Upplýsingar

Háteigskirkja, sunnudagskvöldið 29 .desember 2019

Einu sinni enn heyrum við undursamlegt jólaguðspjallið um samtal Maríu við engilinn, ferð Maríu og Jósefs til Betlehem, fæðingu Jesú í fjárhúsinu, englasönginn hjá hirðunum og komu vitringanna frá Austurlöndum.  Einu sinni enn fyllumst við gleði og friði.

Heyrum líka formálann.  Hann stendur í öllu Gamla testamentinu og er um sköpun heimsins og vandræði hans um allar aldir, stríðin og kvenfyrirlitniguna en líka um ómælda ást Guðs sem var alltaf með fólki sínu í einu og öllu.  Hún ákvað að koma sjálf.  Ég kem bráðum, sagði hún og gef ykkur frið.  Þá verða öll hermannastígvél brennd og heima hjá ykkur er djúpur friður og smábörnin leika sér við góð og blíð dýr sem eru hætt að vera vond og hættuleg.

Svo kom Guð.   Hún kom og var Jesús.  Fæddur af Maíu og heilögum anda.  Lúkas og Matteus segja söguna, Markús segir frá upphafi starfsins og Jóhannes segir:  Í upphafi var Orðið og Orðið var Guð sem kom og var manneskja eins og við.  

Það er rifist um sögurnar um fæðinguna og líka um Orðið sem varð Jesús.  Það er hnakkrifist um það að Jesús var alltaf til og var alltaf Guð og heilagur andi.  Ég steig niður af himni, sagði hann sjálfur og við trúum því af því að hann sagði það.  Við skiljum það ekki.  Engin skilja það en við trúum því.  

Það breytir öllu lífi okkar að Guð varð ein af okkur.  Við sem viljum segjum að hún sé vinkona okkar.  Þær  sem kæra sig  ekki um að segja það segja það ekki.  En við játum allar að Guð kom eins og jólaguðspjallið segir.

Þess vegna getum við talað við Guð um allt sem liggur okkur á hjarta.  Hún steig niður og til okkar.  Hún heyrir alltaf og hjálpar alltaf.   Hún breytir huga okkar.  Hún tekur frá okkur hugsanirnar sem eru okkur svo erfiðar að þær geta verið eins og ský fyrir sólu.  Þú veist hvernig það er.  

Það skiptir okkur öllu hvað við hugsum.  Við ráðum ekki nærri alltaf við það.  Við sem viljum ekki hafa fordóma og ekki vera afskiptalausar og ekki meðvirkar og ekki kuldalegar og ekki kjánalegar föllum stundum í að vera þetta allt.  Við vildum alltaf vera skynsamar, góðviljaðar, hjálplegar, glaðværar, skemmtilegar.  Við erum það stundum.  Við erum það oft.  Við erum mildar og máttugar af því að við erum vinkonur Guðs.  

Við erum það af því að hún gerir okkur að vinkonum sínum.  Við þekkum hana, hún er við hliðina á okkur, hún tekur utan um okkur, hún hvíslar í eyru okkar, hún gætir að okkur, hún þarfnast okkar, hún kennir okkur, hún þjálfar okkur, hún elskar okkur.  Við treystum því, við hvílum í því, við störfum í því, við berjust með henni.

Nú kemur nýtt ár.  Þá ætlum við að halda áfram að lesa kvennaguðfræði.  Af því að við erum prestar og við erum kvennaguðfræðingar og Guð sendir okkur til að vera prestar og kvennaguðfræðingar.  Hún heldur áfram að kenna okkur og þjálfa okkur og við höldum áfram að treysta henni.  Það er fagnaðarerindi jólanna og allra daga.  Amen