Hamingjugarðurinn – prédikun við Þvottalaugarnar 19. júní 2007

Innra með okkur og í umhverfinu allt um kring eru stórkostlegar uppsprettur lífsgæða. Snemma í morgun, í dag og í kvöld hér í Laugardal eru uppsprettur lífsgæða, gamlar og nýjar, í sjálfum okkur, í samskiptum okkar og síðast en ekki síst í anda Guðs, sem býr með okkur öllum. Verkefni okkar er að tengjast uppsprettunum, taka eftir þeim, sjá þær, skynja þær og taka við þeim.
Í uppsprettum lífsgæðanna eru tækifæri. – Við getum spurt: • Hversu vel sjáum við tækifærin í aðstæðum okkar? • Sjáum við tækifærin í samskiptum okkar við aðra? • Sjáum við tækifærin í því sem aðrir geta og gera? • Og í því sem við sjálf getum og gerum? • Njótum við þess að tengjast anda Guðs? Við erum stödd í einum af fallegustu görðum Íslands. Hvernig líst ykkar á að líta á líf okkar sem garð? Að horfa á líf okkar sem garð sem við ræktum? Líta á líðandi stund og verkefni hennar sem okkar eigin garð, og verkefnið er að rækta garðinn okkar. Líta svo á að í garðinum séu margir möguleikar til að rækta, margar jurtir, margs konar blóm og tré, og við sjáum ræktunarmöguleikana og tökum ákvarðanir. • Hvað getum við ræktað og hvað getum við ekki ræktað? • Hvað viljum við rækta og hvað ekki í okkar eigin garði? • Hvaða plöntur viljum við vernda og hlúa að? • Hverju viljum við sleppa og hafa alls ekki inni í garðinum okkar? • Þurfum við að færa til plöntur – nær eða fjær? • Ættum við að reita arfann í garði okkar eigin huga – og henda illgresinu? Séra Auður Eir hefur búið til vísu um svona tilfæringar og tiltektir. Hún mælir með því að taka öðru […]