Upplýsingar

Prédikun Arndísar Linn í jólaguðþjónustu Kvennakirkjunnar í desember 2017í Háteigskirkju.

Uppi á bláum boga, bjartar stjörnur glitra

Norðurljósin loga, leiftra, iða, titra

Jólaklukkur klingja, hvíta foldu yfir.

Hátíð inn þær hringja, hans sem dó en lifir. (AGJ)

 

Já jólahátíðinni hefur verið hringt inn. Steikinn er kólnuð, skrjáfið í umbúðapappírnum þagnað, kertin eru brunnin upp. Andrúmsloftið breytt. Eftir annasaman aðdraganda hefur helg og heilög kyrrð jólanna smám saman færst yfir. Henni fylgir ró, friðsæld, kannski tilfinning um að nú sé allt nokkurn veginn eins og það á að vera, eins og það ætti að vera – og hvert okkar vildi ekki halda í þessa tilfinningu eins lengi og við mögulega gætum – að allt yrði áfram svolítið fullkomið, afslappað, fyrirhafnarlaust, pínu himneskt.

En hvað er hún þessi upplifun sem við skynjum á jólum, upplifuna af að geta dregið djúp að sér andann og fundið ró, helgan frið og sanna gleði í hjartanu? Er hún kannski feginleiki yfir að aðdragandi jólanna sé loksins búin eða skynjum við að hún snúist um eitthvað meira og risti dýpra, snúist um einhvers konar leyndardóm – eitthvað sem er heilagt.

Hvað með þennan umtalaða dreng sem fæðist aftur og aftur og hefur breytt heiminu.

Komdu, Við skulum krjúpa saman við jötuna.  Hvað sjáum við?

Það er eins og tíminn stöðvist eitt augnablik þegar nýr einstaklingur fæðist í heiminn. Því fylgir undrun og lotning  yfir lífinu og skapara þess. Undrun og lotning yfir einhverju sem við náum ekki alveg utanum en skynjum að er mikilvægara en allt annað.

Og Þarna liggur hann, Jesús sjálfur og ilmar eins og ungabarn þrátt fyrir óþefinn í fjárhúsinu allt í kring. Það skín frá honum helg og hlý birtann þrátt fyrir myrkrið allt í kring.

Það var ekki pláss fyrir hann, ófæddann þetta fyrsta kvöld í gistihúsinu. Það hefur heldur ekki alltaf verið pláss fyrir hann í heiminum.

En í kvöld er allt öðruvísi – Skynjum við ekki að það er rými til að opna hjartað og bjóð honum inn?

Mannstu hvernig það er að halda á nýfæddu barni þínu, barnabarni, eða nýfæddum ættingja, og skynja að þú elskar þennan nýja einstakling svo sterkt að það nánast verkjar í brjóstið. Algjörlega án þess að þessi nýfæddi einstaklingur hafi gert nokkuð nema draga andann nokkrum sinnum. Skilyrðislaus ást sem krefst einskis.

Er það ekki þannig sem Guð elskar okkur, eins og við séum alltaf splunkuný? Óhikað, óhindrað, svo djúpt og átakalaust. Er það það sem við skynjum í boðskap jólanna?

Komdu með mér, við skulum skunda útí haga, þar eru hirðarnir og engillinn er mættur; Heyrðirðu hvað engill Drottins sagði, segir við okkur: Verið óhrædd, Verið óhrædd

Við óttumst svo margt, við mannfólkið. Jafnvel kærleikann sjálfan því við vitum að með ástinn tökum við áhættu. Ef við gefum okkur á vald kærleikanum njótum hans, skynjum hana og finnum fyrir honum í hverri einustu frumu líkamans þá getur hann líka valdið okkur hinum dýpsta sársauka. Ef ástin, kærleikurinn spillist, rofnar eða virðist hætta að vera til þá er það einfaldlega óskpalega vont.

Á sama hátt og fyrstu andardrættir barnsins færa okkur tilfinningu fyrir yfirþyrmandi kærleika færa síðust andardrættir þeirra sem við elskum okkur líka tilfinningu um yfirþyrmandi kærleikan sem breytist í nýstandi sársauka. En líka von – von um að kærleikurinn haldi áfram, sigri dauðann. Von um eilífð.

OG kannski var það einmitt þess vegna sem þú gast ekki samsamað þig með kyrrðinni við jötuna. Kannski er þín kyrrð tengd erfiðri minningu um annars konar jötu, dánarbeð hans eða hennar sem er horfinn á braut. Það er ekki bara gleði kærleikans sem dýpkar við jötuna, sorg og sársauki kærleikans dýpka þar líka.

Komdu, heyrirðu skilaboðin, þau geta læknað og gert okkur heil; Verið óhrædd, ég boða ykkur mikinn fögnuð. Þér er í dag frelsari fæddur.

Já Guð kom fyrir þig.

Það  þýðir að innst inni erum við ekki ein – Innst inni er Guð hjá okkur, ekki bara þegar við tökum frá tíma og hittum hana sjálfa í jötunni eins og í kvöld, heldur alltaf, alla daga ársins, allt lífið og handan þess líka.

Það þýðir líka að Guð færir nýjan ilm í erfiðar aðstæður, nýja sýn á lífið þegar erfiðleikar steðja að. Ef við höfum hugrekki til að elska af öllum þeim krafti sem Guð gefur okkur þá vitjar hún okkar óvænt , þegar við eigum síst á því von og gefur okkur hlutdeild í leyndardómi sínum.

Já við vitum af hverju Guð kom. Guð kom í heiminn til að frelsa þau sem í honum eru. Sá fagnaðarboðskapur er fluttur til sérhverrar manneskju, til allra. Hann er Einfaldur en samt flókinn. djúpur og margslunginn.

Mikilvægasta spurningin hlýtur þó alltaf að vera hvaða merkingu  hefur boðskapurinn fyrir þig? Hvað mætir þér í boðskap jólanna? Hvar hægir á tímanum í þínu lífi? Hvernig skynjar þú leyndardóminn? Hvað er þér heilagt?

Fagnaðar boðskapur jólanna leiðir okkur inná við . Við jötuna hefur eitthvað nýtt orðið til. Þar hefur fæðst Von. Von trúarinnar. Von sem lætur lítið yfir sér en er, undirstaða framgangs lífsins, dirfkraftur breytinga. Von sem er okkur mannfólkinu nauðsynleg.

Já jólahátíðinni hefur verið hringt inn og við höfum lagt umbúðirnar til hliðar. Á þessari jólanótt býður Guð okkur að leggja líka til hliðar allt sem angrar okkur, áhyggjur, stress, kvíða og sorgir, þó ekki sé nema í örlitla stund ,til að finna hvernig tíminn stendur kyrr eitt andartak. Til að skynja að kærleikur hennar, einn og sér, er fullkomlega nóg. Og hann rofnar aldrei – aldrei að eilífu.

Helgisaga Jólanna birtir okkur trú, von og kærleika sem Guð færir okkur. Nýfæddur Jesús býður okkur að þiggja það allt með hverri frumu líkamans og svo að við getum fundið helgan frið og sanna gleði í hjartanu  allan ársins hring. Amen.

Guð gefi ykkur öllum gleðilega jólahátíð.