Upplýsingar

Þess hefur verið óskað að við töluðum í kvöld um minni óró og meiri festu. Þess vegna tölum við í kvöld um minni óró og meiri festu. Ég veit þú veist að ég tala hvorki um landsmál né heimsmál af því ég skil þau svo illa. Samt gæti ég frekar talað um heimsmál en landsmál af því að heimsfólkið sem ég myndi trúlega hallmæla fyrir vitleysuna nær ekki til mín þótt það vildi hefna sín. En þótt ég talaði um landsmál og hallmælti öllum og þau fréttu af því myndu þau samt ekki hefna sín, held ég. Einfaldlega af því að það er alltaf verið að hallmæla þeim og þau geta ekki haft tíma til að hefna sín á öllum.

Ég get hins vegar, þegar ég gái að, sagt nokkur flott orð um heimsmálin, og geri það bara í byrjum: Það er allt að breytast í veröldinni. Þau eru um það að allt er að breytast í veröldinni. Auðmagnið og fátæktin skiptast ekki lengur milli norðurs og suðurs heldur skiptast þau í öllum löndum. Völdin skiptast líka í öllum löndum og alls staðar er barist um þau. Fólk flyst um heiminn og milli starfa og fjölskyldur breytast. Þetta ýtir allt undir fjarlægð frá kirkjunni og kristinni trú og önnur trúarbrögð sem flytjast nær verða kristnu fólki aðlaðandi. En þetta verður líka til að hvetja kirkjuna til að láta til sín taka við að boða sínu eigin fólki djúpa og þróttmikla kristna trú og til að verða til þjónustu í samfélögunum.

En þá sný ég mér að þér. Við hinar ætlum að hugsa um þig í kvöld. Eins og alltaf. Við ætlum að hugsa um það hvað þér finnist órólegt og hvaða festu þú vildir þiggja. Við getum hugsað um það af því að það er oft okkar daglega umhugsunarefni af því að við þurfum að hugsa um það. Og þótt það sé alltaf bráðnauðsynlegt að hugsa um heiminn fyrir utan okkur og við gerum það allar, þá er enn nauðsynlegra að hugsa um okkar eigin heim. Við þurfum að hugsa um hann þannig að við lokumst ekki inni í honum heldur sé hann bjartur og ljómandi og lýsi í kringum okkur. Eins og þú veist og eins og þú gerir.

En svo sem ég hef áður vitnað til þá vitnaði góði dátinn Sveik í manninn sem hann var með á geðveikrahælinu sem sagði að það væru til tveir heimar einn stór og einn lítill og heimurinn sem væri inni i litla heiminum væri miklu stærri.

Þetta er alveg satt, eða það held ég. Okkar eigin heimur er miklu stærri fyrir okkur sjálfar en heimurinn fyrir utan okkur. Hann skiptir miklu meira máli. Og það skiptir máli fyrir heiminn í kringum okkur að við höfum hönd í bagga með sjálfum okkur. Það skiptir okkur sem erum með þér svo miklu að þér finnist gott að vera í þínum heimi og rækir hann og ræktir. Því þú hefur alltaf svo mikil áhrif á okkur. Og þegar við sjáum þig rækja þinn heim og njóta hans þá rækjum við líka okkar heim og njótum þess sem er þar.

Svo ég ætla að bera fram nokkrar spurningar og fór niður í stofur okkar í Þingholtsstræti til að sækja eitthvað af leiktjöldunum sem við eigum þar í tágakörfunum. Ég sótti rauða og svarta tjullið okkar og vef það hérna í höndum mér, svart og rautt, dapurlegt og glaðlegt.

Spurningin er: Hvað finnst þér þú þola mikla óró í dögum þínum? Hugleiddu það aðeins stutta stund núna. Það er sem oftast einhver óró. Svo ég vitni einu sinni enn í manninn frá Húsavík, úr því ég fór að vitna einu sinni enn í góða dátann Sveik. Maðurinn frá Húsavík sagði: Það er alltaf eitthvað. Og ef það er ekki eitthvað þá er það bara eitthvað annað.

Finnst þér dagamunur á því hvað þú þolir mikla óró? Hefurðu hugmynd um af hverju það stafar? Eða gerir það bara ekkert til, þú verður bara að taka því sem gerist? Finnst þér þú eiga að sýna það eða fela það og hverjum áttu að sýna það sem óróar þig? Hugleiðum þetta nú aðeins.

Biblían er full af frásögum um fólk Guðs sem hafði sérstöðu hjá Guði og talaði við hana persónulega og heyrði hana fullvissa það um ævarandi ást sína. Samt þurfti það sífellt að mæta svo mikilli óró að það hálfa hefði verið nóg. Sumt þurfti að mæta allri þessari miklu óró vegna þess að það var þátttakendur í miklum atburðum sem gerðust í kringum það og það hafði ekkert með að gera en varð að standast til að hjálpa Guði til að leiða heiminn í allri þeirri óró sem heimurinn stofnaði sjálfur til. Mirjam var ein af þessu fólki og María Magdalena og María mamma Jesú. Og auðvitað Jesús, frelsari okkar, fyrst og fremst hann.

Og margt af því sem við mætum í lífi okkar er vegna einhvers sem gerist í kringum okkur og við höfum ekkert með að gera en verðum samt að standast til að hjálpa Guði.

Eða hvað segir þú um þetta? Finnst þér það sennilegt? Þetta dregur okkur aftur að því sem ég sagði í upphafi um heiminn inni í okkur og fyrir utan okkur og fær okkur kannski til að efast um að það sé rétt sem góði dátinn Sveik vitnaði í, að heimurinn inni í okkur væri stærri.

En ég held samt að hann sé það, stærri og mikilvægari fyrir okkur sjálfar. Og að það skipti miklu fyrir okkur hinar hvernig þú bregst við í þínum eigin heimi.

Svo nú skulum við leggja fram spurningu númer tvö. Fyrsta spurningin var svona: Hvað finnst þér þú þola mikla óró í dögunum? Spurning númer tvö er: Hvernig ferðu að því að mæta þessari óró?

Allt þetta hugleiddi ég dag og nótt þegar ég skrifaði bækur okkar Vináttu Guðs og Gleði Guðs. Þar vitnaði ég í fjöldann allan af konum og mönnum sem báru fram svo ljómandi svör. Ein þeirra er fræðikonan Susan Jeffers og önnur góða nornin Starhawk og þriðja er sálgreinirinn Karen Horney. Þær segja allar að við verðum að ná taki á hugsunum okkar. Konur sem stjórna hugsunum sínum stjórna lífi sínu, sagði Starhawk. Susan segir að ef drífum okkur ekki í að verða stjórnendur í lífi okkar verðum við fórnarlömb þess. Við eigum að fylla okkur valdi, ekki til að ráðskast með annað fólk, heldur einmitt til að hætta að láta okkur detta í hug að við þurfum nokkuð að vera að því.

Hættu að kenna öðrum um, sagði hún líka, og hættu að vænta þess af öðrum sem þú getur alveg gert sjálf. Bæði hún og Karen segja að við skulum ekki einblína á nokkur atriði í lífi okkar heldur tengja þau saman og sjá heildina. Gerðu allt vel, vertu heil í öllu, sjáðu það góða, veldu það sem þú vilt breyta. Þú ert verulega mikilvæg manneskja. Látum nú þetta setjast verulega vel að í hjarta okkar.

Þá kemur þriðja og næstsíðasta spurningin: Hvernig heldurðu að þú getir náð þessum tökum á lífi þínu? Svo að þú verðir ekki fórnarlamb heldur stjórnandi? Svo að þú ráðskist svo skemmtilega með sjálfa þig að þig langi aldrei til að ráðskast með annað fólk? Svo að þú sjáir margsamansett líf þitt eins og stóran og fallegan og saumlausan dúk, marglitan og undursamlega fallegan, tandurhreinan, nýkominn af snúrunum og nýstraujaðan á borðinu þínu?