Upplýsingar

Það er svo gott að hittast aftur eftir sumarið. Það er yndislegt að sjá ykkur allar. Nú söfnumst við saman eftir sumarið eftir að hver okkar hefur gert eitt og annað skemmtilegt.

Ég fór að huga að textum sem töluðu um að safna okkur saman. Það eru margir miklir textar í Biblíunni sem segja frá eilífri ást Guðs sem alltaf alltaf safnað fólki sínum saman. Til sín. Heim til sín. Sigga las stuttar greinar úr frásögunni um heimkomuna frá Egyptalandi um 1300 fyrir Krist. Þegar Guð safnaði fólkinu úr þrældómnum og úr 40 ára eyðimerkurgöngunni og gaf því land til að búa í. Og þegar Guð safnaði fólkinu úr herleiðingunni í Babýlon 800 árum seinna eða um 500 fyrir Krist. Ég bað hana ekki að lesa textann úr Opinberunarbókinni en vitna í hann núna, um það að Guð safnar fólki sínu á efstu dögum eftir þrenginguna miklu og gerir allt nýtt, nýjan himin og nýja jörð..

Þetta er allt frásögur um heimkomu eftir þrengingar. En ég ætlaði að finna frásögu af því þegar Guð safnaði fólki sínu saman eftir góðan tíma til að gefa því gleðina af að hittast með alla þessa hamingju í huganum. Það er frásagan úr Markúsarguðspjalli sem Sigga las síðast. Um það þegar vinkonur og vinir Jesú komu aftur eftir að hafa verið úti um hvippinn og hvappinn við að boða fagnaðarerindið og hittust nú aftur til að segja frá og gleðjast.

En eins og við segjum alltaf hver við aðra: Við skulum alltaf minnast erfiðleika okkar um leið og við þökkum fyrir gleði okkar. Af því að erfiðleikarnir koma til okkar allra og við hittumst í Kvennakirkjunni okkar til að hjálpa hver annarri til að komast í gegnum þá. Til að komast aftur út í gleðina og meta hana enn meira af því að við vissum hvernig það var þegar við fundum minna til hennar. Við komum aldrei saman til að gleyma erfiðleikunum stutta stund heldur til að hjálpast að við að horfast í augu við þá og finna lausnir. Og gleðjast enn og aftur.

Hvernig líður þér nú í kvöld? Hvernig líst þér á morgundaginn og alla dagana framundan þegar haustlaufin verða ennþá einu sinni svo marglit og falla svo á jörðina. Og þegar kvöldin verða dimmari og morgnarnir líka? Ég vona að þú gleðjist yfir þessu öllu. Og yfir uppskerunni sem við höfum í huga í kvöld, yfir kartöflunum og sultunni og gleðinni af því að fá að njóta þess sem haustið gefur okkur.

Ég skrifaði í Fréttabréfið um þvottinn af snúrunum. Ég hugsaðí að við værum eins og dúkarnir og lökin sem við tökum inn og brjótum saman og setjum á sinn stað og notum og njótum. Svona komum við inn til sjálfra okkar eftir sumarið. Og hver til annarrar og til Guðs. Hennar sem við vorum hjá í allt sumar og erum alltaf hjá. Hún tekur okkur inn til sín, inn í húsið sitt, inn af snúrunum sem hún á sjálf, úr sólinni og sumarþeynum og rigningarskúrunum sem hún á líka. Eins og hún á okkur. Það er yndislegt. Öruggt og sneisafullt af gleði sem dreifist um dagana. Við skulum bara njóta hennar. Því það gerir okkur enn glaðari.

Ég ætla að segja okkur örsögu af gleði sumarsins. Ein okkar sagði mér hana af lítilli sex ára stelpu. Litla stelpan settis ábúðarfull hjá henni og sagði: Segir þú túmatur eða tómatur? Ég segi túmatur , sagði vinkona okkar. Þú átt að segja tómatur, sagði sex ára stelpan. Og ég óska eftir því að þú takir upp málfar siðmenntaðs fólks.

Ég er að segja okkur þessa sögu til að minna okkur á skemmtileg samtöl sem við höfum sjálfar átt í sumar, og til að vera inngangur að spurningunni sem mig langar svo til að leggja fyrir okkur í kvöld. Hún er þessi:

Þegar haustið er nú komið til okkar og veturinn bíður okkar, finnst þér þú þá lifa verulega siðmenntuðu lífi?

Ég færi þetta í tal við okkur af því að í rauninni mun allt líf okkar í vetur snúast um að finna góðan takt í dögunum. Eins og alltaf. En á kaflaskilum eins og haustinu er svo gott að takast tali um það og gera það að dýpri umhugsun en venjulega.

Það eru kenndar aðferðir til að lifa siðmenntuðu lífi. Þær eru einfaldlega þær að lifa siðmenntuðu lífi. Þú lifir siðmenntuðu lífi með því að lifa siðmenntuðu lífi. Vertu eins og manneskja. Vertu eins og aðrar manneskjur. Talaðu mátulega, vertu í penum fötum, vertu bara pen og mátuleg. Það er sálfræðingur á síðustu öld sem heitir Joseph Wolpe sem fann upp aðferð sem heitir behavior therapy eða atferlismeðferð og kennir að við getum sléttað órólegar hugsanir okkar með því að lifa siðmenntuðu lífi. Hann sá nefnilega að dýrin mótast af umhverfinu og þá er það líklegt að við gerum það líka.

Ég held að þetta sé alveg satt og ég hugsa að við finnum hvað það eru góðir dagar þegar við álpumst ekki til að gera eitt og annað asnalegt sem getur svo vakið okkur á nóttinni.

Einhverjar svona aðferðir hafa alltaf verið í gangi. Lifðu bara siðmenntuðu lífi. Fyrir 5000 árum var kóngur í Mesópótamíu, eða Babýlon, þangað sem Ísraelsfólkip var herleitt seinna eins og við sögðu frá. Kóngurinn hét Gilgames. Hann skrifaði kvæði sem er kallað eftir honum og segir frá því þegar hann fór af gefnu tilefni að leita að ódauðleikanum. Hann kom við á gistihúsi eða skemmtistað á leiðinni og gyðjan Siduri afgreiddi við barborðið. Góði vertu ekki að þessu, sagði hún við Gilgames. Guðirnir halda ódauðleikanum bara fyrir sig. Lifðu nú bara siðmenntuðu lífi. Farðu í bað og þvoðu á þér hárið og farðu í hrein og þægileg föt. Og talaðu við litla barnið sem heldur í hendina á þér og gerðu konuna þína hamingjusama.

Mér finnst þetta líka afskaplega gott. Og einmitt það sem við skulum segja hver annarri í haustinu. Með gleðinni yfir haustdögunum með nýju kartöflunum og sultunni til vetrarnir og ilmandi tauinu af snúrunum. Vertu bara pen. Ekki klúðra dögunum.

Nema bara það að við höfum miklu, miklu meira að segja hver annarri.

Það er þetta. Í kvöld eins og alltaf:

Við erum ekki bara í okkar höndum. Við erum í okkar höndum í höndum Guðs. Það er í trúnnni á hana sem við eignumst trúna á sjálfar okkur, aðrar manneskjur og lífið. Og ekki heldur hún ódauðleikanum fyrir sig. Hún kom sjálf og gaf okkur eilíft líf. Hún reisir okkur upp á efsta degi fyrir upprisa Jesú. Og hún gefur okkur upprisumáttinn á hverjum einasta degi.

Við skulum vera penar. Við skulum leggja okkur fram um að klúðra ekki lífinu. En við gerum það samt alltaf, og okkur finnst við oft og einatt verulega ópenar og ópassandi þótt engum öðrum finnist það. Mátturinn til að strauja okkur og verða aftur sléttar og penar og á réttum hillum skreppur alltaf úr höndum okkar. Og hvað gerum við þá? Við reynum bara aftur og það gengur bara betur næst.

Nei, það er ekki svoleiðis. Við eigum meira en okkar mátt. Við eigum mátt Guðs, upprisumátt frelsara okkar. Það er máttur fyrir utan sjálfar okkur. Við þurfum bara að biðja um hann. Og taka á móti honum. Aftur og aftur, og aftur og aftur. Við klúðrumst alltaf aftur. En við fáum máttinn alltaf aftur.

Það er þess vegna sem við megum vera svo himinlifandi glaðar í haustinu með uppskerunni og litunum í laufinu og lampaljósunum í kvöldunum. Og vita að gleðin kemur aftur þótt hún hverfi stundum. Af því að við erum vinkonur Guðs. Og hún ræður öllu og elskar okkur. Hún tekur okkur inn af snúrunum, ferskar og ilmandi og setur okkur á rétta hillu.

Ekki meira í kvöld. En meira næst. Njótum lífsins. Gleðjumst og fögnum. Við erum mildar og máttugar af því að við erum vinkonur Guðs. Takk. Amen.