Upplýsingar

Prédikun Arndísar Linn flutt í Grensáskirkju, 13. mars 2016

Markúsarguðspjall 15 kafli 33 – 40

33Á hádegi varð myrkur um allt land til nóns. [3]

34Og á nóni kallaði Jesús hárri röddu: „Elóí, Elóí, lama sabaktaní!“ Það þýðir: Guð minn, Guð minn, hví hefur þú yfirgefið mig?
35Nokkrir þeirra er hjá stóðu heyrðu þetta og sögðu: „Heyrið, hann kallar á Elía!“ 36Hljóp þá einn til, fyllti njarðarvött ediki, stakk á reyrstaf og gaf honum að drekka. Hann mælti: „Látum sjá hvort Elía kemur að taka hann ofan.“
37En Jesús kallaði hárri röddu og gaf upp andann.
38Og fortjald musterisins rifnaði í tvennt, ofan frá og allt niður úr.
39Þegar hundraðshöfðinginn, sem stóð gegnt honum, sá hann gefa upp andann á þennan hátt sagði hann: „Sannarlega var þessi maður sonur Guðs.“
40Þar voru og konur álengdar og horfðu á, meðal þeirra María Magdalena, María, móðir þeirra Jakobs yngra og Jóse, og Salóme. 41Þær höfðu fylgt honum og þjónað er hann var í Galíleu. Þar voru margar aðrar konur sem höfðu farið með honum upp til Jerúsalem.

Kæru vitni

Já ég segi kæru vitni – því hér áðan urðuð þið vitni að krossfestingu Jesú þegar ______________las úr lokum Markúsargupsjalls.

Helsta hátíð kristinna manna er rétt handan við hornið. Dymbilvikan hefst á Pálmasunnudag eftir viku og á hverju ári rifjum við upp þessa örlagaríku sögu. Grundvöll trúarinnar. Söguna af því hvernig Jesú var fagnað og hann hyltur þegar hann reið á Asna inní Jerúsalem. Hvernig hann kallaði lærisveina sína saman til síðustu kvöldmáltíðarinnar og þvoði fætur þeirra. Hvernig hann var svikinn. Við rifjum upp hvernig vikan endaði með handtöku, húðstrýkingu, og krossfestingu.

Við urðum vitni að því áðan hvernig Jesús gaf upp andan. Myrkur grúfði yfir öllu, fortjald musterisins rifnaði og til hliðar stóðu vitnin, einu raunverulegu vitnin sem sagt er frá. – tókuð þið eftir því hver þau voru? Síðustu tvö versin, segja frá konunum sem stóðu álengdar nær og horfðu á. Konunum sem höfðu fylgt og þjónað Jesú. Við heyrðum lesið: Í Markúsargupsjalli segir:

40Þar voru og konur álengdar og horfðu á, meðal þeirra María Magdalena, María, móðir þeirra Jakobs yngra og Jóse, og Salóme. 41Þær höfðu fylgt honum og þjónað er hann var í Galíleu. Þar voru margar aðrar konur sem höfðu farið með honum upp til Jerúsalem. „

Það er svo óendanlega merkilegt að öllum fjórum guðspjöllum Biblíunnar, Mattheusar- og Markúsarguðspjalli, Lúkasar og Jóhannesargupspjalli ber saman um, að konur hafi gengt lykilhlutverki við krossfestingu, dauða og upprisu Jesú.

Reyndar ber guðspjöllunum ekki algerlega saman um hvaða konur fylgdu Jesú en víst er að það voru konur. Konur sem fylgdu Jesú frá upphafi, voru viðstaddar dauða hans og fylgdust með þegar Jósef frá Arimeíu lagði Jesú í hogginn helli til hinstu hvílu.

KONUR SEM VORU VITNI

Staðreyndirnar um allar þessar konur á þessum merkustu tímamótum í allri veraldarsögunni eru á margan hátt sérkennilegar enda hefur sannleiksgildi frásagnanna oftsinnis verið dregið í efa.

Í bók sinni um Maríu Magdalenu ræðir sr. Þórhallur Heimisson um þá staðreynd að eingöngu konur hafi verið vitni að atburðum. Hann segir:

,, Á þessum tíma voru konur ekki vitnisbærar og þess vegna er það sterk vísbending um sannleiksgildi frásagnanna að einmitt konur bera vitni. EF sagan hefði ekki verið þekkt meðal hins kristna safnaðar, þá er miklu líklegra að rithöfundurinn, sem kallaður er Markús, hefði látið Pétur eða einhvern af hinum karlkyns lærisveinum bera vitni að því sem fram fór. Það sama á við ef sagan hefði verið skálduð frá rótum af lærisveinunum eins og sumir hafa haldið fram . Sennilegast er að því megi slá föstu  að rithöfundurinn hafi orðið að hafa söguna einmitt svona af því að eimitt  þannig hafði hún verið sögð og þannig hafði hún gerst. „ tilvitnun lýkur.

Hin frægi guðfræðingur og lykilfeminsti Schlussler Fiorenza færir rök fyrir því að þessum hópi kvenna sé lýst sem sönnum lærisveinum á meðan hinir eiginlegu 12 útvöldu séu það ekki.  Á þessum tímapunkti í sögunni voru karlkyns lærisveinarnir líka á bak og burt – Það segir frá  því í kaflanum á undan – Skírt og skorniort segir Biblían:  50Þá yfirgáfu allir lærisveinarnir (þ.e. karlmennirnir) Jesú og flýðu.

OG Konurnar urðu líka vitni eftir dauða Jesú. Textinn sem oftast er lesinn í Kirkjum landsins á Páskadag gerist í framhaldi af þeim sem við heyrðum áðan. Í honum heyrum við konurnar koma aftur að gröfinni: á Páskadagsmorgun:

1Þá er hvíldardagurinn var liðinn keyptu þær María Magdalena, María móðir Jakobs og Salóme ilmsmyrsl til að fara og smyrja hann. 2Og mjög árla hinn fyrsta dag vikunnar, um sólarupprás, koma þær að gröfinni.3Þær sögðu sín á milli: „Hver mun velta fyrir okkur steininum frá grafarmunnanum?“ 4En þegar þær líta upp sjá þær að steininum hafði verið velt frá en hann var mjög stór. 5Þær stíga inn í gröfina og sjá ungan mann sitja hægra megin, klæddan hvítri skikkju, og þær skelfdust.
6En hann sagði við þær: „Skelfist eigi. Þér leitið að Jesú frá Nasaret, hinum krossfesta. Hann er upp risinn, hann er ekki hér. Sjáið þarna staðinn þar sem þeir lögðu hann. 7En farið og segið lærisveinum hans og Pétri: Hann fer á undan yður til Galíleu. Þar munuð þér sjá hann eins og hann sagði yður.“
8Þær fóru út og flýðu frá gröfinni því ótti og ofboð var yfir þær komið. Þær sögðu engum frá neinu því þær voru hræddar. Tilvitnun lýkur.

Þarna eru þær ENNÞÁ, konurnar – lykilvitni eins og sagt er í réttarsölum – skjálfandi á beinunum, hræddar við engilinn, dauðann og sérkennileika upprisunnar. Og við heyrum að þær voru hræddar við að segja frá. En þetta voru staðfastar konur. Þær höfðu staðfastlega fylgt Jesú og í fyllingu tímans urðu þær líka nógu staðfastar til að segja frá upprisunni – enda væri kristin kirkja í heiminum varla til ef ekki hefði verið fyrir vitnisburð þessara kvenna.

Hlutverk kvenna er ekki bara viðamikið við píslarsöguna heldur er það  viðamikið í öllu Markúsarguðspjall. Markúsarguðspjall er elsta guðspjallið – það fyrsta sem var skrifað. Á þeirri staðreynd byggir Schlusser Fioreza þá ályktun sína að hlutverk kvenna í guðspjallinu sé vitnisburður um, að í eðli sínu hafi fyrstu kristnu samfélögin verið byggð að jafnrétti og jafnri þátttöku beggja kynja í uppbyggingu og boðun samfélagsins. Já, Konur og Karlar voru jöfn í fyrstu kristnu söfnuðunum. Konur voru frá upphafi boðberar fagnaðarerindisins þó skipulagður valdastrúktúr feðraveldis kirkjunnar hafi í tímanna rás leitast við að gera lítið úr vitnisburði þeirra. En Það var ekki hægt – það var enginn annar til frásagnar !

Já, Kæru vitni,

Páskadagsmorgun boðar okkur nýja og óvænta hluti.  Grundvöll trúarinnar. Að leggja traust á frásögn upprisunnar er að  eignast hugrekki til að lifa í trú. Þegar við horfum á lífið út frá trú upprisunnar, frá því sjónarhorni að kærleikurinn sigri alltaf að lokum – sama hvað,

þá verðum við líka vitni að óendanlega merkilegum atburðum bæði í okkar eigin lífi og annarra. Og við erum kölluð til að bera þeim  atburðum vitni – jafnvel þó við séum stundum hræddar við viðbrögð umheimsins. Því við erum öll boðberar fagnaðarerindis páskanna – Jesús er upprisinn – hann lifir ! AMEN.

Í fyrstu morgunskímunni var hvorki von, né eftirvænting. Eina sem var eftir var vonbrigði og örvænting. Samt gerðist kraftaverkið, trú manna getur áorkað miklu en ekki þessu. Vantrú manna getur hindrað margt en ekki þetta. Þakka þér Guð fyrir að raunveruleg von hér í heimi er ekki háð því sem ég fæ áorkað, vonað eða séð fyrir. Mátturinn er þinn, ekki manna. Amen (Caroline Krook)