Upplýsingar

Þetta er hugleiðingarstund á undan predikuninni og ég ætla að biðja okkur að hugleiða það hvernig okkur líður þegar haustið byrjar. Ég ætla að segja okkur tvær sögur.

Einu sinni fór ég í boð. Þar var svo fínt fólk og talaði svo mörg tungumál að þótt mér fyndist ég prúðbúin og glaðbeitt þegar ég fór að heiman fannst mér lítið til um klæðnað minn og tilveru innan um þau. Ég varð fegin að komast heim.

Hin sagan er svona: Einu sinni fór ég í annað boð. Ég fór ekkert prúðbúin en samt fannst mér ég miklu fínni en hin. Þetta var smáundarlegt fólk af ýmum orsökum og sagan gæti verið svoleiðis að þau hafi verið svo góð og skemmtileg sem hin voru ekki. En það var ekki svoleiðis.

En mér fannst ég hins vegar bera ögn af þeim og strax á leiðinni út í fór ég að skammast mín afskaplega fyrir það. Ég fór líka að sjá að ég mátti taka þessu öllu rólega, þetta var bara alla vega fólk sem var ekkert að hugsa um það hvernig ég leit út eða hvað ég sagði. Það var ekkert að hugsa um mig og var alveg sama um mig og ég átti ekki að vera svona upptekin af sjálfri mér.

Ég sagði svona við Guð: Mikið ertu alltaf dásamleg að gefast ekki upp á mér. Þótt ég hugsi svona kolómögulegar hugsanir og sé svona upptekin af sjálfri mér og ætli aldrei að losna við það. Og mér þótti Guð segja við mig: Ég skil þig. Ég var oft í boðum þar sem fólki var alveg sama um mig. Og þá sagði ég við vinkonu okkar Guð: En þú varst samt alltaf með alla vega fólki og lést það ekki finna það þótt þú bærir í alvörunni af því eins og þú gerðir alltaf.

Og þá þótti mér Guð segja: Nei, en ef þig langar að skipta um hugsanir og þiggja mínar þá skal ég hjálpa þér til þess.

Þetta var hugleiðingin. Hún er um þetta: Hvernig getum við losnað við vitlausar hugsanir um sjálfar okkur? Má bjóða þér nýjar hugsanir frá Guði?

Og þá kemur predikunin:

Hún er um það fá nýjar hugsanir um okkur sjálfar frá Guði. Við höfum fengið margar. Og notað þær dag eftir dag. Það er afar hjálplegt að fá að vera þar sem við finnum að fólki er alls ekki sama um okkur heldur þykir vænt um okkur. Eins og þegar við hittumst hérna í Kvennakirkjunni, eins og í kvöld, þegar við hittumst eftir sumarið og segjum hver annarri svo margt sem gerðist í sumar. Þegar við hittumst til að vera saman hjá Guði fáum við nýjar og góðar hugsanir hennar og berum þær með okkur út til annars fólks. Þá sjáum við að við getum vel unað því að vera bara hluti af hópum sem eru alla vega og þurfum ekki að vera svo uppteknar af sjálum okkur að okkur líði illa af því.

Við búum til guðfræði saman. Smátt og smátt búum við til flotta guðfræði og notuma hana í haustum og vorum og tímunum þar á milli. Við höfum skrifað að við játum trú á Guð sem kom og var Jesús og er heilagur andi sem vekur okkur með kossi á hverjum morgni. Við höfum skrifað að þegar við tölum um Guð tölum við um lífið og þegar við tölum um lífið tölum við um Guð. Við höfum skrifað að við skulum taka lífið í okkar hendur og treysta því að utanum okkar hendur séu hendur Guðs. Við höfum skrifað að það sé í trúnni á Guð sem við fáum trú á sjálfar okkur, annað fólk og lífið. Við höfum skrifað að það sé í Orðinu sem við finnum ráðin sem gilda í hversdeginum.

Kristín las síðustu orðin í Fjallræðunni. Um að við skulum byggja á orði Guðs. Engu öðru. Bara því. Og í Fjallræðunni sagði Jesús hvort tveggja, að hann væri uppspretta eilífs lífs og daglegs lífs. Hann gaf mörg gullgóð ráð og við skulum hafa yfir fimm af þeim. Við skulum fara með þau heim og halda áfram að æfa okkur í þeim.

Ráð eitt: Gefðu Guði rými í hjarta þínu og ekki láta fáránlegt drasl safnast þar saman.

Ráð tvö: Vertu hógvær og ekki verða reið yfir litlu.

Ráð þrjú: Berstu fyrir réttlætinu þar sem þú getur.

Ráð fjögur: Sækstu ekki eftir því að líta vel út í augum annarra.

Ráð fimm: Æfðu þig í að sjá það sem er mikilvægt svo að þú sækist eftir því.

Og nú skulum við taka nýtt skref í góðri og fallegri guðfræði okkar. Það er svona: Sökkvum okkur niður í ást Guðs. Við skulum ekki sökkva okkur niður í okkur sjálfar. Við skulum sökkva okkur í ást Guðs.

Ég heyrði mann segja í útvarpið að heimurinn myndi breytast ef nógu margt fólk sökkti sér niður í sjálft sig í tuttugu mínútur á dag. Ég held ekki að það sé nóg að við sökkvum okkur niður í sjálfar okkur á hverjum degi. Það er miklu betra að við sökkvum okkur niður í ást Guðs á hverjum degi. Af því að það er þar sem við finnum okkur sjálfar. Það er þar sem við sjáum að við erum mildar og máttugar.

Nú skulum við æfa okkur. Guð býður okkur ást sína. Hún gefur okkur hana og hún umvefur okkur með henni. Við getum sökkt okkur niður í hana reglulega á hverjum degi eða við getum látið hana streyma um okkur allan daginn eða við getum gert hvort tveggja. Þegar við sökkvum okkur niður í sjálfar okkur reiðum við okkur á mátt sjálfra okkar. En þegar við sökkvum okkur niður í ást Guðs reiðum við okkur á mátt hennar. Og það er miklu betra. Þú veist það alveg eins og ég. Innilega til hamingju með kristna trú okkar. Amen