Upplýsingar

Lúkasarguðspjall 1. 26 – 34. – Endursögn Kvennakirkjunnar

Þegar Guði fannst komin rétti tíminn sendi hún Gabríel engilinn sinn til borgar sem heitir Nazaret til að ræða við konu sem þar bjó. Konan hét María og var trúlofðu manni sem hét  Jósef. Þegar engillinn kom til hennar heilsaði hann henni og sagði: ,, Heil og sæl þú sem Guð lítur til í mildi og kærleika og finnst þú yndisleg manneskja. Guð er með þér.

En María varð hrædd við þessi orð og velti því fyrir sér hvað þessi kveðja ætti að þýða. Þá sagði engillinn við hana; Þú þarft ekki að vera hrædd María því að Guð elskar þig, treystir þér og þarfnast þín og henni finnst þú yndisleg manneskja. Og hún ætlar að sjá til þess að þú eignist son sem þú skalt gefa nafnið Jesús. Hann verður einstaklega merkilegur, sá merkilegasti í öllum heiminum og allir sem kynnast honum munu skilja og skynja að hann er Guð sem er ekkert ómögulegt og allt mögulegt.

————————————————–

Á afar sérkennilegu en áhugaverðu safni í Berlín sem heitir Heimar líkamans (d. Menschen Museum) eru alvöru mennskir líkamar til sýnis. Húð og fita hefur verið hreinsuð burt og sjá má sinar, æðar, bein og öll líffæri líkamans í einstaklega miklum smáatriðum.

Á safninu eru líka ýmiskonar listaverk sem vekja til umhugsunar um leyndardóma lífsins. Eitt slíkt þekur risastóran vegg . Á veggnum er gífurlega stór glerkassi fullur af hrísgrjónum. Þar eru trúlega fleiri hrígrjón en ég mun nokkurn tíman kaupa, hvað þá borða á ævinni.

Á agnarsmáum fleti á glerkassanum hefur verið teiknuð rauð píla sem bendir á eitt hrísgrjónið. Við píluna stendur ,,Þetta er upphafið að þér“ Í glerkassanum er jafnmikið af hrísgrjónum og meðalfjölda sáðfrumna í sáðláti – 3 – 500 milljónir og aðeins ein þeirra varð að þér. Ef einhver önnur sæðisfruma hefði unnið kapphlaupið – hefðir þú orðið allt önnur útgáfa af sjálfri þér. Haft annan hárlit, augnlit, aðra líkamsbyggingu og annan karakter. Leyndardómur lífsins verður svo ótrúlega stór og mikill og óræður frammi fyrir þessum staðreyndum. En sjáðu til – þó það sé stórkostlegt skiptir það óskaplega litlu máli , því Guð hefði elskað þig nákvæmlega jafn mikið þó þú værir allt öðruvísi.

Í guðspjallatextanum sem við heyrðum áðan heyrðum við um upphaf Jesús – eða kannski meira þegar lögð voru drög að upphafi Jesús. Við heyrum af því þegar Guð boðaði komu sína til okkar mannanna – Sjálft upphaf Jesús hefur reyndar verið sífellt þrætuefni guðfræðinnar því í Biblíunni virðist standa að ekkert kapphlaup hafi átt sér stað, engar hundruðir milljón sæðifrumna hafi keppt þangað til ein var eftir. Upphaf hans ku hafa verið Guðlegra, stórkostlegra – eins og þetta með sæðisfrumurnar sé ekki nógu stórkostlegur leyndardómur – en látum það liggja á milli hluta.

Við heyrum í textanum líka af viðbrögðum Maríu – hún varð óttaslegin. Hún skyldi ekki hvert engillinn var að fara. En hann útskýrði að hún væri mikilvæg, að einmitt vegna þess að Guð elskaði hana fengi hún það hlutverk að ganga með og fæða Jesú. Engillinn náði að einhverju leyti að sefa ótta Maríu – en það er erfiðara að sefa ótta okkar mannna.

Aðventan er bið tími, tíminn þegar við bíðum þess að fagna komu Guðs í heiminn. Hún er líka kölluð jólafasta og sem slík eru hún tími til að líta innávið, skoða okkur sjálf, gildismat okkar og siðferði. Boðskapur aðventunnar kallar okkur innávið , að okkur sjálfum. Hún er tími iðrunar og samkvæmt ameríska guðfræðingnum Tomas Keating er það að iðrast að endurskoða og skipta um leið til að leita hamingjunnar. Menningin okkar, og þá sér í lagi kröfuhart neyslusamfélag eins og við lífum í, virðist þó sífellt kalla okkur frá okkur sjálfum.

Ég heyrði einu sinni sögu – kannski frekar brandara að myrkjrahöfðinginn – sá í neðra –  hafi ætlað að afnema jólahátíðina. ,, ef mér tekst ekki að binda enda á jólahaldið, finna mennirnir að minnsta kosti einu sinni á ári þrá í brjósti sér eftir Guði – og Kristnidómnum verður ekki útrýmt af jörðinni.“ Hann velti vöngum yfir þessu og kommst eftir langa umhugsun að ágætis lausn: Hann fann upp jólaannríkið. Jóla stressið. Þetta allt sem dynur yfir okkur á blessaðri aðventunni. Já reyndar ekki bara á aðventunni því jólaundirbúningurinn virðist sífellt lengjast og lengjast.

Og í mörgu því sem gengur á á aðventunni er alið á því sama. Ótta okkar mannanna. Ótta við að vera ekki viðurkennd, að vera ekki nógu þetta eða hitt. Það er alið á grundvallar ótta okkar allra, skömminni yfirþví sem við raunverulega erum.

Hvað heyrum við í ys og þys jólaundirbúningsins………. Svo þú verðir nógu flott, smart, góð , áhugaverð skaltu þrífa eða baka svona eða hinsegin, skaltu kaupa þetta eða hitt, fara á þessa eða hina viðburðina, vera hagsýn og kaupa á svona eða hinsegin afslætti, á þessum eða hinum svörtu föstudögum, eða cyber mánudögum. Sem betur fer las ég reyndar einhvers staðar að það væri engin tíska í aðventukrönsum , kona má greinilega hafa þá eins og henni sýnist. Það er ákveðinn léttir.

En í alvöru…. ….. undir kraumar tilfinning sem við erum tilbúin til að ganga ansi langt til að sefa…………. ég er ekki nógu………….. Þetta eru skilaboð neysluhyggjunnar, heimsins sem skilur svo vel okkar veikasta punkt…. að við eigum einfaldlega í dásamlegu basli með að sjá okkur með augum Guðs, sem stórkostlegar, einstakar og dásamlegar manneskjur.

Þú ert ekki nógu eitthvað eru ekki skilaboðin frá Guði – engillinn Garbíel kom ekki með þessi skilaboð til Maríu heldur þvert á móti sagði henni á svo afgerandi hátt að hún væri elskuð að hún gat varla trúað því.

Hvernig getum við einbeitt okkur að Guði og okkur sjálfum á aðventunni? Okkur er uppálagt að finna fordæmi hjá Jesú.

Hugsum til Jesú, Hvar var hann á fyrstu aðventunni – ég meina áður en hann fæddist? Eftir að hann var getinn – eða ekki getinn? Hann var ófæddur í kviði móður sinnar. Í hlýju, mjúku og öruggu umhverfi, hafði allt sem hann þurfti til að vaxa og dafna. Saklaus, heill, fullkominn –einn með sjálfum sér, heyrði óm að því sem gerðist fyrir utan, kannski skynjaði hann skarkala heimsins en hann þurfti ekki að hafa áhyggjur.

Og þetta er sameiginleg reynsla okkar – okkar allra – við höfum öll hvílt í móðurkviði þó Ég geri fastlega ráð fyrir að við munum ekki þessi fyrstu tengsl okkar í heiminum, áður en við byrjuðum sem ein  af fimmhundruð milljón frumum.

Ég er sannfærð um að þar, í móðurkviði hafi okkur liðið vel, fundist við örugg og varin fyrir hættum umheimsins sem við vorum enn ekki fær um að skynja eða skilja. Var það ekki eins og að vera hjá Guði? Vorum við ekki þá, áður en við fæddumst tæknilega hjá Guði? Getum við talað til þessarar sameiginlegu reynslu – eru hún geymd einhvers staðar innra með þér?

Getum við skynjað gegnum þá upplifun okkar , sem við vissulega gegnum í gegnum að Guð umvefur okkur alla daga. Og hún er hlý, mjúk, örugg, verndandi og nærandi.

Og hún segir við okkur hvert og eitt eins og engillinn við Maríu forðum:,, Heil og sæl þú sem Guð lítur til í mildi og kærleika og finnst þú yndisleg manneskja. Guð er með þér. Þú þarft ekkert á þessu öllu að halda sem heimurinn býður þér. Það færir þér hvorki hamingju né frið, hvorki sátt né sanna gleði. Fylgdu hjartanu, þar bý ég og get sefað ótta þinn.“

Sjáðu til – jafnvel þótt upphaf þitt virðist hafa verið tilviljanakennt – kapphlaup hundruð milljóna frumna – þá er það ekki bara undur lífsins  heldur líka Guðleg forsjá. Jafnvel þó einhver önnur sæðisfruma hefði unnið kapphlaupið og þú orðið allt annar einstaklingur, með annan hárlit, annað andlitsfall, annan karakter er það ekki leyndardómur lífsins heldur hitt að Guð hefði elskað þig nákvæmlega jafn mikið þó þú værir allt öðruvísi. Guð treysti öllum þessum milljón frumum til að verða stórkostlegir einstaklingar.

Taktu á móti  gjöf Guðs og leitaðu inná við á Aðventunni. Þú þarft ekki að vera hrædd , upplifa skömm- því að Guð elskar þig, treystir þér og þarfnast þín og henni finnst þú yndisleg manneskja – nákvæmlega eins og þú ert.

Amen.