Upplýsingar
Við erum búnar að vera hittast nokkrar konur á námskeiði hjá Kvennakirkjunni sem við nefnum Reiðin, gæska hennar og vinátta. Við hittumst og tölum saman um reiðina. Hvort við verðum reiðar og þá hvers vegna og við veltum því fyrir okkur hvort reiðin sé vond eða góð. Við höfum misjafnar skoðanir á því, sumar okkur er á því að reiðin sé vond það geti ekki verið neitt gott við hana á meðan aðrar telja að við getum notað reiðina til góðra verka og þá sé hún góð. Ég held að niðurstaða námskeiðsins verði sú að reiðin sé bæði góð og vond.
Ef við göngumst við þessari tilfinningu sem sum okkar kannast varla við að hafa fundið á meðan önnur ganga með henni daglega þá held ég að lífið eigi eftir að verða skemmtilegra fyrir okkur öll. Við þurfum að læra að stjórna reiðinni en ekki láta hana stjórna okkur.
Reiðin er eðlileg tilfinning, hún er gjöf frá Guði. Jesús var óhræddur við að reiðast. Hann varð t.d. öskureiður þegar fíkjutréð var fíkjulaust þegar hann langaði í fíkju og hann hrópaði á það að það skildi sko aldeilis ekki bera neinar fíkjur framar. Og þegar hann kom í musterið og sá hvar þar var verið að stunda verslun og viðskipti með hinar ýmsu vörur sem fólk þurfti að nota við helgiathafnirnar þá ruddi hann um borðum og lét allófriðlega. En hann stjórnaði þessari mögnuðu tilfinningu sem reiðin er, hann lét ekki stjórnast af henni. Hann barðist fyrir málefnum sínum en hann gætti þess alltaf að njóta líka lífsins um leið.
Og það er það sem við þurfum líka að æfa okur í að gera. Við eigum ekki að afneita reiðinni eða reyna að bæla hana niður. Hvað hefði gerst t.d. ef konur hefðu ekki orðið reiðar? Hvað hefði gerst ef konur hefðu haldið áfram að trúa því að það væri ókvenlegt að reiðast? Eina ráðið væri að bæla niður þessa tilfinningu svo hún tæki nú ekki yfir. Mikið er ég nú fegin að formæður okkar voru ekki þessar kurteisu konur sem þegja og láta allt yfir sig ganga og sýna umfram allt kvenlega stillingu, því ef þær hefðu gert það þá værum við ekki hér í dag. Eygló hefði ekki samið þennan dúndur texta um konurnar og Kristjönu hefði ekki dottið í hug að hvetja okkur til að sækja á.
En við vitum að leiðin er oft örðug og þess vegna verðum við að standa saman.
Það er stundum alveg hræðilegt að missa stjórn á skapi sínu og afleiðingarnar geta líka verið skelfilegar. Það er ein saga í Biblíunni sem er mér hugleikinn í sambandi við það að missa stjórn á skapi sínu með skelfilegum afleiðingum. Það er sagan um Jefta og dóttur hans sem við lesum um í Dómarabókinni í Gt. Jefta var einn af leiðtogum Ísraelsþjóðarinnar. Þegar hér er komið sögu er enn einu sinni verið að ráðast á Ísraelsþjóðin og konungur óvinanna hunsaði allar tilraunir Jefta til sátta. Þá varð Jefta svo reiður að hann hét á Guð að það fyrsta sem tæki á móti honum þegar hann kæmi heim úr stríðinu myndi hann fórna Guði til dýrðar ef Guð hjálpaði honum að vinna stríðið. Jefta vann stríði með aðstoð Guðs og hvað er það sem tekur á móti honum fyrst allra þegar hann kemur heim? Það er ekki hundurinn hans eins og hann hélt, nei það var einkadóttir hans. Ef við getum ekki haft stjórn á reiði okkar þá getum við ekki haft stjórn á lífi okkar.
Við erum að reyna að læra og kenna hver annarri á námskeiðinu um reiðina að hugsa um reiðina á nýjan hátt. Alveg eins og þegar Jesús sagði að við ættum að rétta fram hina kinnina, ekki til að láta slá okkur heldur til að taka ný skref, til að breyta um aðferð.
Ég ætla að segja ykkur sögu,um ömmu og lítinn hrekkjóttan ömmustrák. Amman var vön að leggja sig aðeins í seinnipartinn á sunnudögum, fá sér smá kríu og þá leiddist ömmustráknum þegar hann var í heimsókn. Einn sunnudaginn þegar amma fór inn í herbergi til að leggja sig, beið strákurinn eftir að hún sofnaði. Svo þegar hann heyrði að amma var sofnuð fór hann inn á baðherbergi og setti smá fýlukrem úr hrekkjudótinu sínu í hárgelið hennar ömmu sinnar. En amman var svona skvísuamma og alltaf þegar hún var búin að leggja sig fór hún inn á baðherbergi greiddi hárið og setti smá gel í það. Svo beið stráksi spenntur eftir að amma vaknaði. Þegar amma svo vaknaði var það fyrsta sem hún gerði að fara fram á bað greiða sér og setja smá gel í hárið. Voðalega er vond lykt hérna sagði amma fljótlega þegar hún komin í eldhús til að fá sér smá sopa, og hún opnaði gluggan, en það var enn sama vonda lyktin.. Hún ákvað að taka kaffibollan sinn með sér út á sólpallinn sem hún hafði smíðað í sumar og drekka kaffið þar þó það væri nú orðið svolítið svalt utandyra. En það var sama vonda lyktin út á sólpallinum. Nú hristi amma höfuðið og ákvað bara að fara í gönguferð og ömmustrákurinn skoppaði með. En þrátt fyrir útiloftið fann amman enn þá sömu vondu lyktina og hún komst að þeirri niðurstöðu að það væri bara skítalykt af öllum heiminum.
Þessi saga lýsir ef til vill svolítið viðhorfum sumra til lífsins. Er mögulegt að það sé skítalykt af þessu öllu saman eða er mögulegt að við berum sjálf þessa skítalykt með okkur í hverju skrefi í form vandamála sem við tökumst ekki á og í formi niðurbældra tilfinninga eins og t.d. reiði vegna óuppgerðra mála?
Við þurfum ekki að láta tilfinningar eins og reiði ráða yfir lífi okkar. við höfum val. Við getum kannski ekki breytt öllum aðstæðum en Guð gaf okkur hæfileikann til að breyta viðhorfum okkar og skipta um takt og á þann hátt að breyta aðstæðunum. Við getum ekki ætlast til þess að Guð breyti öllum heiminum svo við getum áfram verið þau sem við erum. Við þurfum að taka ný skref, breyta um aðferð. Við þurfum jafnvel bara að þvo okkur um hárið.
Hvað haldið þið að ég geti haldið lengi á þessu vatnsglasi í útrétti hendinni án þess að þreytast? Ef ég held á því í svona eins og eina mínútu þá er það í lagi. Ef ég held á því svona í klukkutíma, þá mun mig fara að verkja í handlegginn. En ef ég held nú á því svona í heilan dag þá er ég hrædd um að þið þyrftu að koma mér til aðstoðar. Glasið er alltaf jafn þungt en því lengur sem ég held á því, því þyngra verður það og erfiðara fyrir mig.
Ég tel að það sama eigi við um innibyrgða reiði, um reiði sem fær ekki útrás. Reiði sem við getum ekki hætt að hugsa um og bókstaflega étur okkur að innan og rænir okkur lífsgleðinni. Við látum reiðina ná yfirhöndum í lífi okkar og mörg hver verða að gagnrýnum nöldurskjóðum og sófasveskjum því þau þora ekki að lifa lífinu. Sumt fólk leggur jafnvel á sig mikla vinnu og ótrúlegan tími í að upphugsa nú eitthvað bráðsniðugt til að segja næst þegar það hittir þær manneskjur sem þau eru reið við. Þau gefa sér ekki einu sinni tíma til að staldra við og hugsa um hvað reiðin er að kosta. Af hverju þau eru að missa og hversu dýri verði hún er keypt. Stundum það vitum við alveg hversu reiðin er að særa okkur en höldum samt fast í hana.
Við megum ekki gleyma því sem Jesús sagði við okkur, hann sagði að hann vissi að það hefði verið gert á hlut okkar en hann sagði okkur líka að hætta að hafa áhyggjur af því. Jesús sagði okkur að sleppa. Ef þú rígheldur í reiðin og hefndarhugsunina þá er ég hrædd um að þú sért sjálf að koma í veg fyrir að þú njótir lífsins og alls sem það hefur uppá að bjóða. Hver eru það sem halda að lyklinum að lásnum sem lokar þig inni, hver er fangavörðurinn í raun og veru?. Ef þú elur í hjarta þér hatur eða reiði og getur ekki fyrirgefið þá ert þú sjálf að ræna þig lífshamingjunni. Þau sem þú ert reið við vita það jafnvel ekki einu sinni.
Stundum held ég að við verðum reið og sár vegna þess að við lítum svo stórt á okkur, við höldum okkur meiri en við erum. Við erum nefnilega ekkert eins merkileg og okkur finnst við oft vera. Hættum að taka okkur og lífinu svona alvarlega og lærum að sleppa og segjum bara ,,skidt með det”. Taktu ákvörðun um að sleppa í dag og lifðu lífinu lifandi með Guði. Veldu lífið eins og Jesús sagði þér gera.
Við getum öll orðið reið, en að verða reið við rétta manneskju, á réttan hátt, á réttum tíma og af réttri ástæðu er ekki á valdi margra. En reiðin er oft merki um að eitthvað sé að, hlutirnir eru ekki eins og þeir eiga að vera. Þorum bara að reiðast eins og þegar óréttlætið blasir við okkur. Við getum notað hina góðu reiði til að breyta heiminum. Verum óhrædd, tökum saman höndum, reiðumst og leysum málin, ekki með látum heldur í mildi og mætti.