Ræða sem séra Auður Eir Vilhjálmsdóttir hélt við útför Ragnhildar Helgadóttur í Neskirkju 8. febrúar 2016
birt hér vegna þeirra sem óskuðu eftir að sjá ræðuna á prenti
Kæra fólk – við skulum finna gleðina af að vera hér saman til að riifja upp nokkrar minningar um Ragnhildi.
Við skulum alltaf treysta Guði. Við skulum elska hana og treysta henni af því að hún elskar okkur og treystir okkur. Við skulum finna það þegar við vöknum og finna það þegar kvöldið er komið að hún var með okkur allan daginn. Og þegar við lítum yfir líf okkar eins og við gerum í dag. Við getum litið yfir okkar eigið líf um leið og við lítum yfir líf Ragnhildar. Við áttum margt með henni. Hún mat okkur mikils eins og við höfðum miklar mætur á henni. Það er mikils virði í dag eins og alltaf.
Það eru þrír mánuðir síðan hún sjálf kvaddi Þór manninn sinn. Þið komuð mörg til að kveðja hann líka. Takk fyrir að koma í dag. Við höldum sum að henni hafi þótt gott að fylgja honum eins og þau fylgdust að næstum allt lífið.
Ragnhildur Helgadóttir fæddist 26. maí 1930. Foreldrar hennar voru Kristín Bjarnadóttir húsfreyja og doktor Helgi Tómasson yfirlæknir á Kleppi.
Hún ólst þar upp með foreldrum sínum og Tómasi eldri bróður sínum og Bjarna yngri bróður þeirra. Mamma hennar var fædd og alin upp í Engey þar sem Bjarni pabbi hennar var skipstjóri og bóndi og Ragnhildur mamma hennar húsfreyja á stóru heimili og frumkvöðull í nútíma stjórnun. Kristín var í fyrsta stóra stelpnabekknum sem tók stúdenstpróf frá menntaskólanum. Helgi varð líka stúdent það ár, árið 1915. Móðir hans var Sigrid Lydia Thjell húsmóðir og faðir hans var Tómas Helgason læknir. Séra Helgi Hálfdánarson sem orti sálminn sem við sungum í upphafi var afi hans og þá langalangafi Ragnhildar.
Mamma Ragnhildar dó þegar Ragnhildur var í stúdentsprófi, hún dó 8. júní 1949. Pabbi hennar dó níu árum seinna, 1958, hinn 2. ágúst. Hvort tveggja hafði djúp áhrif á Ragnhildi.
Seinni kona Helga var Ragnheiður Brynjólfsdóttir og sonur þeirra og yngsti bróðir Ragnhildar er Brynjólfur.
Það var ekki í alfaraleið að alast upp á Kleppi en þar var margt fólk, sjúklingar og læknar og hjúkrunarfólk. Pabbi hennar kenndi henni að bera djúpa virðingu fyrir sjúklingunum og óttast þau aldrei.
Ragnhildur lék sér við upphugsaðar vinkonur sínar Smiðu og Bimmu, þegar ekki voru aðrar stelpur til að leika sér við á Kleppi. Smiða og Bimma voru skemmtilegar og góðar en þegar Ragnhildur gerði einhverja óhæfu kom Kjalarnesgudda sem var hvorki góð né blíð. En það var margt til að gleðja litla stúlku inni við sundin, bóndabýli rétt hjá og sjórinn fyrir neðan. Og svo gekk strætó nálægt spítalanum en hún tók strætó til Bjarna afa á Laugavegi og Sigríðar ömmu í Skólastræti. Hún tók strætó í Laugarnesskólann og Menntaskólann og aðrar ferðir en seinna fékk hún bíl pabba síns til að fara í bæinn.
Ragnhildur sagði að hún sækti styrk sinn fyrst og fremst til uppeldis síns. Börnin hennar finna þennan styrk hennar í bjartsýni hennar og jákvæðri afstöðu til daglegra mála og í stryrk hennar sem þau sáu bæði í pólitískum störfum hennar og samverunni og störfunum heima. Og í skjótum viðbrögðum hennar. Þegar þau þurftu einhver til að hlaupa undir bagga á stundinni kom mamma þeirra ef hún mögulega gat. Hún hafði yfirsýn og snarrræði til að koma málum á betri veg. Eins og þegar verið var að byggja húsið í Stigahlíð og hún sá þegar búið var að slá upp fyrir veggjunum að það var ófært að hafa ekki norðurglugga til Esjunnar. Þótt smiðirnir teldu þetta óráð og of seint að breyta gerðu þeir það samt og svo var steypunni rennt í mótin. Og allan tímann í Stigahlíðinni var glaðst yfir útsýninu til Esjunnar
Ragnhildur fór í Menntaskólann og bast ævilöngum vináttuböndum við skólasystkinin í árgangnum. Stelpurnar stofnuðu Málfundafélag menntaskólastúlkna til að auka áhrif kvenna í skólastarfinu. Bekkjarsysturnar hafa hist um öll árin og allur árgangurinn hefur ferðast saman og hist reglulega og undanfarið hafa þau hist í hverjum mánuði hér í Neskirkju.
Ragnhildur hitti Þór í Menntaskólanum en þau hittust fyrst í jólaboði vestur á Sólvallagötu þegar þau voru bæði sex ára. Þór Heimir Vilhjálmsson fæddist eins og Ragnhildur árið 1930, hinn 9. júní. Hann dó nú 20. október. Foreldrar hans voru Inga Árnadóttir húsfreyja og Vilhjálmur Þ. Gíslason skólastjóri og útvarpsstjóri.
Ragnhildur og Þór urðu bæði stúdentar 1949. Þau giftu sig árið eftir, 9. september 1950. Okkur í fjölskyldu Þórs þótti það mikill fengur að fá Ragnhildi í okkar hóp og eiga með henni langa ævi i mikilli vináttu.
Þau bjuggu fyrst inni á Kleppi en fluttust svo niður á Laugaveg, á efri hæðina í bakhúsinu við Laugaveg 66. Hún tók við búðinni Happó í framhúsinu og Maren móðursystir hennar hafði rekið. Þar var líka afgreiðsla happdrættis Háskólans. Frændfólk bjó í framhúsinu og þær bjuggu á jarðhæðinni í bakhúsinu, Maren og Ólafía móðursystur hennar. Það var mikill og góður samgangur milli hæðanna. Seinna flutti Ólafía til Ragnhildar og Þórs í Stigahlíð og var sem fyrr mikilsverður hluti heimilisins. Aðrar merkar konur tóku þátt í heimilishaldinu á Laugavegi, Álfheimum og Stigahlíð, Oddrún og fleiri norskar stúlkur sem urðu vinkonur heimilisins, en lengst voru þar Svanlaug Sigurbjörnsdóttir og svo seinna Hólmfríður Jakobsdóttir.
Ragnheiður Brynjólfsdóttir stjúpmóðir Ragnhildar var líka mikil vinkona og hjálparhella en þær bundust vináttu þegar Ragnhildur var lítið barn.
Börnin fjögur, Helgi og Inga, Kristín og Þórunn voru alltaf aðalatriði foreldra sinna þótt mikil verkefni væru jafnan á þeirra könnu meðan börnin uxu úr grasi. Þau nutu þátttökunnar í umfangsmiklum störfum foreldra sinna. Þau lærðu gleðina af gestkvæmu heimili og góðum störfum í annríki sem varð þeim gott veganesti í lífi og störfum þeirra sjálfra.
Þau lærðu líka að sjá og finna uppspunann og árásirnar sem alltaf bitna á þeim sem starfa að opinberum málum. Það verður hugrökkum börnum ómetanlegt veganesti þótt gleðin sem þau fá til lífsferðarinnar sé miklu betri.
Ragnhildur las lögfræði um leið og Þór. Þau stunduðu námið um leið og þau önnuðust börn sín og heimili og unnu fyrir heimilishaldinu. Ragnhildur tók að sér mikinn hluta hversdagsstarfanna og tók prófið seinna en Þór. Þegar hún ákvað að láta til skarar skríða til lokaprófs og Þór keyrði hana upp í háskóla sagði hún þegar þau komu þangað að hún héldi bara að hún færi heim aftur. Og hann sagði: Ég fer ekki með þér. Svona hughreystingu og sterkan stuðning átti hún alltaf vísan hjá honum. Þau studdu hvort annað í einu og öllu alla ævi.
Ragnhildur segir í bókinn Frú ráðherra að hún hafi alltaf verið kvenréttindakona og sjálfstæðiskona. Ég held ég kunni enn utanbókar gömlu stefnuskrá Sjálfstæðisflokksins: Flokkur einstaklingsfrelsis og athafnafrelsis með hagsmuni allra stétta fyrir augum.
Hún var fyrsta konan sem sat í stjórn Vöku. Fyrir það var hún sæmd gullmerki Vöku í fyrra.
Hún var kosin á þing fyrir Sjálfstæðisflokkinn árið 1956. Hún var þá 26 ára, eina konan á þingi með 51 karli. Hún fagnaði því þegar Auður Auðuns kom á þing. Auður var henni fyrirmynd og þær voru miklar vinkonur. Konurnar sem komu svo á þing af ýmsum flokkum héldu saman. Ragnhildur var önnur konan hér til að gegna ráðherraembætti og fyrst kvenna til að gegna embætti heilbrigðis og tryggingamálaráðherra. Hún var líka fyrst kvenna forseti neðri deildar þingsins, þrjátíu ára gömul, og fyrsta konan sem gegndi embætti forseta Norðurlandaráðs.
Í viðtali við Ragnhildi sem birtist í Vikunni árið 1985 segir í inngangsorðum blaðamanns að hún sé alúðleg og hreinskiptin en flíki ekki tilfinningum. Hún láti sem minnst á því bera þegar hún reiðist og það líði ekki á löngu þar til ósjálfráðir persónutöfrar hennar fari að verka. Hún sé tíguleg, fallega klædd, hafi rólegt og stillt yfirbragð en sýni líka föskvalausa gleði.
Ragnhildur sat 24 ár á þingi. Hún mælti þar fyrir mörgum málum, fyrir bættum hag öryrkja vegna geðsjúkdóma, fyrir breyttum skattamálum hjóna og möguleikum ungs fólks til að koma þaki yfir höfuðið og fyrir því að einsöngvarar yrðu fastráðin við Þjóðleikhúsið.
Árið 1975 bar hún fram frumvarp til laga um að konur í verkalýðsfélögum fengju rétt til fæðingarorlofs eins og konur sem unnu hjá ríkinu. Þingið samþykkti frumvarp hennar og með því fengu verkakonur, verslunarkonur, flugfreyjur og fleiri kvennastéttir rétt til fæðingarorlofs.
Það er trúlegt að Ragnhildi hafi þótt þetta mikilverðasta málið sem hún bar fram á þingi. Það er líka trúlegt að það hafi komið henni að góðu gagni að hún hafði verið lögfræðingur Mæðrastyrksnefndar.
Þegar Ragnhildur var menntamálaráðherra lagði hún áherslu á að skipa hæfar konur í forystu ýmissa verkefna og hún endurskipulagði ráðuneytið í þrjár deildir. En stærsta verkefni hennar var ný útvarpslög þegar einkaréttur útvarpsins var afnuminn. Og þegar hún varð heilbrigðisráðherra fékk hún tækifærið til að lengja þriggja mánaða fæðingarorlofið í sex mánuði. Og mörgu fleiru hratt hún í framkvæmd.
Kristján L. Möller, fyrsti varaforseti Alþingis minntist Ragnhildar þar og sagði meðal annars:
Ragnhildur Helgadóttir var ljúf í allri framkomu og viðmóti, háttprúð og yfirveguð en gætti jafnframt vel allra formreglna í störfum sínum. Hún hafði ríka kímnigáfu og var jafnan brosmild. Þegar til átaka kom eða henni misbauð gat svipur hennar hins vegar orðið harður. Hún var málefnaleg í umræðum, samviskusöm, dugleg og nákvæm við störf sín hér á Alþingi og undirbjó sig vel til allra verka.
Ragnhildur hætti stórnmálastörfum 1991 en vann þó áfram að ýmsum verkefnum. Henni fannst rétt að skipta lífinu í kafla og nýr kafli hófst enda þegar Þór varð dómari við EFTA dómstólnn og þau bjuggu í Genf og Lúxemborg. Þegar þau fluttu heim fengu þau sér íbúð í Miðleiti og hófu enn nýjan og góðan kafla.
Seinni hluti
Það var eins og ég sagði að hvað sem gerðist gott og strangt voru börnin fjögur alltaf aðalatriði í lífi þeirra Ragnhildar og Þórs.
Þórunn er yngst. Svo er Kristín sem á Þóri Óskarsson og börn þeirra eru Birna, Heimir og Heiður. Birna er gift Ingólfi og sonur þeirra er Bjarki Þór. Inga er næstelst. Maður hennar er Stefán Einarsson og börn þeirra eru Ásta, Þór og Kolbeinn. Ásta átti Pinó og Kolbeinn á Kristínu Steinunni Helgu.
Við misstum Ástu og Pino í slysi sumarið 2014.. Ásta verður alltaf hluti af okkur eins og afi hennar og amma og við megum vera þess fullviss að þau hafa nú hist og gleðjast saman. Við eigum það loforð fyrir óendanlega ást Guðs sem kom og var Jesús sem dó og reis upp frá dauðum til að gefa okkur eilíft líf. Það er ómetanlegt loforð og er líka loforð um eilíft líf i hverjum einasta degi okkar.
Elsta barn Þórs og Ragnhildar er Helgi. Hann á Guðrúnu Eyjólfsdóttur og þau eiga Ragnhildi sem á Halldór og þau eiga Berg, Sóleyju og Hlín. Helgi og Guðrún eiga líka Svönu sem á Brynjar og þau eiga Helgu Björgu, Ragnhildi Sunnu, Birtu Guðrúnu og Dag.
Rgnhildur elskaði barnabörnin sín og börnin þeirra og var mikil vinkona þeirra og þau áttu hana alltaf að í hverju sem var. Þegar lítil barnabörnin komu í heimsókn þegar hún var að lesa skjöl eða skrifa ræður fékk hún þeim verkefni sem þeim þótti skemmtilegt að vinna.
Því hún hafði þann mikla hæfileika að geta gert margt í senn, eldað og þvegið og bakað og talað í símann og boðið vinum krakkanna í kökur við eldhúsborðið. Hún gat málað húsið og veggfóðrað, saumað föt á krakkana og gefið þeim góðan mat úr afgöngum því það var nauðsynlegt að spara á sparnaðartímum. Egg í karríi með hrísgrjónum voru minnisstæðust. Þið getið fengið uppskriftina hjá börnum hennar.
Mamma var hlý en ströng eins og einmitt á að vera, segja börnin hennar. Hún fann hvernig þeim leið eins og hún var næm á líðan annarra. Hún var prinsippföst, átti fastan kjarna í sjálfri sér, segja tengdabörnin. Henni varð ekki hvikað frá þeim grunni sem hún stóð á. Hún var skáti og þau eru öll sammála um að skátastarfið hafi mótað hana og fylgt henni alla ævi.
Það tilheyrði festunni að kunna að setja forgangsröð, slá af skipulaginu og hún sagði að annars væri ekki hægt að standa í þessu öllu. Hún kom auga á það sem skipti máli og þá kom hitt af sjálfu sér. Það skipti til dæmis máli að hafa mat í hádeginu meðan það var enn hægt og þau Þór settust alltaf i sófann eftir matinn og drukku kaffi.
Á kvöldin söng hún fyrir börnin sín, hún söng Rokkarnir eru þagnaðir og bað með þeim bænir. Hún bauð þeim góða nótt en tók á móti óskum um smálegar veitingar á náttborðið ef þau voru aftur orðin sársvöng. Svo fór hún og talaði löng og mörg pólítísk samtöl í símann og stundum komust veitingarnar ekki á náttborðin fyrr en eftir samtölin og blöstu við nývöknuðum börnunum í morgunsárið.
Ragnhildur gekk í gegnum sjúkdóma sem hún sigraðist á. Hún fékk blóðtappa viku áður en hún dó og var á Landspítalanum í Fossvogi síðustu dagana við mikla alúð hjúkrunarfólksins og síns eigin fólks og sagði að hér væri hún bara í dekri. Hún dó föstudaginn 29. janúar.
Ragnhildur hafði mætur á sálmum sálmabókarinnar og sá hinn góða og djúpa boðskap sem bæði gamlir og nýir sálmar bera okkur. Það er boðskapurinn um gleði hversdagsins sem á rætur í gleði Guðs sem aldrei bregst en á öll ráð og kemur stormandi til hjálpar áður en við sjáum að við þurfum að biðja þess. Það er boðskapurinn um Jesúm Krist frelsara okkar sem dó fyrir okkur og reis upp til að gera okkur mild og máttug í daglegu lífi og gefa okkur eilift líf. Og gera okkur skemmtileg og falleg. Þetta er hinn hátíðlegi hversdagsboðskapur kristinnar trúar.
Ragnhildur var í Kvennakirkjunni og þau Þór komu í guðþjónustur og voru okkur mikil gleði með nærveru sinni. Ragnhildur kom á námskeiðin í mándagskvöldum og við mátum það mikils að heyra skoðanir hennar. Hún hefði komið núna á eftir ef hún hefði ekki þurft að vera annars staðar. Ef Guð hefði ekki boðið henni að koma til sín strax. Og þótt við hefðum öll sem erum hjér í dag viljað fá að njóta hinnar góðu nærveru hennar lengur skulum við vera þakklát fyrir að Guð kallaði hana núna. Það var áreiðanlega best. Og við skulum treysta því og treysta Guði óhikað og fagnandi fyrir sjálfum okkur. Það er nefnilega áreiðanlega allra best af öllu.
Nú skulum við syngja saman einn af hinum nýju sálmum kirkjunnar. Það er sálmur sem Eygló Eyjólfsdóttir sem var líka i Kvennakirkjunni orti að beiðni Kvennakirkjunnar og gaf okkur af elskusemi sinni. Það er sálmur allrar kirkjunnar og líka sunginn í kirkjum annarra landa. Syngjum nú öll og svo hátt að heyrist um allt hverfið.
Amen
Ræða sem séra Auður Eir Vilhjálmsdóttir hélt við útför Þórs Heimis Vilhjálmssonar í Langholtskirkju 29. október 2015
birt hér vegna þeirra sem óskuðu eftir að sjá ræðuna á prenti
Það er yndislegt að eiga kristna trú. Hún segir okkur skýrt og blíðlega að það sé sitt aðaleinkenni að snúast öll um Krist. Hann er Guð sem kom sjálf til okkar. Og þá sagði hann: Ég er upprisan. Ég sigraði dauðann. Þess vegna gef ég þér upprisu á hverjum nýjum morgni og smáa og stóra sigra á hverjum degi. Og þegar þú deyrð reisi ég þig upp. Ég kem og sæki þig. Af því að ég vil að þú sért alltaf hjá mér.
Það er þess vegna sem við megum gera þessa stund að gleðistund. Við megum syngja um trú okkar á Jesúm Frelsara okkar og finna í hjarta okkar traustið hvert til annars og gleðina yfir vináttunni. Það er það allra besta í lífinu að fá að þekkja verulega gott fólk. Fólk sem er heiðarlegt og trúfast. Og ef það er líka skemmtilegt er það aukagjöf.
Bróðir minn Þór Heimir átti þessu öllu að fagna. Hann var alinn upp í kristinni trú og þegar hann var skírður gaf séra Friðrik honum Biblíu með þessari áritun: Þessa bók á Þór, þegar hann verður stór, hennar orð í hjarta geymir, Heimir. Bróðir minn fékk að ganga allan sinn æviveg með traustu og framúrskarandi skemmtilegu fólki. Fyrst foreldrum okkar og heimilisfólki þar, svo Ragnhildi og börnum þeirra og fólki hennar, bræðrum hennar Tómasi, Bjarna og Brynjólfi og fjölskyldum þeirra. Og svo samferðafólkinu sem hann gekk með.
Hann fæddist í Reykjavík 9. júní 1930. Foreldrar okkar voru Inga Árnadóttir húsmóðir frá Skútustöðum í Mývatnssveit og Vilhjálmur Þ. Gíslason, Reykvíkingur, skólastjóri Verslunarskólans og útvarpsstjóri. Þau bjuggu fyrst á Fjölnisvegi og Þór komst strax til mannvirðinga. Þau sátu þar með honum örsmáum og hann leit fagnandi á þau og sagði: Tveir menn og mamma. Hann fékk súkkulaði úr frakkavasa Jóhanns dómkirkjuprests háaldraðs eins og pabbi okkar fékk á sama aldri úr hempuvasa hans, og óskir um blessun Guðs fylgdu þeim báðum. Hann týndist á Landspítalatúninu og afi okkar fann hann í Gróðrarstöðinni við að kaupa blóm handa mömmu sinni.
Svo fluttust þau þrjú á Grundarstíg og bjuggu á efstu hæð í Verslunarskólanum. Það var fádæma gaman. Á hverjum degi kom fólk í heimsókn til að borða með okkur eða drekka kaffi í kontórnum eða borðstofunni eða eldhúsinu og það voru bakaðar lummur og sódakökur og eldaður matur sem líður ekki úr minni. Mamma okkar og frænkur okkar Tobba, Bogga og Ása voru meistarakokkar og þær frænkur okkar vörpuðu öryggi og gleði yfir okkur í kapp við foreldra okkar. Þeim fannst Krummi ekki beint leiðinlegur.
Bróðir minn, sem ég ætla að kappkosta að kalla Þór þótt ég hafi aldrei kallað hann annað en Krumma alla ævi mína, var sólarljós. Við systurnar vorum líka yndislegar eins og hann. Ég veit það af því að okkur var sagt það. Mamma okkar var innilega sannfærð um að hann væri ljóshærður þótt hann hafi margsannanlega verið svarthærður. Óli Johnsen var vinur hans úti í Esjubergi og Þorsteinn afi okkar orti um þá. Krummi krunkar úti í for, kann ekki að lesa í blaði. En Ólafur Johnson júníjor, jetur súkkulaði.
Ég hugsa að Krummi hafi líka étið súkkulaði í sveitinni, en hann var í sveit á Ljótsstöðum í Laxárdal og á Æsustöðum í Langadal. Hann var í miklu sambandi við fólk okkar fyrir norðan og líka hér í Reykjavík og í miklu vinfengi við föðrubræður okkar í Þingholtsstræti. Ég held ekki að hann hafi verið talinn afburða efnilegur til sveitastarfa. En hann fór strax að lesa þykkar bækur og fara prúðbúinn á revíur. Og þeir Óli Haukur sem bjó vestur á Melum tóku inntökupróf í Menntaskólann. Þeir voru 13 ára því þá var fólk sex ár í Menntaskólanum. Eftir inntökuprófin sátu þeir í eldhúsinu á Grundarstíg í lopasokkum og Óli Haukur sagði: Við bárum af eins og gimsteinar af gleri. En við féllum auðvitað. En það gerðu þeir ekki. Þeir komust inn og Þórunn amma í Þingholtsstræti sagði: Þú skalt ekkert vera að reyna að vera efstur, vertu svona um miðja bekk. En hvar í röðinni sem hann var í bekknum sínum varð hann afburðanemandi.
Samhliða Menntaskólanum vann hann við mælingastörf á sumrin í hópi Zófaníasar Pálssonar. Seinna vann hann í Útvegsbankanum og var blaðamaður á Morgunblaðinu.
Nýir vinir komu í hópinn í Menntaskólanum og þar varð til ómetanleg vinátta. X -bekkurinn naut virðingar sakir stærðfræðikunnáttu en virðingin breiddist um allan árganginn og vináttan varð enn dýpri eftir því sem árin urðu fleiri. Ári seinna í skólanum var Árni Gunnarssona frændi okkar frá Æsustöðum og þeir voru alltaf mikið saman. Og svo kom Ragnhildur. Ragnhildur Helgadóttir bekkjarsystir hans.
Okkur hinum á Grundarstíg þótti framúrskarandi skemmtilegt að hún skyldi koma til okkar og pabbi sagði við kvöldmatinn: Því engin rós er fegurri né rjóðari en sú rós sem Ragnhildur á Kleppi ber á vanga. Þau höfðu hist fyrir löngu. Það var í jólaboðum vestur á Sólvallagötu hjá Kristni og Þóru sem var systir mömmu og vinkona foreldra Ragnhildar, þeirra Kristínar Bjarnadóttur húsfreyju og doktor Helga Tómassonar yfirlæknis á Kleppi. Þór var sex ára og stóð bak við hurð og Ragnhildur var beðin að bjóða honum að leika sér með krökkunum. En hann sagðí: Leik ekki við stelpur.
Ragnhildur og Þór giftu sig hinn 9. september 1950. Þau bjuggu uppi á lofti á Kleppi, og svo á Laugavegi 66 í timburhúsi bakatil þar sem Bjarni afi Ragnhildar hafði búið . Móðursystur hennar tvær bjuggu á neðri hæðinni, frú Maren og fröken Ólafía. Þór varð uppáhald fröken Ólafíu en það sæti gaf hún ekki hverjum sem var. Það var gott að búa með þeim því nú hófst margbrotið ævistarfið eins og séra Helgi Hálfdánarson langafi Ragnhildar orti í sálmi sínum, að lærdómstími ævin er, vinnutími, reynslutími og náðartími.
Frá Laugavegi fluttu þau í Álfheima og þess vegna höfum við útför Þórs héðan, af því Langholtskirkja var sóknarkirkja þeirra og eldri börnin gengu hér í barnaskóla, og af því að hér vappaði Ragnhildur í holtinu þegar hún var barn og bjó á Kleppi. Frá Álfheimum fluttu þau í hús sitt í Stigahlíð og fluttu svo í Miðleiti eftir að hafa búið í níu ár í útlöndum. Þau dvöldust fyrst um tíma með börnum sínum í Noregi og bjuggu seinna í Sviss og Lúxembúrg og dvöldust í Strassborg, allt vegan dómarastarfa Þórs.
En þá voru börnin löngu vaxin úr grasi.
Þórunn er yngst. Svo er Kristín sem á Þóri Óskarsson og þau eiga Birnu sem á Ingólf og hin börnin eru Heimir og Heiður. Inga er næstelst. Hún á Stefán og þau eiga Ástu og Þór og Kolbein sem á Kristínu Steinunni Helgu.
Við misstum Ástu og Pino vinkonu hennar í slysi í fyrrasumar. Þá varð enn ljósara en fyrr að það er undirstaða lífsins að eiga gott fólk að og fá að treysta Guði. Nú megum við vera þess fullviss að þau , Ásta og afi hennar, sem alltaf dáðu hvort annað og hlustuðu á Wagner og töluðu um lögfræði hafa nú hist og glaðst saman,. Elsta barn Þórs og Ragnhildar er Helgi. Hann á Guðrúnu Eyjólfsdóttur og þau eiga Ragnhildi sem á Halldór og þau eiga Berg, Sóleyju og Hlín. Helgi og Guðrún eiga líka Svönu sem á Brynjar og þau eiga Helgu Björgu, Ragnhildi Sunnu, Birtu Guðrúnu og Dag.
Seinni hluti
Þór tók stúdentsspróf frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1949 og fór til hagfræðináms í St. Andrews í Skotlandi. Hann hætti því námi og las lögfræði við Háskóla Íslands og lauk lagaprófi 1957. Svo las hann ríkisrétt í New York og Kaupmannahöfn. Hann varð fulltrúi hjá borgardómaranum í Reykjavík og borgardómari og hann var stundakennari og lektor og prófessor við lagadeild Háskóla Íslands. Honum þótt alltaf mikið koma til nemenda sinna og þegar hann hætti kennslu sá hann mest eftir þeim. Hann skrifaði kennslubækur og ritgerðir og greinar um lögfræði og var ritstjóri Tímarits lögfræðinga. Hann var formaður félags háskólakennara og bygginganefndar Lögbergs og Lögfræðingafélags Íslands. Hann var upplýsingafulltrúi Evrópurráðsins á Íslandi í nokkur ár.
Hann varð hæstaréttardómari árið 1976. Samhliða því gegndi hann dómarastörfum við Mannréttindadómstól Evrópu í Strassborg sem hann hafði verið kjörinn til 1971. Árið 1994 varð hann dómari við EFTA dómstólinn í Genf sem var stofnaður það ár. Þau Ragnhildur fluttu þá til Genfar og svo til Lúxemborgar þegar dómstóllinn flutti þangað. Hann lét af störfum árið 2002.
Hann tók þátt i starfi Sjálfstæðisflokksins frá unglingsárum þar til hann varð hæstaréttardómari og aftur eftir að hann lét af störfum. Hann var formaður Sambands ungra sjálfstæðismanna og varaborgarfulltrúi í Reykjavík og áhugamaður um vestræna samvinnu og einn framgöngumanna undirskriftasöfnunar Varins lands.
Hann gegndi fleiri trúnaðarstörfum í tengslum við störf sín og áhugamál. Hann var sæmdur riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu og stórriddarakrossi.
Hann bar djúpa virðingu fyrir samstarfsfólki sínu og fagnaði vináttu þess hvar sem hann starfaði. Margt það fólk tilheyrði þeim Ragnhildi báðum,
Skúli Magnússon héraðsdómari skrifar:
Á slóðum EFTA-dómstólsins í Lúxemborg var Þór þegar orðinn goðsagnapersóna þegar ég starfaði þar 2007-2012. Forsæti hans hafði mikil áhrif á sjálfsmynd íslenskra lögfræðinga erlendis, meðal annars á mig sjálfan. Af Þór lærðum við, a.m.k ég, þá reglu að biðjast aldrei afsökunar á sjálfum sér í samskiptum á alþjóðavettvangi heldur ætlast til virðingar með sama hætti og fulltrúar annarra þjóða eða stofnana. Í Lúxemborg voru sagðar ýmsar sögur af Þór, sumar gamansamar, en eftir stóð djúpstæð virðing, enda var hann án vafa sá forseti EFTA-dómstólsins sem kom dómstólnum á kortið í Lúxemborg. Hans verður minnst sem stórmennis, bæði þar og annars staðar. Sjálfur mun ég einnig minnast hans fyrir einstaka háttvísi, hlýju og fíngert skopskyn.
Forseti Efta dómstólsins, Carl Baudenbacher og Doris kona hans senda hingað samúðarkveðjur, til Ragnhildar og okkar allra.
Við sem vorum með bróður mínum daglega minnumst hans fyrir gæsku hans og ævinlega hjálpsemi. Og fyrir ræktarsemi hans við okkur öll. Það var aldrei neitt nema gott sem kom frá honum, segir systir okkar og segir að þegar hann fékk fyrsta kaupið sitt, kannski var hann þá sendill í Útvegsbankanum, keypti hann napólenskökur handa okkur öllum heima á Grundarstíg. Börn hans minnast þess að hann keypti jólagjafir handa öllum krökkunum í allri stórri fjölskyldunni og að hann fór í mörg hús og kvaddi áður en hann fór til að vera lengi í burtu.
Við minnumst hans öll fyrir fyndni hans og fyrir ást hans á lífinu. Ragnhildur og börnin þeirra og tengdabörnin og barnabörnin segja frá því hvað honum þótti gaman þegar einhver gerðu eitthvað sem var verulega gott. Þess vegna þótti honum svo gaman að fara á veitingahús þar sem var eldaður framúrskarandi matur og líka að elda sjálfur. Og þess vegna þótti honum svo gaman að lesa góðar bækur og skemmtilegar bækur sem hann gat hlegið og hlegið yfir og sagt frá. Og þess vegna þótti honum svo gaman að fara á Óperubíó og fara alla leið til Bayreuth til að hlusta á Wagner. Hann var fremstur í stuttum símtölum eins og þessu: Talar Halldór þýsku? Nei. Símtali lokið. Þegar ung kona bættist í fjölskylduna og kom í fyrsta sinn á heimilið gekk hún beint til Þórs og settist hjá honum og fann að í þessum manni átti hún traust.
Börnin hans rifja það upp þegar hann gekk með þeim litlum frá Stigahlíð í Starhaga til afa þeirra og ömmu yfir Vatnsmýrina og oní djúpa skurði og uppúr þeim, þegar þau fóru í tjaldferðir í Landmannalaugar og margar fleiri ferðir og hvað hann var mikill ferðamaður hér og í útlöndum. Hann fór með þeim í Hagavík til að skoða fugla og þau lágu á maganum með kíki til að sjá spóa og jaðrakana. Þau Ragnhildur ferðuðust með þeim um norsk fjöll í dvölinni í Noregi og hann sagði þeim sögur sem tengdu þau við landslagið, sögur um landnámsmenn og Þormóð Torfason því hann var áhugamaður um sagnfræði með óbrigðult minni.
Og þau segja hvað hann annaðist þau í hversdögunum. Þegar hann gaf þeim nýsoðnar kartöflur og reykta síld áður en þau fóru í skólann og samlokur í dagsferðum, og boeuf bourguignon og eplatertu með apríkósumauki í kvöldverðum. Þegar hann vaknaði enn fyrr en árrisul barnabörnin og beið með morgunmat og einu sinni bauð hann þeim í hafragraut á Grillinu Og hann kom inn í afmælisboð á þríhjóli afmælisbarnsins og vakti undrun og aðdáun smávaxinna gestanna.
Þau minnast þess að hann sagði þeim að þegar þau færu í boð skyldu þau undirbúa sig fyrir samtölin svo að þau hefðu eitthvað lúftigt að segja en ekki bara eitthvað hversdagslegt.
Þegar þau lögðu fyrir hann vandamál sín sagði hann að það yrði ekki komist hjá þeim, en þau skyldu ekki láta þau stoppa sig. Þau skyldu halda áfram og ef þeim fyndust verkefnin mikils virði skyldu þau finna aðrar leiðir og kannski gætu þau fundið annað fólk til að vinna þau með. Þau skyldu ekki setjast að í mótlætinu heldur mæta því með því að gera það sem gleddi þau og hugsa hugsanir sem væru þeim til góðs. Við skulum einfalda þetta, sagði hann, og svo skulum við koma og gera eitthvað skemmtilegt.
Öll þessi afstaða til lífsins er guðsgjöf, náðargáfa og skapgerðareinkenni. Hann hélt andlegu atgervi til síðustu daga og lífsafstaða hans og öll ævi hans er huggun í söknuðinum. Hann átti ákveðna og ígrundaða gleði. Ég held að hann hafi fengið hana í arf frá fólkinu sínu og lært hana enn betur með Ragnhildi sem erfði hana líka frá sínu fólki. Þau Ragnhildur gegndu annasömum störfum, hún á alþingi og ráðherrastóli og þau öll þar heima voru alltaf samtaka um að meta gleði lífsins og mátt fjölskyldunnar. Við sáum öll að allt átti hann Ragnhildi að þakka eins og hún honum á 65 ára samferð. Það var svo augljóst að ekki þarf frekar að lýsa því.
Við erum komin hingað til að kveðja Þór. Í dag sem alla daga felum við hann Guði. Hann sagði frá því þegar við fórum í jarðarför góðrar vinkonu þeirra Ragnhildar sem var trúuð kona í KFUK. Séra Bjarni sagði í upphafi: Guð, við þökkum þér fyrir þessa gleðistund. Og fólk hugsaði að nú væri hann farinn að ruglast. En það var ekki. Hann sagði að við skyldum gleðjast yfir upprisunni til eilífs lífs og yfir upprisukraftinu í hverjum degi lífsins.
Það gerum við í dag. Við þökkum þér Guð fyrir alla gleðina sem þú gafst Þór á hverjum einasta degi og gleðina sem hann gaf okkur. Við treystum því að við höfum líka orðið honum til gleði.
Guð, við þökkum þér fyrir þessa gleðistund. Amen