Þriðjudaginn 12. nóvember heldur dr. Mary Hunt opinberan fyrirlestur í boði Guðfræðistofnunar í stofu 220 í Aðalbyggingu HÍ. Fyrirlesturinn hefst kl. 11:40 og er öllum opinn. Yfirskrift fyrirlestursins er:

Bandarískur femínisti talar um rómversk kaþólsku kirkjuna á eftirlendutímum

Rómversk kaþólska kirkjan gengur í gegnum miklar en jafnframt hægfara breytingar um þessar mundir, bæði hvað varðar kenningar og skipulag. Óljóst er hver staða kvenna kemur til með að verða og hið sama má segja um stöðu allra leikmanna innan kirkjunnar. Fram að þessu hefur rómversk kaþólska kirkjan verið sannkölluð prestakirkja en nú gerir óvígt fólk kröfu um að fá að taka þátt í ákvarðanatöku, útdeilingu sakramentanna og þjónustu kirkjunnar. Ómögulegt er að segja fyrir um það hvað þessar breytingar kunna að hafa í för með sér en í fyrirlestrinum leggur dr. Hunt áherslu á að útskýra ástandið eins og það er í dag.

Dr. Mary Hunt er kaþólskur guðfræðingur og femínisti sem setti á laggir guðfræði- og kvennastofnunina WATER (Women´s Alliance for Theology, Ethics and Ritual) í Washington D.C. árið 1983 og hefur veitt henni forstöðu í þrjátíu ár. Dr. Hunt er virk í kaþólsku kvennakirkjuhreyfingunni  í Bandaríkjunum og hefur einnig starfað með mannréttindahreyfingu kaþólskra kvenna í Argentínu.

Dr. Hunt hefur skrifað og ritstýrt fjölda bóka og er ötull greinahöfundur. Meðal bóka hennar er Fierce Tenderness: A Feminist Theology of Friendship og   Good Sex: Feminist Perspectives from the World’s Religions sem hún ritstýrði ásamt Patricia Beattie Jung og Radhika Balakrishnan.

Sjá nánar hér