Kæru vinkonur.  Í dag, 25. október lesum við 2. kaflann hjá Markúsi.  
Jesús er fluttur.  Kominn í hús í Kapernaum, stærri borg en Nasaret.  Það er ekkert minnst á fjárhaginn svo þau hafa ráðið við peningamálin.  Seinna er sagt að konur í hópnum lögðu fram fé og buðu í mat og fleiri gerðu það.  
Markús segir strax frá því sem varð daglegt brauð í hópnum.  Jesús safnar til sín fólki og gefur því undursamlegan boðskap sem breytir lífinu og læknar huga og líkama.  Hann reynir að fá landstjórnina til að sjá að sér.  Stjórnin var samsett af fræðimönnum trúarinnar en yfir þeim voru Rómverjarnir sem ríktu yfir landinu og höfðu heimsfrægt lagasafn en líka óheillavænlegar hugmyndir.
Ekki drottna yfir fólkinu með hugmyndum ykkar um það sem Guð er að segja, sagði Jesús við færðimennina.  Ekki heimta að fólkið fari eftir öllum þessum smásmugulegu og misskildu hugmyndum ykkar.  Opnið augun og sjáið að Guð talaði allaf um óendanlega ást sína sem hún vildi gefa okkur öllum svo að líf okkar yrði gott og fallegt og við yrðum kjarkmiklar og glaðar manneskjur.  Ég er ekki kominn til að tala við þau sem setja sín eigin lög heldur þau sem vilja taka á móti því sem ég gef þeim.  Ég breyti lífi þeirra, fyrirgef þeim allt sem fór úrskeiðis í lífi þeirra og gef þeim nýtt hugrekki og kærleika.  
Markús skrifar um þetta í öllu guðspjallinu:  Landstjórnin sér ekki boðskap Guðs fyrir öllu því sem hún er sjálf búin að setja upp sem boðskap Guðs.  
Við skulum tala um það sem við höfum kannski sett upp til að gera að markmiði lífs okkar.  Tölum um breytingarnar sem Guð hefur gefið okkur í okkar eigin lífi.  Hvað segirðu?  Blíðar kveðjur, Auður Eir