesús var boðberi Guðsríkis og setti það á oddinn í öllu sem hann kenndi. Nærtækast er að vísa til bænarinnar sem hann kenndi okkur: faðir vor , þú sem ert á himini, tilkomi þitt ríki,

Með þessari sterku von sjáum við lífið frá nýju sjónarhorni og getum horft til framtíðar sem getur aldrei orðið annað en harla góð – jafnvel þegar allt bendir til einhvers annars.

Dreyer segir hina kristnu von vera dyggð sem hægt sé að tileinka sér og gera að lífsmáta sínum. Hún segir líka að þau sem hvað best hafa náð að tileinka sér dyggð vonarinnar séu mikilvæg fyrir öll samfélög. Hún hvetur okkur til að taka vonarberum samtímans fagnandi og leyfa okkur að finna hvernig þeir endurnýja von okkar, ímyndunarafl og skuldbindingar.

Hverjir eru þínir vonarberar ?

Því miður virðist heimurinn allur bera þess mýmörg merki að kærleikurinn eigi enn erfitt uppdráttar. Stríð, hryðjuverk, dauðadómar, mannsal og allra handa ofbeldi og illska veður um heiminn. Og nú er það sköpun Guðs sem rymur og stynur, áhyggjufull vegna svo margra samverkandi þátta. Sköpun Guðs þarf á því að halda að hún sé minnt á hina kristnu von, hún þarfnast vonarbera.

Á jólum fögnum við fæðingu Jesú og erum minnt á fæðingu vonarinnar. Þér er frelsari fæddur, vonin er þín. Taktu vonina með þér heim, hlúðu að henni og leyfðu henni að veita þér hugrekki til að framkvæma, bæði þegar hið góða bankar uppá og eins þegar erfiðleikar og að því er virðast óyfirstíganlegar hrindranir verða á vegi þínum. Leyfðu Guði að gera þig að vonarbera.

Já, Fagnaðarboðskapur jólanna er boðskapur vonar, samspils alls þess sem Guð hefur fært okkur;

Guð skapar og allt verður gott,
Guð fæðist og allt verður gott,
Guð frelsar og allt verður gott bæði hér og nú og um alla eilífið.
Amen.